Streymisveitur og framleiðslufyrirtæki hafa síðustu daga fjarlægt einstaka kvikmyndir, þætti og jafnvel heilu þáttaraðirnar í kjölfar mótmælaöldunnar sem geisar í Bandaríkjunum. Björn Þór Vilhjálmsson lektor í bókmennta- og kvikmyndafræði segir að það sé misráðið. „Við eigum að horfast í augu við þetta. Við verðskuldum ekki að sópa þessu undir teppið.“

Gamanþættirnir Fawlty Towers og Little Britain eru á meðal sjónvarpsefnis sem fjarlægt var af efnisveitum BBC í kjölfar mótmæla gegn kynþáttahatri sem brutust út eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis í Bandaríkjunum í maí. Kvikmyndin Gone With the Wind var sömuleiðis látin fjúka á streymisveitunni HBO Max.

Í tilviki Fawlty Towers var stakur þáttur tekinn af efnisveitum, þátturinn Don't Mention the War, en yfirlýst ástæða var að særandi eða óþægilegt orðfæri sem haft er uppi í þáttunum krefðist endurskoðunar á honum. Þátturinn er nú aftur aðgengilegur en John Cleese, aðalleikari og höfundur Fawlty Towers, mótmælti ákvörðun BBC um að fjarlægja þáttinn. Gamanþættirnir Little Brittain og Come Fly With Me, með David Walliams og Matt Lucas, voru fjarlægðir af Netflix vegna atriða þar sem leikararnir komu fram í gervi sem þeldökkir menn, í svokölluðu „blackface“. BBC sagði að tímarnir hefðu breyst síðan þættirnir voru sýndir, en Little Britain hófu göngu sína 2003 og Come Fly With Me árið 2010. Kvikmyndin Gone With the Wind, síðan 1939, hefur löngum verið gagnrýnd fyrir rasisma. HBO hyggst gera hana aðgengilega á efnisveitu sinni á ný ásamt fororði fræðikonunnar Jacqueline Stewart, þar sem kvikmyndin er sett í sögulegt samhengi.

Björn Þór Vilhjálmsson lektor í bókmennta- og kvikmyndafræði við Háskóla Íslands ræddi málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, þar sem spurningunni um hvort þetta snúist um ritskoðun á fortíðinni var velt upp. Hann tekur undir það. „Það er gríðarlega hættulegt. Völd BBC í hinum enskumælandi heimi og í Evrópu í gegnum menningarvald er heilmikið. Netflix er risafyrirtæki. Það sem er að gerast núna er að þau hafa nú þegar svo mikil völd; bara í samhengi við sína dagskrárgerð. Netflix er að eyða áður óþekktum upphæðum í sína dagskrárgerð. Fyrirtækið mótar sínar stefnu, hugsjónir og hugmyndafræði, efnið sem kemur frá þeim er í samræmi við þessa línu. En það er allt annað þegar svona fyrirtæki kaupa katalóga af öðrum fyrirtækjum og eignast þannig myndir kannski eins og Gone With the Wind.“

Ættum heldur að hugsa um framtíðina

Björn Þór segir það sem eigi sér stað þessa daga, að fólk biðjist afsökunar á menningarefni sem búið var til fyrir 15-20 árum kunni að vera skynsamlegt eins og staðan er núna – til að lægja öldurnar – en þetta sé eftir sem áður ekki eðlilegur farvegur fyrir menningu. „Við eigum ekki endilega að hafa þetta miklar áhyggjur af fortíðinni. Það er búið og gert. Við breytum henni ekkert. Skiptir engu máli hvort einhver biðjist afsökunar eða ekki. Sjálf erum við að gerast sek um hluti sem hægt er að breyta í rauntíma og við ættum að vera að hugsa um það held ég – og framtíðina.“ 

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að átt sé við gamla afþreyingu segir hann. „Að taka út úr því, klippa það, jafnvel taka einstaka þætti úr lengri seríum því þeir samræmast ekki þeim viðmiðum sem við erum með í gangi núna á þessum þriðjudegi – þegar við erum með önnur viðmið í næstu viku. Það út af fyrir sig er áhyggjuvaldandi vegna þess að þetta er að gerast líka fyrir aftan luktar dyr hjá stórum valdamiklum einkafyrirtækjum. Þetta eru siðblind fyrirbæri. Þau eru nú orðin næstum því manneskjur en ef þau eru manneskjur þá eru þau bæði siðblind og síkópatar. Þeim er nákvæmlega sama um blökkufólk, þeim er nákvæmlega sama um réttindamál minnihlutahópa. Þau eru bara að velta fyrir hvað er það sem neytendur vilja sjá akkúrat núna.“

Efni sem líklegt er til að stuða fjarlægt

Björn Þór segir að sameiginlegur rauður þráður í gegnum ólík lönd sé fyrirbærið „blackface“, þar sem hvítir skemmtikraftar líkja eftir þeldökkum skemmtikröftum. „Þetta er rosalega viðkvæmt í Bandaríkjunum,“ segir Björn Þór um leið og hann játar að geta ekki gert menningarsögulegri vigt þessa fyrirbæris skil. „Blackface“ var afar vinsæl afþreying á fyrstu áratugum síðustu aldar í Bandaríkjunum en maður þarf ekki að vera mjög vel lesinn í bandarískri menningarsögu til að átta sig á því hve lítillækandi fyrirbærið er. Björn Þór varar hins vegar við því að slíkt efni sé látið hverfa. „Þarna er verið að taka út efni sem er talið líklegt til að stuða áhorfendur. Það er líka hættulegt og á alls ekki að gera.“

Það besta sem við getum gert er að eyða hvorki tíma né kröftum í að berjast við drauga fortíðar segir Björn Þór. „Gone With the Wind er ekki að fara að gera neitt í dag. Hún skiptir engu máli í dag. Hún skiptir gríðarlegu máli í kvikmyndasögunni og er kennd í háskólum. Fólk á ákveðnum aldri ólst upp við hana og elskar hana en hún er ekki vandamálið. Það eina sem hún segir okkur er að það var rasismi í Bandaríkjunum árið 1939. Hver veit það ekki? Hún er ekki að fara að sjokkera neinn.“