„Það var bókstaflega erfitt að leggja Sapiens frá sér, þetta reyndist vera spurning um tón bókarinnar, höfundarröddina, og skipulagið á framvindunni, sjálf efnistökin,“ segir bókarýnir Víðsjár um mannkynssögu ísraelska sagnfræðingsins Yuval Noah Harari sem hefur farið sigurför um heiminn.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Yuval Noah Harari er ísraelskur sagnfræðingur sem kennir við Hebrew háskólann í Jerúsalem. Sérsvið hans er stríðstækni miðalda en fyrir nokkrum árum var ákveðið í deildinni hans að bjóða upp á inngangsáfanga í mannkynssögu, frá upphafi til vorra daga. Námskeið af þessu tagi voru algengari einu sinni en þau eru í dag, þau hafa fallið dálítið úr tísku. Þetta er alltof mikið efni á alltof stuttum tíma, fannst mörgum, engu er gerð almennileg skil, það er ætt eins og í höfrungahlaupi í gegnum allskonar ólíka hluti, nema þar sem farið er yfir efnið á hundavaði. Stefnan í fræðunum hefur frekar verið að dvelja með ígrunduðum hætti við afmarkað efni, eins og frönsku byltinguna, og skilja þannig við nemendur í misserislok að þeir hafi djúpstæðan skilning á framvindu byltingarinnar, orsökum hennar og afleiðingum. Enda vildi enginn kenna yfirlitsnámskeiðið og verkið féll að lokum í skaut nýjasta og yngsta liðsmanns deildarinnar, áðurnefnds Yuval Noah Harari.
Fyrirlestrarnir sem Harari flutti í þessu námskeiði eru uppistaðan í bókinni Sapiens. Mannkynssaga í stuttu máli sem út kom í fyrra í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur, en óhætt er að segja bók þessa hafa farið sigurför um heiminn. Frá því að bókin kom fyrst út á hebresku árið 2011 og svo á ensku þremur árum síðar, eða 2014, hefur ritverk þetta verið þýtt á um 50 tungumál og selst í yfir 12 milljón eintökum. Bill Gates telur Sapiens með sínum tíu eftirlætisbókum, Barack Obama bar lesturinn saman við það að berja pýramídana í Egyptalandi fyrst augum, og höfundurinn er að sama skapi orðinn heimsþekktur. Eitt kvöldið er hann í kvöldverðarboði heima hjá Mark Zuckerberg í Palo Alto, hitt kvöldið flytur hann 25 mínútna erindi á ráðstefnu og þiggur fyrir það 50 milljón krónur hið minnsta.
Og viljandi leiddi ég þessa bók framhjá mér árum saman. Ef ég á að vera hreinskilinn þá held ég að mér hafi kannski fundist ég aðeins of góður fyrir hana; minn bakgrunnur er í hugvísindum og ég gat varla ímyndað mér að þessi bók, enda þótt hún væri metsölubók og kannski vegna þess að hún var svo mikil metsölubók, hefði nokkuð við mig að segja, eða mér að segja. „Mannkynssaga í stuttu máli“ – svo ég rifji aftur upp undirtitil bókarinnar – nei takk, hugsaði ég.
Það gleður mig hins vegar að geta sagt frá því að eitt kvöldið teygði ég mig í ritið, byrjaði að lesa og komst tiltölulega fljótt að því að ég hafði haft kolrangt fyrir mér. Milljónirnar tólf, Bill Gates og Obama höfðu rétt fyrir sér. Það var bókstaflega erfitt að leggja Sapiens frá sér, þetta reyndist vera spurning um tón bókarinnar, höfundarröddina, og skipulagið á framvindunni, sjálf efnistökin.
