„Ég hef fullan skilning á því að Íslensk erfðagreining geti ekki sinnt þessu til eilífðarnóns,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við fréttastofu. Hún segir ákvörðun Kára kalla á nýja nálgun en þó sé mikilvægt að stjórnvöld hafi áfram kost á að leita til fyrirtækisins um framhaldið.

Íslensk erfðagreining hættir aðkomu að skimun fyrir kórónuveirunni. Þetta kom fram í opnu bréfi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag. Þar segir að Íslensk erfðagreining hætti samskiptum við sóttvarnalækni og landlækni í dag og að síðustu sýnin sem fyrirtækið greini verði þau sem berist þann 13. júlí næstkomandi. 

Katrín segir að ákvörðun Kára kalli á nýja nálgun á landamæraskimunina, enda hafi framlag Íslenskrar erfðagreiningar verið ómetanlegt. Hún segist munu leggja sitt af mörkum til að finna megi farsæla lausn. Katrín mun eiga fund með landlækni og sóttvarnalækni á morgun til að ræða framhaldið.

Í bréfi Kára til ríkisstjórnarinnar þann 1. júlí lagði hann til að sett yrði á fót Faraldsfræðistofnun Íslands. Katrín svaraði þann 4. júlí og sagðist myndu taka tillögu Kára til skoðunar. Ráðinn hefði verið verkefnastjóri undir yfirstjórn sóttvarnalæknis og honum falið að skila tillögu til ríkisstjórnarinnar um verkefnið eigi síðar en 15. september. Í opnu bréfi Kára í dag sagði hann frestinn of langan og að nú hefði hann fengið sig fullsaddann á tillitsleysi stjórnvalda gagnvart Íslenskri erfðagreiningu. Fyrirtækið myndi því hætta aðkomu að skimun fyrir kórónuveirunni. 

Í viðtali við fréttastofu segir Katrín Jakobsdóttir að þau Kári séu sammála um að það sé nauðsynlegt að efla innviði heilbrigðiskerfisins til að takast á við faraldra á borð við kórónuveirufaraldurinn. Einnig sé mikilvægt að auka við þekkingu og rannsóknir á faröldrum.  

Hún segist ekki hafa rætt við Kára í dag en vonast til að þau geti rætt saman innan tíðar.