Í The Big Goodbye: Chinatown and the Last Years of Hollywood segir Sam Watson söguna af því hvernig bölsýna meistaraverkið Chinatown rataði á hvíta tjaldið, fjallar um arfleið hennar og afdrif helstu leikmanna, auk þess að setja í breiðara samhengi við draumamaskínuna Hollywood.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Draumaverksmiðjuna er að finna í borg englanna, sem er kannski eins og vera ber, í gullnu landi sólar og sanda, pálma og óskara, fallega fræga fólksins; þetta er skýjaborg hugans, eins konar raungerð álfabyggð þar sem eirðarlausir dagdraumar eru jafngildir veruleikanum og heimsfrægðin er ávallt innan seilingar, líkt og náð guðs. Nema auðvitað þegar vegferðin liggur niður breiðgötu brostinna drauma. Brostnir draumar – melódramatísk reisn orðanna er slík að hugsunin hlýtur að eiga rætur í handritafundum í Hollywood.
Hollywood er í senn langfrægasta úthverfi veraldar og kerfismiðja hnattræns menningariðnaðar. Dulræður blær er líka yfir örnefninu, ekki síst í hugum þeirra er aldrei hafa fæti stigið innan ríkismarka Kaliforníu, enda eru bandarískar kvikmyndir hér um bil það eina sameiningarafl sem til er í heiminum, ástsemd í þeirra garð má rekja frá kommúnistríkinu Kína til einræðisherrahallarinnar í Norður Kóreu. Dreifðar kvikmyndaframleiðslustöðvar Afríku eiga ekki margt sameiginlegt, annað þá en sívinsæl hermilíki Hollywoodmynda. Jafnvel þar sem andstaða er áþreifanleg, líkt og í Frakklandi, er markaðshlutdeild kvikmyndaverkbólsins risavaxin, auk þess sem skrautfjöður franskrar kvikmyndamenningar, kvikmyndahátíðin í Cannes, væri bókstaflega óhugsandi án rauða dregilsins og brosandi bandarískra kvikmyndastjarna. Óþarfi er kannski að fjölyrða um Ísland, við vitum hvernig staðan er hérna, fyrir íslensku bíóin er það að sýna „ekki-Hollywoodmynd“ hliðstæða hinnar árlegu tannlæknaferðar hins samviskusama borgara – verkefni sem leyst er af hendi án mikillar tilhlökkunar. Hér er Bíó Paradís auðvitað undanskilið, og ekki ætti að gefa upp alla von um að lífdagar þess hafi ekki runnið sitt skeið á enda.
Hollywood og allt hitt
Í Alþýðubókinni eftir Halldór Laxness frá árinu 1929 er ein hugvekja sem sker sig dálítið úr, langa greinin um Hollywood. Franska framúrstefnuskáldið Blaise Cendrars ferðaðist til fyrirheitna landsins einum sjö árum eftir að Halldór sigldi heim og skrifaði í kjölfarið heila bók um Hollywood, sem hann nefndi „mekka kvikmyndanna“. Ekki hefur íslensk kvikmyndasaga enn verið rituð hér á landi, og raunar hefur bara eitt bókarlangt rit verið skrifað á íslensku um þjóðarbíó, og þar er á ferðinni Bíósaga Bandaríkjanna eftir Jónas Knútsson frá 2009. Heimurinn hugsar um Hollywood, og umfang Hollywood er raunar svo yfirþyrmandi að í fræðunum er nokkuð viðtekið að hugtakið „heimsbíó“ sé eina andstæðan sem vit er í að para á móti Hollywood; öðrum megin á vegasaltinu er draumaborgin, hinum megin er heildarþungi allra hinna þjóðarbíóana á hnettinum.
Bandarísk kvikmyndasaga er jafnframt ítarlegast skrásetta þjóðarbíó sem sögur fara af, auk þess sem Hollywood hefur í næstum heila öld haft sérstaka unun af því að segja eigin sögu í kvikmyndaformi, allt frá What Price Hollywood til A Star is Born og svo La La Land. Í bókaútgáfunni hefur hins vegar tekið að bera á nokkuð nýstárlegri bókategund á þessu sviði, það er að segja verkum sem á kannski 400 eða 500 blaðsíðum segja sögu einnar ákveðinnar kvikmyndar, sem þá jafnframt er ásköpuð breiðari merkingarskírskotun en hinni dagfarslegu Hollywoodframleiðslu. Á umliðnum röskum tveimur árum hafa til dæmis þrjár bækur af þessu tagi komið út; viðföngin eru Casablanca, High Noon og The Wild Bunch, og þessum bókum bættist fyrir skemmstu liðsauki: The Big Goodbye: Chinatown and the Last Years of Hollywood eftir Sam Wasson.