Umfjöllun Harari um mannkynssöguna er í grófum dráttum í tímaröð, að vísu er sögutími þessarar rétt liðlega 500 blaðsíðna bókar þrettán og hálfur milljarður ára, en kennileitin sem mestu máli skipta fyrir verkið eru þrjár byltingar: Vitsmunabyltingin, þegar maðurinn öðlast hæfnina til að beita afstrakt hugsun fyrir um það bil 70.000 árum, landbúnaðarbyltingin fyrir 10.000 árum og vísindabyltingin fyrir 500 árum. Af þessum þremur byltingum er sú elsta umdeildust, vitsmunabyltingin, og ljóst er að ekki taka allir undir túlkun Harari á atburðarásinni hvað hana varðar. Að vísu er lítið vitað um það sem var að eiga sér stað í sögunni fyrir svona löngu síðan, eða af hverju aðeins ein dýrategund þróaði með sér háþróuð hugræn ferli, og Harari er jafnan afar hreinskilinn um takmarkanir þekkingarinnar þegar litið er um öxl svona langt í tíma. Það á reyndar við um vitsmunabyltinguna líka, þar slær hann líka ákveðna fyrirvara, en í umræðunni um forsögu mannsins kemur eitt helsta höfundareinkenni Harari strax skýrt fram: Djarfar og sjálfsöruggar alhæfingar, skarpar og oft óvægnar, og svo óvæntar samlíkingar. Þannig er sjaldan staldrað við einstök söguleg atvik nema til að setja þau í samhengi við eitthvað annað, og þetta nýja samhengi sem þannig er skapað með líkingum og samanburði er stundum svo hressilegt að það er eins og vægt raflost fyrir lesandann.
Til að útskýra vitsmunabyltinguna og mikilvægustu arfleifð hennar, hæfni mannsins til að ímynda sér hluti sem ekki eru til, vísar Harari til að mynda jafnt til tilkomu trúarbragða og goðsagna að fornu og goðsagnarinnar sem hann kennir við lagaumhverfi hins nútímalega réttarríkis, og svo spilar franskt bílafyrirtæki lykilhlutverk í allri umræðunni. Og hér má ítreka að línulega frásögnin er ekki einu sinni komin að fyrstu heimsveldunum í austri þegar franska bílafyrirtækið stígur að miðju frásagnarinnar. Þannig framandgerir Harari það sem lesandi taldi sig vita, en hann er líka fyndinn, stundum ísmeygilega húmorískur, nokkuð sem virkar einstaklega vel með fjarlægu, stundum kaldhömruðu sjónarhorninu á umsvif aðalpersónunnar, þessa furðulega mannapa, í gegnum tíðina.
Ekkert af þessu er hafið yfir gagnrýni, og Harari hefur verið gagnrýndur fyrir eitt og annað, en við lesturinn verður líka ljóst að forgangsröðunin hjá höfundi er alls ekki sú að gera öllum fræðilegum vafamálum ítarleg skil heldur að skapa eins konar nýja stórsögu fyrir nútímalesendur, kannski mætti jafnvel kalla það sem Harari er að skrifa „stærstu söguna“ og sú saga er ekki endilega hliðholl manninum. En þarna hallar Sapiens sér líka að orðræðu heimspekinnar fremur en sagnfræðinnar og vangaveltur höfundar um mannlega tilvist og mannlegt ástand kallast á við þrjú grundvallarlögmál búddisma, það er að segja að allt sé breytingum undirorpið, ekkert eigi sér ákveðinn og óumbreytanlegan kjarna, og að þjáning sé óumflýjanleg. Þannig er líka eins og Harari sé hálf hryggur yfir öllu mannsins brölti síðan í fornsteinöld, fánýti alls blasir við. En þótt ástandið sé kannski vont þá er í öllu falli ekki langt eftir samkvæmt Harari. Lokahluti bókarinnar útskýrir með ansi forvitnilegum hætti hvernig maðurinn sem tegund er á lokametrunum. Tæknibyltingarnar sem eru handan við hornið og þá einkum tilkoma gervigreindar hringja inn nýja vitsmunabyltingu, en ólíkt þeirri fyrstu sem krýndi manninn allsráðandi mun þessi velta honum úr sessi.