Sontag eftir Benjamin Moser er ríflega 800 síðna þverhandarþykkur hlemmur sem fjallar um ævi og störf rithöfundarins og heimspekingsins Susan Sontag. Bókin gerir viðfangsefni sínu skil með afar tæmandi hætti að mati gagnrýnanda Víðsjár.


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Við þekkjum kannski fæst Susan Rosenblatt en öðru máli gegnir um nafnið sem hún tók upp, Susan Sontag. Að baki þessu fallega og stuðlaða nafni liggur höfundarverk sem á sér vart sinn líka. Sontag var rétt orðin þrítug þegar ritgerð hennar „Notes on Camp“, eða „Athugasemdir um kamp“ gerðu hana fræga árið 1964, og miðlægri stöðu sinni í menningunni hélt hún næstu fjóra áratugi, eða allt fram til endalokana, ársins 2004. Ári fyrir andlátið gaf hún út bókina Regarding the Pain of Others, eða Um sársauka annarra eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Hins íslenska bókmenntafélags. Þar fjallaði Sontag um ljósmyndir, líkt og hún gerði í einni af sinni þekktustu bókum, On Photography, eða Um ljósmyndun, frá árinu 1977.

Sontag gekk í mörg ólík hlutverk á þessu tímabili, frá 1964 til 2004; með ritgerðinni um kamp gerðist hún brautryðjandi þess sem löngu síðar varð þekkt sem hinsegin fræði, með „Ímyndunarafli hamfarana“ skrifaði hún fyrst fræðimanna um vísindaskáldskaparmyndir líkt og þær skiptu í raun einhverju máli – og múrinn mikli milli hámenningar og lágmenningar varð aldrei samur. Framan af ferlinum var hún einn helsti talsmaður þeirra viðhorfa sem við í dag myndum kenna við póstmódernisma. Samhliða því hafði hún ekki fyrr kynnt hugmyndir franska fjölfræðingsins Rolands Barthes um dauða höfundarins fyrir enskumælandi leshópum en hún veitti þeirri sömu hugmynd náðarhöggið í ritgerð sinni um Leni Riefenstahl, kvikmyndagerðarkonuna þýsku sem gerði mikilvægustu myndir Hitlers en var einmitt á góðri leið með að endurheimta menningarlegt orðspor og auðmagn þegar Sontag um miðjan áttunda áratuginn birti ritgerðina „Fascinating Fascism“, sem batt saman höfund og verk með svo óafturkræfum hætti að Riefenstahl gat ekki annað en þotið aftur undir næsta stein. Nokkru fyrr hafði Sontag tekið sér stöðu gegn túlkun í samnefndri grein sem í senn má lesa sem manifestó fyrir Andy Warhol og uppgjör við þematískan og siðferðilegan listskilning vestrænnar siðmenningar.

Og það að Sontag varð í raun heimsfræg fyrir skrif sín um menningu, þetta er hugmynd sem virkar allt að því fjarstæðukennd í dag, en var það ekki síður á hennar sokkabandsárum, og þá vegna þess að hún var kona. Konur gegndu ekki því menningarhlutverki sem hún eignaði sér uppúr 1960 og gerði að sínu lífshlutverki.

Sontag hefur verið þýdd á íslensku; áðurnefnd útgáfa Hins íslenska bókmenntafélags frá árinu 2006, og ári fyrr kom út Atviksbók helguð Sontag, þar sem ýmsar ritgerðir hennar voru þýddar. Og það sem um hana hefur verið skrifað á ensku, mikil lifandi ósköp, það eru ævisögur, endurminningar þeirra sem hana þekktu, hugmyndasöguleg og staðfræðileg verk sem innlima hana í frásögnina, og svo mætti áfram telja. En síðasta haust kom út það sem mér sýnist ætla að verða hin endanlega ævisaga, í öllu falli um nokkra hríð, en það er bókin Sontag eftir Benjamin Moser, ríflega 800 síðna þverhandarþykkur hlemmur, sem gerir viðfangsefni sínu skil með afar tæmandi hætti. Bakgrunnur Sontag, æska og menntun, fyrstu skref, menningarumhverfið sem mótaði hana og menningarumhverfið sem hún svo mótaði, allt er þetta kallað fram með býsna ljóslifandi hætti.

Moser styðst mikið við dagbækur Sontag sem gefnar voru út í tvennu lagi árið 2008 og 2012, Reborn, eða Endurfædd, nefndist fyrri útgáfan og sú síðari As Consciousness is Harnessed to Flesh, eða Eins og vitundin er spennt fyrir holdið. Þar var um mjög sérstaka texta og lestrarupplifun að ræða, dagbækurnar báru vitni um manneskju sem frá unga aldri var aldrei sátt í eigin skinni og raunar þyrfti að hverfa aftur til kirkjufeðranna til að finna viðlíka húðstrýkingar á eigin persónu í formi sjálfskoðandi skrifa.

Þannig að sú staðreynd að ævisaga Mosers er á köflum gagnrýnin á Sontag þarf ekki að koma á óvart, Sontag var alla sína ævi afskaplega gagnrýnin á Sontag, og Moser ef eitthvað er setur sjálfskoðun viðfangsefnisins í samhengi, og mildar, dregur úr.

En svo gerist það upp úr miðri bók að Moser hálfpartinn sýnir spilin, höfundur ævisögunnar viðurkennir að hann er í raun afskaplega lítið hrifinn af viðfangsefni sínu. Nú er samband ævisagnaritara og viðfangs mjög sérstakt, það er afskaplega náið, nánara jafnvel en nokkuð annað samband ef mið er tekið af upplýsingamagni og gagnaúrvinnslu, og auðvitað getur ýmislegt farið úrskeiðis. Charles Kinbote er kannski ávallt í felum baksviðs, en það er sjaldgæft engu að síður að verða vitni að árekstri áþekkum þeim sem á sér stað í síðari hluta Sontag ævisögunnar. Og í raun er erfitt að ímynda sér hvernig Moser gerði það sem hann svo skýrlega gerði, sem er að verja árum í að fara í gegnum hvert einasta smáatriði varðandi lífshlaup Sontag, tala við hundruði viðmælenda, þaullesa hvert einasta orð sem eftir hana liggur, og skrifa svo nær þúsund blaðsíður um niðurstöðuna.

Því eftir hér um bil 1980, þegar Sontag hefur náð hápunkti frægðar sinnar, þá gerir hún í raun fátt sem Moser hugnast, en sérstaklega misbýður honum það sem hún lætur ógert – eins og að sporna gegn femíníska bakslaginu sem einmitt varð áberandi um það leyti sem Reagan var kjörinn í embætti, að koma ekki út sem lesbía eða tvíkynhneigð meðan á alnæmisfaraldrinum stóð.

Oftast finnst lesanda eins og Moser gangi þarna heldur langt, hælbítar eru aldrei sjarmerandi, og sömuleiðis er dálítið eins og refsandi andi dagbókanna hafi umbreyst í trylltan ólympískan karlguð, sem gæti sennilega betur fundið sér annað til dundurs en að dæma konu, úr fjarlægð og aftur og aftur. En afstaða höfundar er eitt, heiðarleikinn er samt nægur til að frásögnin missi aldrei tenginguna við það sem hér er í raun afskaplega áhugavert, sem er einstakt lífshlaup konu sem hóf ferilinn sem menningarrýnir á jaðrinum og endaði sem holdtekja þess sem menningarhugtakið stendur fyrir og við viljum varðveita.