Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson skiluðu í dag inn meðmælendalistum til yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi vegna forsetaframboðs.

Kjörtímabil Guðna Th. Jóhannessonar er senn á enda og verða forsetakosningar 27. júní berist mótframboð. Guðni lýsti því yfir í nýársávarpi sínu að hann hygði á endurkjör og á undanförnum vikum hafa nokkrir karlmenn lýst því yfir að þeir ætli sér í framboð. Til þess þarf tiltekinn fjölda meðmælenda og þarf að skila lista með nöfnum þeirra til yfirkjörstjórna.

Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi kom saman til fundar í Kaplakrika í dag til að taka á móti meðmælendalistum. Tveir frambjóðendur skiluðu inn listum, Guðni Th. og Guðmundur Franklín Jónsson.

„Við munum núna fara yfir meðmælendalista frá þessum forsetaefnum og stefnum að því að gefa út vottorð til forsetaefna, ef þeir uppfylla kröfur, þann 21. maí næstkomandi,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu.

Yfirkjörstjórnir í öðrum kjördæmum taka á móti meðmælendalistum í næstu viku og þá verður endanlega ljóst hvort og þá með hvaða hætti forsetakosningar fara fram. Í fyrsta skipti var hægt að safna undirskriftum með rafrænum hætti.

„Það var gert í ljósi þess ástands sem hefur verið í samfélaginu. Það er samkomubann og þetta var nýbreytni í kosningum en þetta ferli hefur gefist vel og þetta var held ég þægilegt fyrir alla, líka þægilegt fyrir yfirkjörstjórn til að fara yfir þá meðmælendur sem hafa sett nöfn á bak við forsetaefni,“ segir Huginn.