My Dark Vanessa eftir Kate Elizabeth Russell kom út í síðasta mánuði og hefur þegar vakið mikla athygli fyrir umfjöllun um kynferðisofbeldi og margflókna stöðu fórnarlambsins.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Vanessa er fimmtán ára þegar hún fyrst hittir Jacob Strane, enskukennara í fínum og virtum framhaldsskóla, þessháttar skóla sem er sérhannaður til að fleyta nemendum sínum inn í allra bestu háskólana. Og Vanessa er 32 ára þegar í ljós kemur að Strane, sem enn kennir við skólann, hefur verið sakaður um að hafa áreitt nemanda, unga stúlku. Fyrsta eina og svo bætast fleiri við. Þetta er að sumu leyti áfall fyrir Vanessu, hún var fyrsta fórnarlamb Strane, eða fyrsta ástin eins og hún myndi orða það. Enda er hún sannfærð um að þessar nýju ásakanir séu reistar á sandi, meinfýsnar og rætnar tungur, lygar. Það er það sem Strane segir og hún trúir honum; þau eiga nefnilega enn í samskiptum öllum þessum árum síðar. Sambandið hefur ekki verið líkamlega náið síðan Vanessa var um tvítugt, þá tók að bera á því að hún væri of gömul fyrir Strane, en það kemur fyrir að hún hringir í hann síðla kvölds og biður hann um að rifja upp tiltekin atvik frá skólaárunum, í símanum iljar hún sér svo við minningar um þeirra nána samneyti.
Truflandi, flókin, ómöguleg
Skáldsagan sem hér er lýst nefnist My Dark Vanessa, eða Mín myrka Vanessa, og er þar á ferðinni fyrsta útgefna verk Kate Elizabeth Russell. Að bókinni byrjaði hún að vinna í ritlistarnámskeiðum í háskóla og nær tuttugu árum síðar kemur hún svo út, í apríl byrjun á þessu ári, rétt þegar heimsfaraldurinn var að taka yfir fréttaflutning heimsins. Það er næstum kraftaverki líkast að skáldsagan hafi ekki týnst í faraldrinum en svo fór þó ekki. Umfjöllun í útbreiddum fjölmiðlum, The Guardian, Atlantic, New York Times, og fleirum, sá til þess, og þá kannski ekki síst fyrirsagnirnar: „Umdeildasta skáldsaga ársins“ stóð í einu blaðinu, áður en nokkur hafði eiginlega lesið bókina, hvað þá hafið deilur um hana. Að vísu valdi Ophrah My Dark Vanessa í bókaklúbbinn sinn, og féll svo frá valinu. Kannski dugir það nú orðið til að gera bækur alræmdar. Nær lagi var yfirskriftin „Truflandi, flókin, ómöguleg“ og sömuleiðis mátti taka undir „Skörp en mun hrista upp í fólki“. En „Ógildir Lólítu eftir Nabokov“ hittir naglann ekki alveg á höfuðið, „Þrauthugsuð samræða við Nabokov og Lólítu“ hefði verið nær lagi.
Sú er nefnilega raunin að sígilt verk Nabokovs frá sjötta áratugnum er einn allra mikilsverðasti sessunautur og samræðufélagi hinnar nýju skáldsögu Russells. Meðan Vanessa er enn í aðlöðunarferlinu, það sem á ensku er kallað „grooming“, færir Strane henni Lólítu að gjöf og hún les bókina græðgislega, og svo aftur og aftur. Lólíta verður hluti af röð leynilegra samskipta, og í huga Vanessu er hún fjársjóðskista af skilaboðum frá Strane til sín og það sem mestu máli skiptir, Lólíta er ástarsaga, alveg eins og það sem er að eiga sér stað á milli hennar og Strane.
Hugmyndin að Lólíta sé ástarsaga er reyndar mikilvægur hluti af viðtökusögu verksins, sumir helstu bókmenntapáfar Bandaríkjanna eins og Lionel Trilling vörðu skáldsögu Nabokovs á sínum tíma gegn ásökunum um klám með því að skrifa um hana fræðimannslegar greinar þar sem útskýrt var að um ástarsögu af ættlegg 18. aldar hirðbókmennta væri að ræða. Það eru heldur ekki nema nokkur ár liðin frá því að ég rakst á það í kennslubók í kvikmyndaáfanga sem ég var að kenna að vísað var til kvikmyndaaðlögunar Stanley Kubrick á Lólítu sem ástarsögu. Það er því ekki að undra sá reynist leshátturinn sem fimmtán ára stúlku reynist nærtækastur. Við þetta er svo að bæta að titillinn, My dark Vanessa, er tilvitnun í Pale Fire eftir Nabokov, og lesendur fá að fylgjast með „stolnu stundinni“ eftir kennslutíma þegar Strane dregur Pale Fire upp úr fórum sínum og bendir Vanessu á að nöfnu hennar sé þar að finna, enda sé hún sjálf svo skáldleg og guðdómleg, segir hann. Hún er klárari en öll hin, með dýpri og magnaðri sál.
