Goðafoss í Skjálfandafljóti var friðlýstur við hátíðlega athöfn í dag. Umhverfisráðherra segir ekki of seint að friðlýsa þótt ráðist hafi verið í miklar framkvæmdir á svæðinu.
Það var glatt á hjalla við Goðafoss í dag þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingu hans.
Samstarfshópur Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar og landeigenda að fossinum hafa unnið að friðlýsingunni í tæpt ár.
Stærð svæðisins eru um 0,2 ferkílómetrar og afmarkast af fossinum sjálfum og næsta nágrenni.
Goðafoss er friðlýstur sem náttúruvætti og meginmarkmið að vernda sérstæðar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan.
Það er búin að vera mikil uppbygging síðustu ár til að bæta aðgengi ferðamanna. Það er búið að malbika bílaplan, leggja göngustíga, byggja útsýnispalla.
En er þá ekkert of seint að friðlýsa svæðið núna? „Nei alls ekki, við erum náttúrlega bæði að friðlýsa fossinn og allt hans umhverfi,“ svarar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. „En líka þetta sem er hérna og felst í því að byggja innviðina upp þannig að náttúran geti tekið á móti gestunum.“
Þingeyjarsveit hefur síðastliðin átta ár staðið að uppbyggingu við fossinn.
„Það er ekki nóg að byggja upp á svona ferðamannastöðum. Það þarf líka að reka svæðið og viðhalda og það er kannski ekki hlutverk sveitarfélagsins,“ segir Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.
Við undirskriftina færist umsjón svæðisins til Umhverfisstofnunar.
„Og þar með er hægt að koma með landvörslu, fræðslu og eftirlit inn á svæðið,“ segir Guðmundur Ingi. „Ég segi takk fyrir framsýnina og er þess fullviss að Goðafoss, Skjálfandafljót og Íslendingar allir munu njóta þessarar ákvörðunar í dag um ókomna tíð.“