Sólrún Alda Waldorff, 23 ára kona sem var um tíma í bráðri lífshættu eftir bruna í kjallaraíbúð í Mávahlið í október, hefur verið útskrifuð af spítala og er komin heim. Sólrún var í dái í Svíþjóð í mánuð og hefur gengist undir fjölda aðgerða vegna annars og þriðja stigs brunasára. Hún er ákveðin í að halda áfram að lifa lífinu þrátt fyrir að mikil endurhæfing og húðígræðslur séu fram undan næstu árin.
Mikill eldur kviknaði við eldamennsku í kjallaraíbúð við Mávahlíð aðfaranótt miðvikudagsins 23. október. Brennandi pottur féll á gólfið og og logandi olía helltist úr honum og breiddist um íbúðina. Þar voru þrír; eigandinn, sem komst sjálfur út, Rahmon Anvarov, sem leigði þar herbergi, og kærasta Rahmons, Sólrún Alda Waldorff. Rahmon og Sólrún voru sofandi í herberginu þegar eldurinn kviknaði en slökkviliði tókst að ná parinu út um glugga.
Vaknaði í spítalarúmi í Svíþjóð
„Ég fór að sofa í íbúðinni hjá kærastanum mínum. Ég man eiginlega ekkert meira, þar til ég vakna rúmum mánuði síðar í spítalarúmi í Svíþjóð. Og þar með byrjar bara allt. Það var stöðugt verið að reyna að segja mér hvar ég væri, hvað hefði gerst. Svo maður var rosalega hræddur og bara skildi þetta bara ekki,“ segir Sólrún Alda.
Sólrún var flutt á brunadeild sjúkrahússins í Linköping í Svíþjóð, en Rahmon varð eftir á Landspítalanum. Þau brenndust bæði mjög alvarlega, Rahmon hlaut annars og þriðja stigs brunasár á rúmlega helmingi líkama síns, en Sólrún á um 35%. Þegar hún kom til Svíþjóðar var ástand hennar mjög alvarlegt, og læknar bjuggu fjölskyldu hennar undir það versta.
„Ég var stöðug í fluginu en þegar ég kom til Svíþjóðar féllu lungum mín saman og að mér skilst var bara verið að bíða eftir að ég myndi deyja,“ segir Sólrún.
Læknar óttuðust það versta
Bati Sólrúnar hefur verið undraverður. Á tímabili voru læknar hræddir um að hún væri með heilaskaða og að mögulega væri hún lömuð á annarri hliðinni eftir brunann. Ekkert af þessu reyndist þó vera raunin. Sólrún sýndi mikinn viljastyrk þegar hún gerði sér grein fyrir aðstæðum. Hún ætlaði sér að ná bata og það sem fyrst, þó ferlið væri erfitt og sársaukafullt.
„Ég næ að taka eitt skref, tvö skref. Rosalega erfiðlega en það tókst og ég fékk svona: ókei, ég get þetta, ég get haldið áfram. Læknarnir voru rosalega undrandi hvað ég tók öllu rosalega vel og það gekk allt bara mikið hraðar fyrir sig en venjan er. Og bara já, nú hálfu ári síðar, og manni líður bara ágætlega, “ segir Sólrún.
Haldast í hendur gegnum áskoranir og endurhæfingu
Starfsfólk á sjúkrahúsinu hélt nákvæma dagbók fyrir Sólrúnu tímann sem hún var þar. Í fyrstu var talið víst að hún þyrfti að dvelja í nokkra mánuði í Svíþjóð en sökum þess hve hratt og vel hún náði sér fékk hún að fara heim fyrir jól. Þar dvaldi hún fyrst á Landspítalanum en var svo flutt á Grensás þar sem bæði hún og Rahmon hófu stífa endurhæfingu.
„Ég hugsa að þetta hafi styrkt sambandið okkar rosalega mikið. Við getum talað við hvort annað um hvað sem er, því við erum náttúrlega að ganga í gegnum það sama, eða rosalega svipaða hluti. Við höfum styrkt hvort annað rosalega mikið í þessu og höldumst í hendur í gegnum þetta,“ segir Sólrún.
Margar sársaukafullar, flóknar og erfðar aðgerðir
Sólrún hefur nú þegar gengist undir fjölda húðígræðsluaðgerða bæði í Svíþjóð og á Íslandi, og fer í ótal fleiri aðgerðir á næstu árum. Fram undan eru flóknar aðgerðir á nefi og munni en Sólrún segist vera tilbúin í að takast á við þær. Þau Rahmon eru staðráðin í að halda áfram að lifa lífinu.
„Það hefur svo sem lítið breyst hjá okkur hvað plönin varðar. Ég byrja í Háskólanum aftur núna í september og ætla að klára þar sálfræði. Og kærastinn minn er að leita að vinnu eftir slysið,“ segir Sólrún.
Allt í lagi að fólk horfi
Hún neitar því ekki að það hafi tekið á að fara aftur út á meðal fólks eftir að hún kom heim. Aftur á móti hafi hún verið búin að taka ákvörðun um að hún ætlaði ekki að loka sig af og hætta að lifa lífinu.
„Maður er spenntur en ég er líka rosalega stressuð. Þetta er öðruvísi, manni líður stöðugt eins og fólk sé að horfa og stara en ég hlakka bara til að geta klárað námið mitt og geta bara hitt fjölskylduna og vinina. Maður verður bara að læra einhvern veginn að horfast í augu við það að fólk er að horfa. Og það er allt í lagi.“
Bjartsýn á framhaldið
Sólrún vill beina því til fólks að hafa brunavarnir í lagi.
„Þetta hefði ekki þurft að gerast. Slys gerast en það er alltaf hægt að koma í veg fyrir þau. Bara með því að hafa brunavarnarteppi og vera viss um að reykskynjarinn sé í lagi. Það hjálpar alltaf.“
Þrátt fyrir þessa stóru áskorun er er Sólrún bjartsýn á framhaldið.
„Já, ég er rosalega bjartsýn. Maður á sína neikvæðu daga en yfir heildina er maður bara tilbúin í þetta.“