Íslandsmeistarar KR höfðu betur gegn bikarmeisturum Víkings í Pepsi Max-deild karla í gær. Leikurinn var hreint út sagt ótrúlegur og fengu allir þrír miðverðir Víkings að líta beint rautt spjald en KR vann leikinn 2-0. Kristinn Jakobsson, fyrrverandi dómari, segir að tvö spjöld af þremur hafi klárlega átt rétt á sér.

Staðan var enn markalaus á Meistaravöllum þegar fyrsta rauða spjaldið fór á loft. Kári Árnason fékk þá reisupassann fyrir viðskipti sín við Kristján Flóka Finnbogason sem var nærri sloppinn inn fyrir vörn Víkings en féll til jarðar. Helgi Mikael, dómari leiksins, var ekki í neinum vafa og rak Kára af velli.

„Samkvæmt bókinni er það hárrétt spjald. Brotið sem slíkt er ekki harkalegt en leikmaðurinn er kominn einn í gegn og Kári tekur í hann sem verður til þess að Kristján Flóki lætur sig falla niður á auðveldan hátt en brotið er slíkt; einn í gegn í upplögðu marktækifæri. Það er bara hreint og klárt rautt í mínum huga og ég held að Helgi Mikael hafi gert rétt í því atviki.“ segir Kristinn Jakobsson, fyrrum alþjóðadómari.

Rétt með Sölva en Halldór hefði mátt sleppa

Sölvi Geir Ottesen fékk svo rautt spjald í seinni hálfleik fyrir að slá í höfuð Stefáns Árna Geirssonar en Víkingar vildu meina að Pablo Punyed, leikmaður KR hefði ýtt við Sölva í því atviki sem hefði orðið til þess að Sölvi fór í Stefán.

„Miðað við hvernig ég sá það á vellinum þá veitir Pablo honum smá ýtingu í bak, Sölvi fellur við og slær til leikmanns KR, í andlitið á honum. Mér fannst það alltaf rautt spjald en Pablo uppsker líka áminningu fyrir að hafa ýtt honum. Þannig að ég tel að sú heildarniðurstaða hjá Helga Mikael hafi verið rétt líka.“ segir Kristinn.

Skömmu eftir spjald Sölva varð Halldór Smári Sigurðsson þriðji miðvörður Víkinga sem sá rautt eftir tæklingu á Kennie Chopart og Víkingar kláruðu leikinn þremur mönnum færri. Þriðja rauða spjald leiksins hefði þó ekki þurft að fara á loft að mati Kristins.

„Halldór Smári er góður og heiðarlegur leikmaður en ég tel að hann hafi komið með mjög heiftarlegum hætti í þessa tæklingu, að algjörlega óþörfu. Því miður lendir hann í manninum mjög illa og ég held það hafi verið hægt að réttlæta það spjald. En það hefðu margir geta séð í gegnum hendur sér og veitt honum áminningu fyrir það. En Helgi Mikael mat það þannig á vellinum að honum fannst þetta vera nægilegt brot til að vísa honum af velli og hefur lögin á bakvið sig gagnvart því. En ég held að í hita leiksins og miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá hefði ég sem eftirlitsmaður leiksins alveg verið sáttur við að sjá gult spjald á þetta.“ segir Kristinn.

Víkingar rændir vítaspyrnu

Víkingar voru þá ósáttir að hafa ekki fengið vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum þegar Daninn Kennie Chopart úr KR virtist brjóta á landa sínum Nikolaj Hansen í Víkingi innan teigs.

„Mér fannst Víkingar vera rændir vítaspyrnu þegar Kennie Chopart fer í andlitið á Jeppe inni í teig og mér fannst það vera bara hreint og klárt brot, leikbrot, og leikbrot innan vítateigs er bara vítaspyrna og það hefði getað fylgt áminning á Kennie í kjölfarið fyrir að beita olnboganum með þessum hætti.“ segir Kristinn.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali við RÚV eftir leik í gær að Víkingur muni áfrýja einhverjum dómanna. Ekki er ljóst hversu langt bann hver leikmannana þriggja eiga yfir höfði sér en aganefnd KSÍ fundar í vikunni.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Kristin sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.