„Þetta embætti er þannig að maður er að læra hvern einasta dag. Hver dagur færir nýjar áskoranir. Þá sækir maður í sjóð reynslunnar, sækir í sjóð eigin samvisku. Ef maður gerir mistök þá gengst maður við þeim og lærir af þeim,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Hann var viðmælandi Einars Þorsteinssonar í Kastljósi í kvöld. 

Einar spurði Guðna meðal annars út í mál Róberts Downey, kynferðisafbrotamanns sem fékk uppreist æru árið 2017. Ákvarðanir um uppreist æru þurfa formlega staðfestingu forseta Íslands og undirritaði Guðni ákvörðun dómsmálaráðuneytisins í málinu. Hann lýsti því síðar yfir að hann væri miður sín vegna málsins. 

Aðspurður hvers vegna hann hafi skrifað undir skjölin án þess að kanna hvort þau samræmdust samvisku sinni segir Guðni að hann hefði fylgt fordæmum. „Það hefur aldrei komið fyrir að forseti hafi ekki samþykkt [ákvörðun um uppreist æru]“.

Ákvörðunin kom af stað óánægjuöldu í samfélaginu og segir Guðni að hann hafi fundið sig knúinn til þess að bregðast við. „Þá fann ég það að ég myndi ekki skýla mér á bak við það að vera ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum,“ segir Guðni. Hann boðaði stúlkurnar sem þoldu brot af hálfu Róberts á sinn fund í kjölfar ákvörðunarinnar. 

Lögum um uppreist æru hefur nú verið breytt. Guðni ítrekar að það hafi þó ekki verið í verkahring forseta að breyta lögunum. Hins vegar hafi enginn velkst í vafa um afstöðu hans í téðu máli. „Þetta fannst mér gott dæmi um að forseti hefur áhrifavald og sterkar skoðanir og lætur það í ljós,“ segir Guðni. 

Málskotsrétt forseta bar jafnframt á góma í viðtalinu. Mótframbjóðandi Guðna, Guðmundur Franklín Jónsson, hefur lýst því yfir að hann sé óhræddur við að nýta sér þennan rétt. Guðni hefur ekki útilokað beitingu málskotsréttarins. Hann vill þó ekki gefa út hve margar undirskriftir þurfi til til þess að hann finni sig knúinn til þess að beita honum. 

„Ég vil ekkert segja um það fyrirfram, hvert mál lýtur eigin lögmálum. Að mínu mati væri óskynsamlegt að nefna ákveðna tölu,“ segir Guðni. 

Forsetakosningar fara fram laugardaginn 27. júní. Frambjóðendur eru tveir, þeir Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson.