Hlaðvarpið heldur áfram að ryðja sér rúms hér á landi og nú hefur það eignast sinn eigin helgidóm: Hljóðkirkjuna. Það er þó ekki trúfélag heldur eins konar hlaðvarpsstöð þar sem Dómsdagur marar undir og Draugar fortíðar lifna við. En meira þarf til en margur myndi ætla.

Stundum er eins og allir séu að fá sömu hugmyndina á sama tíma. Þessa dagana er ein slíkra hugmynda: „Hey, af hverju búum við ekki til hlaðvarp?“ 

Og hvers vegna ekki? Byrjunarkostnaðurinn þarf ekki að vera hár og miðillinn er jafn aðgengilegur og bloggin hér forðum daga. En það kaldhæðnislega við góða hljóðvinnslu er að því betri sem hún er, því minna tekur hlustandinn eftir henni. 

Þetta þekkja þeir bræður Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir sem tóku sér far með Lestinni á Rás 1 á fimmtudag. Þeir hafa tekið hlaðvarpsgerðina skrefi lengra og stofnað eins konar hlaðvarpsstöð, Hljóðkirkjuna, sem hatt yfir hlaðvarpsframleiðslu þeirra bræðra. Þeir hafa hvorki meira né minna en fjögur hlaðvörp á sínum snærum: Dómsdag, Bestu plötuna, Drauga fortíðar og Snæbjörn talar við fólk. 

„Auðvitað er ekkert launungarmál að þetta er sturluð vinna,“ segir Snæbjörn. „Þetta er ekki bara opna míkrófónin og byrja. Það eru auðvitað pælingar á bak við þetta og Baldur situr við og klippir og hljóðblandar á milljón.“

„Þetta er bara eins og allt annað. Það sem er best það flýtur ofan á og kannski meira í þessu en öðru því fólk þarf að leita og mynda sér sína eigin skoðun,“ segir Snæbjörn. „Maður finnur líka fyrir því að hver og einn er að hlusta af því að hann vill hlusta.“

Auglýsendur kveikja í rólegheitum

Þeir Snæbjörn og Baldur fá mikil viðbrögð frá hlustendahópnum sínum. Þessi virka hlustun er hvetjandi fyrir hlaðvarpara sem vilja gera meira. En eru þá peningar í þessu? Svarið er: já og nei.

„Það virðist vera þannig að íslensk fyrirtæki séu enn að kveikja á þessu í rólegheitum,“ segir Baldur. „En ég vil náttúrulega bara gera þetta alla daga, ég bara finn mig í þessu.“  

Eigi það að verða að veruleika þarf þó einhver að borga. Snæbjörn telur að notendur hlaðvarpa séu tilbúnir til að leggja við hlustir, þegar kemur að auglýsingum. Sjálfur bregðist hann þannig við, með meiri þolinmæði, þegar hann hlustar á vinnu annarra einyrkja. 

„Ég ætla að hlusta á þessa auglýsingu af því að ég veit að þú sem situr þarna heima hjá þér að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt, þú færð pínu borgað fyrir þetta. Og þess vegna nennirðu að gera þetta og þess vegna geturðu réttlætt þetta fyrir manninum þínum og börnunum þínum. Og það finnst mér frábært.“