„Ég er svona geitanörd,“ segir Sigríður Ævarsdóttir á Gufuá í Borgarfirði. Hún og Benedikt Líndal, eiginmaður hennar, bjóða upp á göngutúra með geitur í bandi og ýmsa aðra þjónustu undir heitinu Harmony eða Samspil.
Sigríður segir við Morgunútvarpið að geitabakterían svipi til hestadellunnar sem herji á svo marga. „Þetta er bara annað afbrigði,“ segir Sigríður en henni hugnast ekki að rækta geitur til manneldis. „Í ölpunum eru settir bakpokar á geitur og þær labba með fólki upp í fjöllin, geta borið með nesti til dæmis. Þannig ég vildi bara leyfa fólki að teyma þær með sér í göngutúr á skemmtilegum leiðum, búa til ævintýri í kringum það að upplifa náttúruna með geitunum.“
Þau hjónin hafa rekið ferðaþjónusta tengda hrossum í þrjá áratugi en Sigríður vildi þó aldrei taka þátt þeirri „skyndiþjónustu“ sem hún telur hafa verið ríkjandi undanfarið. „Okkur langaði bara ekki til að vera í því, frekar að bjóða upp á eitthvað þar sem fólk hefur tök á því að stoppa og njóta og upplifa, frekar en bara tékka í boxin.“
Þeirra fyrirtæki er rekið undið merkjum samhljóms (e. harmony) við náttúruna. Þau bjóða upp á göngur með og án geita. „Þá segjum við fólki sögur, við köllum það vörðulabb og skoðum náttúruna og dýralíf á jörðinni. Hluta af landinu sem við löbbum í gegn erum við að fá vottaðan í Landbúnaðar- og náttúruvernd, landbúnaðarsvæði með mikið náttúrugildi.“ Sigríður er líka með forystufé á Gufuá sem fólk getur borið augum en þó ekki farið með í göngutúr. „Það reyndar teymist mjög vel en við vorum hrædd um að ef að fólk gleymdi sér og legði frá sér tauminn sæjum við rollurnar ekkert aftur.“