Reykjavíkurborg ætlar að auglýsa rúmlega sex þúsund fermetra í Gufunesi til umsóknar fyrir listamenn, frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Hugmyndin er að Gufunes verði þorp skapandi greina.

Í Gufunesi eru mörg þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði sem hýsti Áburðarverksmiðju ríkisins á sínum tíma. Undanfarin ár hefur Íslenska gámafélagið verið þar til húsa. Nú er það að flytja og þá losnar heilmikið rými sem Reykjavíkurborg vill nýta sem vinnustofur fyrir fólk úr skapandi greinum.  

„Ég get ekki orðað það öðruvísi en að hér sé gamall draumur að rætast,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Hér er komið öflugt kvikmyndaver á alþjóðavísu, RVK Studios, hér eru mörg helstu kvikmyndagerðarfyrirtæki landsins þegar búin að koma sér fyrir. Hér eru líka ákveðnir listamenn sem hafa verið hér árum saman. Nú erum við að auglýsa um rösklega þúsund fermetra til umsóknar fyrir listamenn, skapandi fyrirtæki, frumkvöðla og sprota því að í Gufunesi sjáum við fyrir okkur að þróist heilt hverfi, þorp skapandi greina, sem að við vonum að fái að vera svolítið hrátt og öðruvísi.“  

Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios er spenntur fyrir áformunum.  

„Það er draumurinn að búa til aðstöðu fyrir allar tegundir af listum. Kvikmyndir innbyrða allar listir; myndlist, tónlist, þetta kemur allt saman í kvikmyndum. Kvikmyndagerð á til að verða svolítið iðnaðardrifin, en að hafa skapandi listamenn í kringum sig vekur listina í kvikmyndinni og öfugt. Þetta skapar líka atvinnu fyrir listamennina sem hafa oft ekki miklar tekjur af vinnu sinni, þannig að þetta vinnur mjög vel saman.“ 

Húsnæðið sem er að losna er mismunandi og í misgóðu ástandi.  

„Það fer úr því að vera mjög hrátt en líka alveg upp í skrifstofur með innréttuð rými. Við vonumst til að geta haft hérna kraumandi deiglu og blöndu fólks með mismunandi þarfir. Hér er mjög vítt til veggja, alls konar pláss og gríðarleg tækifæri fyrir frumkvöðlahugsun og skapandi hugsun sem við sjáum fyrir okkur að hafi mikið svigrúm til að vaxa og dafna.“ 

Dagur segir að í stað þess að leigja rýmið hæstbjóðendum verði það lagt í hendurnar á umsækjendum hversu mikið þeir geti borgað.  

„Þetta eru rými sem fólk tekur við eins og þau eru. Þau eru mjög hrá og það þarf að gera mikið. Við viljum gjarnan vera með samninga til nokkurra ára og að fólk geri það við rýmin sem það þarf sjálft. Við höfum ekki prófað þessa nálgun áður. Við viljum fyrst og fremst tryggja hérna áhugaverða blöndu og að þau fjárráð sem að einstök verkefni, listamenn eða frumkvöðlafyrirtæki hafa, fari í að innrétta rýmin og gera þau nýtileg, frekar en að við séum að líta á þetta sem einhverja gróðalind - nema í því að eignast hérna einstakt og skapandi svæði á heimsmælikvarða sem mun halda áfram að gefa fyrir Reykjavík núna og til framtíðar.“ 

Menningin rölti um Gufunesið með borgarstjóra og leit við á nokkrum vinnustofum. Horfa má á innslagið hér að ofan.