Joe Biden hefur öruggt forskot á Donald Trump Bandaríkjaforseta nú þegar rúmir fjórir mánuðir eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum, samkvæmt skoðanakönnunum. Biden mælist nú með rúmlega níu prósentustiga forskot, en svo mikill munur hefur varla sést í forsetakosningum síðustu áratuga.

Bandaríkjamenn kjósa sér forseta þriðja nóvember og það eru engin unglömb sem sækjast eftir embættinu, einu því valdamesta í heimi. Donald Trump er 74 ára og verður sá næst elsti sem hefur boðið sig fram, en aðeins mótframbjóðandi hans, Joe Biden, er eldri - en hann er 77 ára. Fari hann með sigur af hólmi verður hann sá fyrsti frá Delaware til að verða kjörinn forseti, en Trump verður einnig sá fyrsti frá Flórída, en hann flutti lögheimili sitt þangað í fyrra. Sitjandi forseti á jafnan erfitt með að ná endurkjöri og það hefur heldur dregið í sundur með þeim Trump og Biden það sem af er júnímánuði. 

Biden eykur forskotið hægt og bítandi

Þegar niðurstöðum kannana er safnað saman, eins og gert er á vef bandarísku tölfræðigreiningarsíðunnar FiveThirtyEight, sést að Biden hefur aukið forskot sitt allan þennan mánuð, og mælist nú með rúmlega níu prósentustiga forskot á Trump, sem hefur glímt við ýmsa erfiðleika, mótmælaöldu, heimsfaraldur og samdrátt í efnahagslífinu. Í gær mældist Biden með 51 prósent atkvæða en Trump 41,7 prósent. Í byrjun júní var Biden með 48,2 prósent en Trump með 42,8 prósent. 

Sigur í Flórída skilar Biden langt

Línur hafa verið nokkuð skýrar í forsetakosningum í Bandaríkjunum síðustu tvo áratugi. 22 ríki hafa alltaf kosið Repúblíkana, og líklegt að þau geri það flest áfram, þó nokkur þeirra standi ansi tæpt samkvæmt könnunum, en það gerðu þau reyndar líka í síðustu kosningum. 15 hafa alltaf kosið Demókrata. Þar eru fleiri kjörmenn en 270 þarf til að tryggja sér forsetaembættið. Því er spáð að Nevada, Colorado og Nýja-Mexíkó fari til Demókrata. Núna stendur Biden reyndar mjög vel í könnunum og fengi líka Virginíu og Norður-Karólínu. Trump þarf að vinna varnarsigra og gerir líklega í Iowa og Indiana, en það verður barist um ríkin sem eftir standa, Miðvesturríkin og Arizona - og þar er höfuðáhersla Trumps. Hann er núna í Arizona og heimsækir Wisconsin síðar í vikunni. Miðvesturríkin, Pennsylvanía, Winsconsin, Minnesota og Ohio, eru öll með fleiri en tíu kjörmenn og því mikilvæg í baráttunni, en þó að Trump fái þau öll, þá gæti farið svo að það ekki til, því ef Biden vinnur sigur í Flórída, myndi það líklega duga honum til sigurs.

Fer eins fyrir Biden og Hillary?

En kannanir gáfu svipaða mynd og þessa fyrir fjórum árum. Þá mældist Hillary Clinton með öruggt forskot um sumarið en Trump hafði að lokum betur. Hillary náði þó aldrei nema um sjö prósentustiga forskoti. Þá brugðust flestar spár og ekki útilokað að það sama sé uppi á teningnum núna, en svo mikið er víst að Biden er með yfirhöndina. Tekist verður á um Flórída næstu mánuði en kosningateymi barðist fyrir því að flokksþing Repúblíkana yrði fært til Flórída, en það verður haldið í Jacksonville í lok ágúst. Þeir Trump og Biden fá formlega útnefningu á flokksþingum í ágúst og mætast í fyrstu kappræðunum í septemberlok. 

Það getur ýmislegt gerst á lokasprettinum, og hann verður óhefðbundinn vegna faraldursins. En Trump lætur hann ekki stöðva sig. Hann heldur fjöldafund í Pheonix í Arizona í kvöld og heldur svo til Winsconsin síðar í vikunni og ætlar greinilega að freista þess að snúa taflinu sér í vil sem allra fyrst.