Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fyrirtækið komi ekki að skimunum á Keflavíkurflugvelli ef verkefnið verður unnið undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins. Hann segir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra hegða sér eins og tíu ára barn. 

Kári segir að það hafi komið sér verulega á óvart að í verkefnisstjórn heilbrigðisráðherra um opnun landamæra 15. júní hafi ekki verið fulltrúi frá Íslenskri erfðagreiningu. Verkefnastjórnin skilaði niðurstöðum sínum í gær

„Í hroka sínum datt henni ekki í hug að leita til okkar,“ sagði Kári í Kastljósi í kvöld og velti því fyrir sér hvort það væri af þvi að Svandísi finnist einkafyrirtæki vera vond. Kári segir að þetta hafi farið fyrir brjóstið á Íslenskri erfðagreiningu. 

„Við ætlum ekki að koma að þessari skimun ef hún verður unnin undir stjórn heilbrigðismálaráðuneytisisn. Vegna þess að samskiptin við heilbrigðismálaráðuneytið  er þannig að við treystum okkur ekki til þess,“ sagði Kári. Hann segir málið þó ekki snúast um hrós, heldur að Íslensk erfðagreining vilji ekki koma með puttana á verkefnið án þess að fá að skipuleggja það. 

Kári segir af og frá að hver skimun þurfi að kosta 50 þúsund krónur. Kostnaðurinn ætti að geta farið niður í þrjú til fjögur þúsund krónur ef horft er framhjá kostnaði við tækjakaupin. 

Kári sagði jafnframt að samstarfið við Ölmu Möller landlækni og Þórólf Guðnason hafi gengið vel. Hann segir að ef Þórólfur myndi hringja í sig og biðja Íslenska erfðagreiningu um að taka þátt í verkefninu þá myndi hann eflaust ræða við hann. En tók jafnframt fram að hann hefði lokað fyrir símtöl frá Þórólfi svo hann gæti ekki hringt í sig.