Sundlaugin í Mosfellsbæ, sem Sigur Rós breytti í hljóðver árið 1999, er eitt þekktasta hljóðver landsins. Undanfarin ár hefur Sundlaugin verið í eigu Birgis Jóns Birgissonar og Kjartans Sveinssonar en nú hefur Kjartan keypt hlut Birgis Jóns í rekstrinum.

Hljómsveitin Sigur Rós keypti sundlaugina árið 1999 og hófust þá miklar framkvæmdir við að breyta henni í fullkomið upptökuver og æfingahúsnæði fyrir hljómsveitina. Svigaplatan svokallaða var tekin upp í Sundlauginni og upp frá því hefur sveitin unnið allar plötur sínar að einhverju leyti í hljóðverinu. Birgir Jón hóf störf í Sundlauginni fyrir Sigur Rós árið 2003 og nokkrum árum síðar keyptu þeir Kjartan Sveinsson, fyrrverandi liðsmaður Sigur Rósar, hljóðverið og hefur það verið í eigu þeirra allar götur síðan. Birgir Jón var gestur Óla Palla í þættinum Füzz á Rás 2 og þar kom fram að Kjartan er að kaupa hlut Birgis í Sundlauginni. 

Birgir er ekki alveg hættur afskiptum af hljóðverinu þótt hann sé ekki lengur annar af eigendunum. „Ég er að hætta í rekstrinum, ég ætla að snúa mér alfarið að upptökunum.” Reksturinn segir hann að sé nokkuð erfiður en fyrst og fremst finnst honum leiðinlegt að sjá um daglegan rekstur og vill geta einbeitt sér að því að taka upp og búa til tónlist. Hljóðverið verði áfram rekið í sömu mynd og Kjartan taki að vissu leyti við af honum. 

Fjölmargar aðrar hljómsveitir, bæði innlendar og erlendar, hafa tekið upp plötur í Sundlauginni. Má þar til dæmis nefna Jon Hopkins, Damien Rice, Björk, Of Monsters and Men og fleiri. Um þessar mundir vinnur Birgir Jón að breiðskífu frá Sólstöfum sem hafa lengi haft Sundlaugina sem sitt aðalhljóðver. 

Birgir hefur reynt margt í gegnum tíðina og tekur sem dæmi þegar fulltrúar útgáfufyrirtækja voru að koma til landsins til að heyra að hverju Sigur Rós var að vinna. „Það komu einhverjir gaurar að utan frá útgáfufyrirtækjunum, þeir komu bara og hlustuðu og settu upp þumalinn, það var aldrei neitt sem þeir gátu sett út á eða vildu hafa öðruvísi,” segir Birgir.

Þróunin hefur þó verið mikil og upptökur hafa nú að miklu leyti færst inn í æfinga- og vinnuaðstöðu tónlistarfólks. „Týpískt session, þau eru svolítið öðruvísi en þau voru. Það er ekki verið að leigja stúdíó í viku eða 10 daga í upptökur. Oft bara einn, tveir, þrír dagar í trommuupptökur. Svo eru gítararnir teknir upp annars staðar. Mikið farið á milli hljóðvera,” segir Birgir.

Nánar var rætt við Birgi Jón Birgisson í þættinum Füzz á Rás 2.