Átta mánaða drengur varð fyrir aðkasti vegna húðlitar síns í sundlaug í Reykjavík í síðustu viku. Foreldrum barnsins var verulega brugðið, en faðirinn segir rasisma á Íslandi algengari en flesta gruni. Sjálfur hafi hann orðið fyrir aðkasti og ofbeldi vegna húðlitar frá því hann var barn.

Kolfinna Kristófersdóttir var í Vesturbæjarlauginni með son sinn, Kristófer Flóka, þegar atvikið átti sér stað.

„Konan við hliðina á mér fer að spyrja mig hvort að pabbi hans sé dökkur og hvaðan hann sé. Og horfir í áttina að honum og segir „Já, þannig hann er lítill múlatti?“. Ég segi við þessa konu að ég kæri mig ekki um að sonur minn sé kallaður þessu orði, og þá fékk ég svona fimm til sjö sinnum í viðbót að heyra þetta orð, segir Kolfinna. Henni var mjög brugðið og fór með drenginn upp úr lauginni.

Konunni ekki vísað úr lauginni

Samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni Vesturbæjarlaugar er atvikið litið alvarlegum augum og var það skráð sérstaklega hjá borginni. Foreldrar drengsins eru aftur á móti ósátt við að konunni hafi ekki verið gert að yfirgefa laugina. 

„Eitt atvik er nógu mikið. Það á enginn að þurfa að líða fyrir að geta ekki farið í sund án þess að verða áreittur af fólki með fordóma,“ segir Kolfinna.

Faðirinn lenti í aðkasti og líkamlegu ofbeldi

Sigurður Helgi Grímsson, faðir Kristófers Flóka, er ættleiddur frá Sri Lanka. Hann þekkir fordóma af eigin raun. Atvikið í Vesturbæjarlauginni var kornið sem fyllti mælinn fyrir honum.

„Það er erfitt fyrir mig að tala um þetta en ég er bara að gera þetta fyrir strákinn minn. Íslendingar, við höldum að við séum ekki rasistar, en það er bara mjög mikið um þetta. Alla mína ævi, það líður ekki vika, ég heyri eitthvað. Systir mín er dökk líka,og börnin hennar hafa lent í aðkasti út af því. Það eru endalaus dæmi,“ segir Sigurður.

Sigurður segist alla tíð hafa orðið fyrir aðkasti vegna húðlitar síns. Þegar hann var barn voru það ekki önnur börn sem voru verst heldur fullorðið fólk, meðal annars kennarar.

„Ég man eftir því þegar ég var krakki, mig langaði ekki að vera dökkur. Ég lenti í líkamlegu ofbeldi í grunnskólanum sem ég var í. Það var atvik þar sem ég var kallaður negradjöfull og það voru lagðar hendur á mig, svo var ég aftur fyrir aðkasti frá einum kennara. Það var mjög erfitt fyrir mig,“ segir Sigurður.

Rasismi á Íslandi algengari en fólk heldur

Sigurður segir mun meira um rasisma á Íslandi en flestir geri sér grein fyrir.

„Það sem er verst er þegar ég er að tala við fólk og það segir að rasismi sé ekki til á Íslandi. Bara í dag var ég að vaska upp heima hjá mér og ég heyri í útvarpinu verið að tala um hlutina sem eru að gerast úti, og svo segir hann að það sé enginn rasismi hérna og að Ísland sé svo gott. Og ég bara spring inni í mér, mig langar bara að gráta. Mælirinn er bara fullur og þá byrja ég að hugsa um son minn og það sem er verið að segja við hann,“ segir Sigurður.

„Ég er ekki að segja að það séu allir rasistar á Íslandi, það er ekki þannig. En þetta er til, og sérstaklega með orðaforða. Eins og að kalla son minn múlatta, átta mánaða kríli. Hann er eins og allir aðrir. Við erum öll alveg eins að innan, það skiptir engu máli hvernig þú ert á litinn.“