Menntamálaráðherra ætlar að höfða mál gegn konu sem kærunefnd jafnréttismála taldi að ráðherrann hefði brotið á, þegar gengið var framhjá henni við ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra. Með þessu hyggst ráðherrann ógilda úrskurð kærunefndarinnar.
Í lok maí úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, kærði ráðninguna til kærunefndarinnar, en hún var ekki í hópi þeirra fjögurra sem hæfisnefnd mat hæfasta í starfið.
Í lögum um kærunefnd jafnréttismála segir að úrskurðir hennar séu bindandi gagnvart málsaðilum, en þeim sé heimilt að bera úrskurði hennar undir dómstóla. Það þýðir að ráðherra þarf að höfða mál gegn Hafdísi sjálfri til þess að hægt sé að ógilda úrskurðinn.
„Það verður að segjast að þetta kemur á óvart og umbjóðandi minn bjóst ekki við þessu þegar hún kærði þessa ákvörðun til kærunefndar jafnréttismála. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður, að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra til kærunefndarinnar,“ segir Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar Helgu.
Segir brýnt að eyða óvissu fyrir dómstólum
Í svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu segir að ráðherra hafi aflað lögfræðiálita, sem bentu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Þá þyki úrskurðurinn bjóða upp á lagalega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið er eftir við skipan embættismanna. Vegna þessa telur ráðherra brýnt að lagaóvissu verði eytt fyrir dómstólum og höfði þess vegna mál.
Samkvæmt lögum um kærunefnd jafnréttismála verður málskostnaður Hafdísar greiddur úr ríkissjóði, sem stendur þannig straum af öllum kostnaði við málssóknina.
Heldurðu að þetta geti haft einhver áhrif á kærunefnd jafnréttismála?
„Maður veltir því fyrir sér að sjálfsögðu, hvort þetta geri það. Auðvitað hlýtur þetta að draga úr fólki sem er mögulega að íhuga að kæra eitthvað mál þangað, að draga úr því að kæra mál þangað því það gæti átt von á því að það verði höfðað persónulegt mál gegn því,“ segir Áslaug.