Fjarðarheiðargöngum verður flýtt samkvæmt nýrri samgönguáætlun og hefjast framkvæmdir árið 2022. Áratugur gæti liðið þangað til göngin verða tekin í notkun en forseti bæjarstjórnar segir að ákvörðun um flýtingu strax færa heimamönnum von og auka bjartsýni.
Fjarðarheiðargöng á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar verða yfir 13 kílómetra löng og gætu kostað 35 milljarða. Ríkið greiðir helming og ætlar að ná því inn sem upp á vantar með veggjöldum. Seyðfirðingar fagna að vonum tíðindunum.
„Þetta er bara stórkostlegt þetta hefur verið mikil vinna sem hefur farið í þetta síðastliðin tvö ár. Þetta er barátta til rúmlega 40 ára. Þetta hefur þau áhrif að þetta gefur bæjarbúum von og þetta eykur bjartsýni. Og þar sem er bjartsýni og von þar er uppbygging þannig að þetta hefur mjög mikið að segja,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.
Fjarðarheiðargöngum fylgir líka talsverð vegagerð, ekki síst Héraðsmegin og í frummatsskýrslu eru teiknaðir upp þrír meginkostir - að leiða umferð áfram í gegnum miðbæ Egilsstaða eða að fara með umferðina norður eða suður fyrir bæinn. Héraðsmegin er unnið út frá því að gangamunni yrði innan við Dalhús í mynni Eyvindarárdals. Í Seyðisfirði yrði hann við núverandi veg ekki langt frá Gufufossi.
Göngin munu auka öryggi íbúa. Davíð Kristinsson, hótelstjóri á Öldunni á Seyðisfirði, er í björgunarsveit, hleypur til í sjúkraflutninga og þekkir hættuna af því þegar bæjarbúar verða innlyksa dögum saman - og einnig áhrifin á ferðaþjónustuna. „Á veturna vilja ferðaskrifstofur ekki bóka hjá okkur. Sökum þess að það eru stórar líkur á að gestir verði veðurtepptir. Með því að fá göngin þá eykur það möguleikana á að ferðaskrifstofur vilji bóka hjá okkur,“ segir Davíð.
Fram kemur í samgönguáætlun að í framhaldi af Fjarðarheiðargöngum verði ráðist í göng á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og svo Mjóafjarðar og Fannardals í Norðfirði. Leitað verður leiða til að tvöfalda Hvalfjarðargöng og gera göng í Reynisfjalli í samstarfi við einkaaðila.
Þá er stefnt að því greina aðra jarðgangakosti og forgangsraða til lengri tíma og eru nefndir sex kostir til viðbótar.
Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
Göng milli Fljóta og Hóladals í Siglufirði
Breikkun Múlaganga
Tröllaskagagöng
Göng milli Vopnafjarðar og Héraðs
Göng undir Lónsheiði til að taka af Hvalnesskriður