Þegar Hilmari Agli Jónssyni var synjað um leyfi til að flytja hundinn Rjóma frá Noregi til Íslands hófst lygileg atburðarás og fimm ára þrotlaus barátta við kerfið.
Í nýrri heimildarmynd sem er á dagskrá RÚV í kvöld er fjallað um baráttu Hilmars fyrir hundinum Rjóma. Halldór Runólfsson var yfirdýralæknir þegar málið kom fyrst inn á borð Matvælastofnunar
sem neitaði að gefa leyfi fyrir flutningi hundsins til landsins. Var vísað til þess að tegundin English Bull Terrier væri náskyld Pit Bull Terrier sem væri mjög árásargjörn. Hilmar Egill taldi þennan skyldleika mjög orðum aukinn og kærði afgreiðslu málsins til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem dæmdi MAST í vil.
„Það var bara eitthvað svo furðulegt við niðurstöður dómsins,“ segir Hilmar Egill. „Ef þú lest lokaorðin þá getur ekki verið að dómari, eða sá maður sem dæmir í þessu máli fari svona virkilega úr vegi sér til að sýna fram á að Matvælastofnun hafi rétt fyrir sér. Ekki nóg með hann notaðist við rök MAST heldur kom með sín eigin líka, fullyrti til dæmis að English Bull Terrier væri stórhættulegur hundur sem væri verið að banna út um allan heim, eins og á Írlandi. Sem var bull og vitleysa, ég hafði samband við þarlend yfirvöld og þar er enginn hundur bannaður.“
Hann rak svo augun í hverjir kváðu upp úrskurðin. Annar þeirra var áðurnefndur Halldór Runólfsson sem hafði úrskurðað í málinu fyrir hönd Matvælastofnunar. Hann hafði skipt um vinnustað og var orðinn skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem tók við stjórnsýslukærunni. „Maðurinn sem tók við málinu hjá Matvælastofnun, tók aftur við málinu á stjórnsýslustigi, og dæmdi aftur í máli sem hann hafði verið með inni á borði hjá sér nokkrum mánuðum áður. Hann taldi sig vera algjörlega hlutlausan aðila í því máli.“
Rjómi eftir Freyju Kristinsdóttur segir frá baráttu Hilmars við kerfið og fléttar saman sögu hundahalds á Íslandi og viðhorfum Íslendinga til hunda. Myndin hlaut hvatningarverðlaun dómnefndar á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg. Hún er á dagskrá RÚV klukkan 20.15.