Tvennt má segja að titillinn gefi til kynna með býsna skýrum hætti. Annars vegar að bókin fjallar um kvikmyndina Chinatown eftir Roman Polanski og hins vegar að Hollywood hefur að mati bókarhöfundar liðið undir lok í einhverjum skilningi. Þá kann glöggum hlustendum að hafa fundist fyrri hluti titilsins kunnuglegur og jafnvel áttað sig á skírskotunum til harðsoðna reyfarans The Long Goodbye eftir Raymond Chandler, sem er ein af sögunum hans um einkaspæjarann Phillip Marlowe, og The Big Nowhere frá árinu 1988 eftir James Ellroy, enn harðsoðnari glæpasögu hvurs sögutími er einmitt sjötti áratugurinn, útgáfutími skáldsögu Chandlers, og sögusvið beggja er Los Angeles. Bókmenntavísanir þessar skýrast jafnframt ef hugað er að kvikmyndinni sem er viðfangsefni Wasson. Chinatown var frumsýnd 1974 en sögusviðið er Los Angeles á ofanverðum fjórða áratugnum, sjálft gullaldarskeið harðsoðnu glæpasögunnar, og aðalpersónan, Jake Gittes, er einkaspæjari af þeirri tegund sem löngum hefur verið kunnugleg, hann er einfari, kvennaljómi og knúinn áfram af réttlætiskennd sem flestum er þó hulin. Ljóst hefur verið allt frá frumsýningu að myndin væri engin miðlungsjón og vegur hennar aðeins vaxið með árunum. Að mati Wasson er Chinatown ótvírætt meistaraverk, og listrænn hápunktur tímabilsins sem kennt hefur verið við „Nýju Hollywood“.
Lesendur sem eru á sama máli eiga meira erindi við þessa bók en hinir. Það er farið í þaula í aðdraganda og framleiðslusögu myndarinnar. Wasson er stórgóður rithöfundur, efnið leikur í höndunum á honum, og svo framarlega sem almennur áhugi á kvikmyndum sé til staðar má fullyrða að enginn hellist úr lestinni, en fyrir aðdáendur myndarinnar eru þessir kaflar hreint konfekt. Frásögnin er sniðin að þeim fjórum aðilum sem mikilvægastir voru gerð myndarinnar: Leikstjórinn Polanski, framleiðslustjóri Paramount, Robert Evans, handritshöfundurinn Robert Towne, og aðalleikarinn Jack Nicholson. Polanski og Evans ræddu við höfundinn, ekki Towne og Nicholson, en það virðist ekki hafa komið að sök. Skáldaleyfi eru stundum tekin, höfundur fylgir söguhetjum sínum afar náið, gægist inn í vitundarlíf þeirra og lýsir tilfinningum og hugsunum, en þetta borgar sig. Wasson ávinnur sér snemma traust, hann veit um hvað hann skrifar, og frásagnaraðferðin færir lesanda inn í hringiðu atburðana.
Afgerandi hápunktur
Þá er þess að geta að fjórmenningarnir voru allir vinir um áratugaskeið, sumir ævilangt. Nicholson og Towne voru til að mynda æskuvinir og ræsisbyssuhvellurinn að Chinatown má segja að sé hálfrar aldar gömul yfirlýsing handritshöfundarins, Robert Towne, við þáverandi kærustu sína: „Ég ætla að skrifa mynd fyrir Jack.“
Þá fer Wasson hvergi leynt með þá sannfæringu sína að Chinatown marki hápunktinn á ferli allra fjögurra, stundum með afgerandi hætti. Lífshlaup Polanskis er auðvitað þekkt, naumur flótti úr helförinni, eiginkona og ófætt barn myrt af Charles Manson, og sú staðreynd að nokkrum árum eftir gerð Chinatown flýr hann frá Bandaríkjunum, þá dæmdur barnanauðgari. Robert Towne átti sér gullið skeið frá 1968 til 1975, en á þessu tímabili er hann „sérstakur handritsráðgjafi“ við Bonnie and Clyde, ósýnilegur skriflæknir við Guðföðurinn tvö, og skrifar svo og fær framleiddar á þriggja ára tímabili The Last Detail, Chinatown og Shampoo. Eftir að handritskennaragúrúið Sid Field tók að halda þeirri skoðun á lofti að handritið að Chinatown væri besta handrit allra tíma er eins og guðirnir fari að strá hreinu Elvis-ryki á þegar ljómandi orðspor myndarinnar.
