Fjármálaráðherra segir að allar helstu forsendur fyrir gerð lífskjarasamnings séu brostnar. Ekki sé áhugavert að velta því fyrir sér. Brýnna sé að finna út úr því hvernig unnt sé að bjarga störfum og efla efnahagslífið. „Við erum öll í einhverjum nýjum veruleika og ég hef í sjálfu sér ekki mikinn áhuga á spurningunni: eru forsendur lífskjarasamninganna breyttar eða brostnar. Ég hef miklu meiri áhuga á að ræða: hvernig eigum við að fara af þessum stað,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Forsendur lífskjarasamnings eru brostnar að mati Alþýðusambandsins. Á fundi með formönnum aðildarfélaganna í gær var rætt um hvort segja eigi upp samningum í haust. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir margar forsendur hafa breyst frá því lífskjarasamningar voru gerðir fyrir ári síðan. Horfur í efnahagslífi hafi verið allt aðrar.
„Þær voru auðvitað um allt annað atvinnustig, allt annan hagvöxt, allt aðra stöðu hjá ferðaþjónustunni. Það er ekki langt síðan það voru verkföll hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á hótelum, svo dæmi séu tekin. Þannig að ég held að það sé alveg augljóst út frá mörgum sjónarhornum að allar helstu forsendur fyrir gerð lífskjarasamninganna og þar með talið fyrir þeim launahækkunum sem þar var samið um, þær hafa breyst. Þessu hafa atvinnurekendur haldið á lofti. Af hálfu launþegahreyfingarinnar er bent á önnur atriði sem menn eru ósáttir við. Nú við getum sagt í ríkisstjórninni að okkar forsendur, þær hafa líka gjörbreyst. Við erum öll í einhverjum nýjum veruleika og ég hef í sjálfu sér ekki mikinn áhuga á spurningunni: eru forsendur lífskjarasamninganna breyttar eða brostnar. Ég hef miklu meiri áhuga á að ræða: hvernig eigum við að fara af þessum stað? Hvernig ætlum við að bregðast við gjörbreyttum forsendum? Það þarf ekki einu sinni að spyrja sig að því hvort forsendur hafa breyst. Við erum stödd í mestu efnahagslægð í 100 ár. Og nú þurfum við að fara að ræða saman um það hvernig við ætlum að byggja samfélagið upp og gera það sterkara og öflugra, bjarga störfum og skapa ný störf, beita opinberum fjármálum til þess að örva og hvetja, vera með ívilnanir þar sem það á við og hætta að gera hluti sem eru óskilvirkir. Þetta er verkefnið. Hvort að lífskjarasamningsforsendurnar standist eða ekki, það finnst mér bara svo augljóst að það er allt komið út í veður og vind og ekki áhugaverð spurning fyrir daginn í dag,“ segir Bjarni.
En gæti þá jafnvel þurft að endurnýja þessar forsendur og gera nýjan lífskjarasamning?
„Við erum að endurnýja allar okkar forsendur fyrir ríkisfjármálunum. Við þurfum að horfa aftur til næstu fimm ára eins og við gerum á hverju ári. Við erum í gjörbreyttum veruleika og við þurfum að aðlaga okkur að honum. Við erum að leggja á ráðin um það hvernig við getum beitt opinberum fjármálum til þess að verja störf og hlúa að fjölskyldum og fyrirtækjum þannig að hér verði áfram gott að búa og við verðum með samkeppnishæft efnahagslíf til framtíðar. Ég held að það sé verkefni okkar allra. Hvernig aðilar vinnumarkaðarins vilja taka á þessari stöðu í haust, það ætla ég ekki að segja þeim neitt fyrir um. En fyrir mér eru alveg augljóst að það eru allar forsendur breyttar. Við horfum upp á tugi þúsunda Íslendinga með atvinnuöryggi sitt í uppnámi og staða ríkissjóðs er gjörbreytt og við erum bara öll að horfa á allt aðra framtíð en við vorum að vonast til þegar samningarnir voru gerðir,“ segir Bjarni.