Töluvert magn af heitu vatni streymdi úr lögn við Aðalstræti og Fischersund í Reykjavík og þaðan út á götu í dag. Verið var að undirbúa viðhaldsvinnu á lögnunum sem á að hefjast á morgun þegar loki gaf sig og vatnið streymdi út. Starfsmaður verktaka á vegum Orkuveitunnar varð fyrir vatninu og slasaðist lítilega. Hann hóf störf að nýju eftir að hafa borið kælikrem á sár sín. Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við fréttastofu.

Þá streymdi töluvert af vatni í kjallara Center Hotels við Aðalstræti. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna lekans og dældi vatni úr kjallara hótelsins. Að sögn slökkviliðsins stóð sú vinna yfir í um klukkustund.

Ólöf segir að lokinn hafi gefið sig skyndilega og ekki sé vitað hvað olli lekanum.