En Towne gerði ekkert sem skiptir máli eftir 1975, og sé einhver hissa þá má kannski kjarna skýringuna í einu orði: Kókaín.. Það var líka kókaín sem varð Evans að falli. Árið 1970 var hann valdamesti maðurinn í Hollywood, árið 1980 var hann kókfíkill á leið í fangelsi. Jack Nicholson átti langan feril í vændum, og mikil auðæfi, allt í krafti snjóflóðs af ómerkilegum kvikmyndum. Hann átti í öllu falli aldrei eftir að gera neitt sem var í líkingu við Last Detail (1973), Chinatown (1974), og Gaukshreiðrið (1975). Já, og svo ég gleymi því ekki, mikið mikið kókaín kemur líka við sögu, það var hluti af snjóflóðinu. Sá eini sem ekki gekk dópinu á hönd var Polanski, og átti hann nóg með sig án þess.
Raunar er Wasson kannski full vinsamlegur í garð Polanski, en fátt þar er nýtt. Sagan af sjarmatröllinu sem tók við gjaldþrota Paramount og umbreytti í sigursælasta kvikmyndaver áttunda áratugarins með Love Story, Guðföðursmyndunum, Rosemary's Baby, Serpico, Chinatown og Marathon Man, er sorgarsaga um fíkn og fall. Handritshöfundurinn Robert Towne kemur einkar illa útúr bókinni, eins konar hismi utan af vesalingi. Nú vissi ég lítið um Jack Nicholson, annað en að hann hefði einhvern örlítinn áhuga á körfuboltaliðinu LA Lakers. En í þessari bók í öllu falli birtist hann sem einstaklingur búinn heilmiklum mannkostum, og prúðmenni. Á níunda áratugnum, þegar Nicholson er orðinn einn dýrasti leikari heims en allir hafa yfirgefið Evans sem gengur um gólf heima hjá sér, nýkominn útaf geðdeild og svo lyfjaður að hann veit hvorki í þennan heim né annan, þá er það Jack sem vaktar hann, kemur á hverju kvöldi, mánuðum saman, og passar að hann taki ekki líf sitt. Evans komst á betri stað, fór aftur að framleiða myndir, og skrifaði ævisögu þar sem hann segir þennan vin sinn ástæðuna fyrir því að hann lifði tímabilið af. Evans lést í fyrra, níræður, með þrjátíu góð ár að baki.
Er eitthvað nýtt í bókinni? Já, tvennt. Í ljós kemur að þótt Towne sé einn skrifaður fyrir handritinu að Chinatown átti hann sér meðhöfund, æskuvininn Edward Taylor, háskólaprófessor, sem í ljós kemur skrifaði með Towne allt það sem frá þessum manni átti eftir að fara, einum frægasta handritshöfundi allra tíma. Samstarfið byrjaði með háskólaritgerðum þegar þeir voru saman í grunnnámi og varði næstu hálfa öld. Taylor var sérlundaður mjög, vitsmunaleg sprengistjarna en alfarið laus við metnað eða áhuga á peningum. Ólíkt Towne. Þetta var ekki vitað. Hitt er hvernig höfundurinn skýrlega er ekki sáttur við hvernig listaljóminn af Chinatown hefur helst fest sig við Towne, að handritið hans hafi verið ljósgjafinn í verkefninu. Með gerhugulli skoðun á fyrirliggjandi gögnum sýnir Wasson hins vegar hvernig Towne og Taylor skiluðu af sér alltof löngu og að mörgu leyti óskiljanlegu handriti sem Polanski endurskrifaði frá grunni, og bætti því besta við, til dæmis henti hann hamingjusömum endalokunum og skrifaði nýjan endi, þann bölsýnasta í sögu meginstraumskvikmynda, og klauf þannig atómið sem umbreytti forvitnilegum handritsdrögum í forspilið að meistaraverki.