Elín Petersdóttir leikkona fer með hlutverk móður Rachel McAdams í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Hún þurfti meðal annars að læra að vefa fyrir hlutverk sitt í myndinni.

Myndin er hugarfóstur gamanleikarans Wills Ferrell og hann fer sjálfur með aðalhlutverk í myndinni ásamt Rachel McAdams. Myndin verður frumsýnd á streymisveitunni Netflix á morgun og þá sér Elín líkt og aðrir áhorfendur hana í fyrsta skipti. Myndin fjallar um Eurovision eins og nafnið ber til kynna og fer Rachel McAdams með hlutverk íslenskrar konu sem er að fara að stíga á svið í keppninni. Móðir söngkonunnar er að vonum bæði stolt og spennt fyrir því sem er í vændum. Tökurnar á myndinni segir Elín hafa verið mikið ævintýri en þær fóru fram bæði á Húsavík og í London. „Ég var lengur í London því ég þurfti að læra að vefa fyrir senu. Þannig að ég sat á hótelherbergi í London að læra að vefa,“ segir Elín. Staðsetningin sem valin var fyrir tökurnar féllu sannarlega í kramið hjá leikkonunni. „Þetta eru alveg tveir uppáhalds staðirnir mínir í heiminum svo að heppin ég,“ segir hún.

Framleiðslan var íburðarmeiri en Elín er vön í bransanum hér heima. „Það var fullt af fólki á settinu að vinna við allt mögulegt,“ segir hún. „Ég er vön að vinna í minni framleiðslu. Tveimur vikum eftir þetta var ég mætt á almenningsklósett að skipta um föt fyrir senu í Finnlandi.“

Hún segir að hún hafi alls ekki upplifað að myndinni væri ætlað að gera gys að eða lítið úr Íslandi eða Eurovision-keppninni. „Mér fannst þetta gert af mikilli alúð við viðfangsefnið og sérsklega Ísland. Það var mín upplifun.“ Og allir á settinu voru vinalegir, ekki síst stórleikkonan sem lék dóttur hennar. „Það var rosalega gaman að vinna með Rachel McAdams. Hún er rosalega fín.“

Það hefur ekki farið fram hjá Elínu að viðtökurnar hafa verið blendnar og fyrstu dómar flestir nokkuð neikvæðir. Hún lætur það ekki á sig fá. „Þannig er bara þess bransi,“ segir hún. „Stundum fær maður góða dóma og stundum slæma. Maður tekur því.“

Rætt var við Elínu Petersen í Morgunútvarpinu á Rás 2.