Þetta er aðlöðunaraðferðin sem hann beitti frá upphafi. Ólíkt samnemendunum sem allir spretta úr efri efri og jafnvel efstu millistétt er Vanessa á skólastyrk og bakgrunnur hennar að öllu leyti ólíkur þeirra varðar. Þess vegna einangrast hún, og Strane tekur eftir því. „Ég kann líka vel við að vera einn með sjálfum mér“, segir hann við hana. „Það fyrsta sem mér datt í hug var að neita,“ hugsar Vanessa, „ég kann alls ekki vel við að vera einsömul. En... kannski hefur hann rétt fyrir sér. Kannski er það mitt val að vera einfari“, segir hún við sjálfa sig. Sjálfsmyndin sem Strane býður Vanessu er ákjósanlegri en sú gamla, þetta veit lesandi, og svona tekur Strane að skilgreina hvernig Vanessa hugsar um sig, alveg frá þeirra fyrstu kynnum.
Að næra skaðann
Skáldsagan fjallar um upplifunina af því að vera „valin“ af einstakri innsýn. Vanessa er unglingur sem upplifir að karlmaður sem hún ber virðingu fyrir taki sérstaklega eftir henni, sjái það í henni sem enginn annar hefur séð. Kaflaskilin verða í lífi Vanessu þegar hún verður ástfangin af manni sem upphefur hana og fellur að fótum hennar – áður en hann nauðgar henni og flækir allar tilfinningar ástar og þrár sem taka hana yfir með valdinu sem hann hefur yfir henni. Straumrofið sem á sér stað á þeirri stundu veldur truflunum sem Vanessa hefur ekki unnið úr sautján árum síðar í nútíð frásagnarinnar. Valdaafstæðurnar og andstæðurnar sem Vanessa upplifir í sambandi sínu við Strane eru öfgafullar. Annars vegar er hún gyðjan sem Strane féll stjórnlaust fyrir; hann setti starfsferil sinn og almannaálit í hættu fyrir hana, hún hefði getað sent hann í fangelsi. Hins vegar var Vanessa auðvitað valdalaus ung stúlka sem var misnotuð.
My Dark Vanessa tekst á við flókna stöðu „fórnarlambs“ eða þolanda sem upplifir sig ekki sem fórnarlamb. Þannig eru erfiðleikar þess að horfast í augu við erfiða lífsreynslu sem var ánægjuleg, stundum stórkostleg, og endurskoða þessa reynslu og allt sem fylgdi í kjölfarið út frá þeirri hugmynd að maður hafi verið fórnarlamb, að þetta hafi verið ljótt en ekki það fallegasta sem maður hefur upplifað, eins konar hryggsúla verksins. Líkt og Lólíta staðsetti lesanda lóðbeint í vitund níðingsins staðsetur Russell lesanda inn í allumlykjandi hugarheimi sögupersónu sem gerir hvað sem er til að verja eigið kvalræði, næra skaðann.
Einstaklingar sem verða fyrir kynferðisofbeldi upplifa auðvitað oft sektarkennd, líður eins og eitthvað af sökinni hljóti að hvíla á þeirra herðum. Átti ég að segja nei? Átti ég að fara? Átti ég að klæða mig öðruvísi eða haga mér öðruvísi? Bauð ég uppá þetta? O.s.frv. Hér er höfundur að takast á við hyldýpi sem teygir sig svo langt að það virðist ómögulegt að nálgast yfirborðið svo takast megi á við þessar spurningar. Samsektin er svo djúp, ranghugmyndirnar eru eina tengingin við lífið og eina ástæðan til að lifa, Vanessa trúir að hún hafi verið fædd til þess að Strane elskaði hana. Á sama tíma hafa eitrunaráhrif þessarar sannfæringar breiðst út um og í hvern kima lífs hennar og skemmt allt sem fyrir varð.
Eins og fyrirsögnin sem ég vitnaði í hér áðan dregur svo snyrtilega saman þá er My Dark Vanessa truflandi, flókin og ómöguleg. Hún er ómöguleg vegna þess að lesandi getur ekki samþykkt liggur við nokkurn skapaðan hlut sem gerist í framvindunni, og þá alveg sérstaklega vitundarmiðju sögunnar. Pedófílar, ja, auðvitað eru þeir engum húsum hæfir, burt með þá, það er auðvelt. En svona fórnarlamb, hvað hvernig ég bara... svona eru viðbrögðin en um leið og lesandi gefur samþykki og heldur áfram lestrinum finnur hann hvernig það verður smám ómögulegt að halda í hugmyndir um það hvernig fórnarlömb eiga að vera, hvernig þeim á að líða. Fáar skáldsögur, ég veit raunar ekki um neina, draga upp viðlíka flókna mynd af vítinu sem kynferðisofbeldi áskapar fórnarlömbum sínum.