„Ég býð mig fram til forseta til að vera öryggisventill þjóðarinnar á Bessastöðum,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi í viðtali við Einar Þorsteinsson í Kastljósi kvöldsins.  

„Það sem drífur mig áfram er fyrst og fremst réttlætiskennd. Ég er í raun að halda áfram starfi Ólafs Ragnars Grímssonar sem byrjaði á að nýta sér 26. greinina sem við köllum málskotsréttinn,“ segir Guðmundur. Næstu dagar fari í að undirbúa flutninga á Bessastaði.

Hann segir að ef staðið yrði í vegi fyrir því að hann lækkaði laun forseta myndi hann fara mánaðarlega með helming launa sinna á Barnaspítala Hringsins.  

Guðmundur dáist að staðfestu Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Ég dáist að því hvað hann er búinn að vera duglegur. Hann er búinn að útrýma atvinnuleysi hjá svörtu fólki, hjá konum, hjá ungu fólki. Það hefur aldrei verið betra efnahagslíf í Bandaríkjunum heldur en akkúrat núna.“ Hann segir framgang Trumps í siðferðismálum og framkomu hans við fólk ekkert trufla sig. „Ég horfi ekki á manninn, ég horfi á það sem hann gerir. Og það er dálítið lýsandi fyrir mig.“ 

Að lokum segist Guðmundur „ekkert banginn“. Fólk hafi nú val milli annars vegar virks og hins vegar óvirks forseta.  

Aðspurður hvort hann trúi því að hann sigri svarar hann: „Já, allar götur, ég hugsa að þetta fari 53/47.“ 

Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, verður gestur í Kastljósi á morgun, fimmtudaginn 25. júní.