„Heimurinn yrði ekki uppfullur af sannleika, þótt stjórnvöld myndu banna lygar. Þegar á botninn er hvolft er sannleikurinn nefnilega mjög illviðráðanlegt fyrirbæri,“ segir Halldór Armand sem geldur varhug við starfshóp þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu.
Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:
Þegar Sovétríkin hrundu voru vestrænir blaðamenn sendir yfir járntjaldið í þeim erindagjörðum að kenna kollegum sínum í austri frjálsa sannleiksleit. Hugmyndin var sú að blaðamenn í Sovétríkjunum hefðu búið við svo rosalega ritskoðun lengi að það þyrfti að kenna þeim að leita sannleikans, jafnvel skýra það út fyrir þeim hvað sannleikurinn væri, nú þegar þeir máttu skyndilega skrifa og segja það sem þeir vildu. Öfugt við Vesturlandabúanna kynnu Sovétmennirnir ekki að vera frjálsir, og vegna þess að hlutverk fjölmiðla er víst að elta og segja sannleikann, var þess vegna ekki seinna vænna en að senda okkar fólk í snarhasti þarna yfir með kennslubækur um tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi og svo framvegis.
Einhverjir bentu á að þetta væri kannski ekki alveg svona einfalt. Þótt sovéskir blaðamenn hefðu þurft að fylgja ströngum fyrirmælum frá yfirstjórn kommúnistaflokksins um það hvað mátti og mátti ekki segja þýddi það kannski ekki beinlínis að þeir og almenningur allur í Sovétríkjunum sálugu vissu ekki hvað frjáls fjölmiðlun væri.
Þvert á móti þýddi það kannski einmitt að þeir áttuðu sig fullkomlega á því, jafnvel talsvert betur en almenningur á Vesturlöndum, sem trúði svo heitt á sitt eigið frelsi og hélt í þá barnatrú að fjölmiðlar þar væru frjálsir og nýttu þetta frelsi til að standa vörð um lýðræðið, hlutverk sem við nánari skoðun hélt ekki alltaf vatni, jafnvel bara alls ekki og þvert á móti.
Það var líka hægt að líta á málið svona. Almenningur í Sovétríkjunum var svo vanur því að hlusta á augljósan lygaáróður yfirvalda, sem settur var fram á formi ríkissannleika, svo vanur því að greina á milli áróðurs annars vegar og raunveruleikans sem hann þekkti á eigin skinni hins vegar, að í stað þess að senda vestræna blaðamenn til Sovétríkjanna til að kenna frjálsa fjölmiðlun, hefði miklu frekar átt að senda sovéska lesendur til Vesturlanda, til þess að kenna Vesturlandabúum að lesa fjölmiðla og hjálpa þeim að átta sig á því að þeir væru ekki næstum því jafn-frjálsir og þeir sjálfir héldu. Áróðurinn sem þeir sættu af hálfu yfirvalda og stórfyrirtækja væri engu minni en sá sem ástundaður var í Sovétríkjunum, hann var bara ekki jafn-fáránlega augljós.
Lýðheilsa er nýjasta stjórntækið
Nú hefur verið settur á laggir svonefndur vinnuhópur á vegum þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 veiruna. Vinnuhópur þessi hefur það á sinni verkáætlun að kanna hvort rangar upplýsingar um veiruna hafi verið breiddar út til almennings og jafnframt „stuðla að vitundarvakningu og efla almenna aðgát gagnvart upplýsingum um COVID-19“. Það á með öðrum orðum að kenna almenningi að átta sig á sannleikanum. Hvergi kemur almennilega fram hvað þessi upplýsingaóreiða er nákvæmlega eða hvort hún hafi til þessa verið eitthvert samfélagsmein á Íslandi. Þá hafa stjórnvöld að því virðist aldrei verið spurð úr hvaða jarðvegi þetta batterí er eiginlega sprottið, hver bjó þetta til, hver samþykkti þetta. Á vef stjórnarráðsins er aðeins að finna almennar lýsingar á því að hægt sé að nota internetið til þess að dreifa röngum upplýsingum og að misvísandi upplýsingar séu af þessum sökum orðnar að „alþjóðlegu vandamáli“. Þessi nýi vinnuhópur er sem sagt viðbragð við þessu nýja vandamáli.
Það kemur ekki á óvart að yfirlýst markmið þessa nýja sannleikshóps sé að „stuðla að lýðheilsu“ og einhverju sem kallað er „heilbrigðisöryggi“. Lýðheilsa hefur tekið við sem öflugasta stjórntækið á Vesturlöndum og er rökrétt framhald af þeirri þróun sem hefur átt sér stað alla þessa öld frá árásunum á Tvíburaturnana. Sífellt er vegið meira og meira að réttindum almennings undir því yfirskyni að verið sé að tryggja öryggi hans. Í samfélögum, sem eru að nafninu til frjáls, eiga stjórnvöld erfiðara með að stýra lífsháttum venjulegra borgara með beinni valdbeitingu, þeir hafa alls konar réttindi sem þvælast fyrir ofríkinu, og þess vegna skiptir öllu máli í slíkum samfélögum að stýra viðhorfum fólks. Og einfaldasta leiðin til að stýra viðhorfum fólks og þannig lífsháttum þess er að gera það hrætt, það gefur auga leið, þess vegna hafa valdhafar um víða veröld notað myndlíkingar um hernað til þess að tjá sig um veiruna.
Og það virkar líka. COVID-plágan sýnir okkur með ótvíræðum hætti hversu reiðubúið fólk er til þess að bókstaflega fleygja frá sér grundvallarréttindum ef það telur öryggi sínu ógnað. Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr hættunni vegna veirunnar, en þetta ætti engu að síður að vera víti til varnaðar. Eitt af því merkilegasta við daglegt líf síðustu misserin er að taka eftir því hversu mishrætt fólk er við þessa veiru. Sumir bjástra grímuklæddir við að ýta á gönguljósahnappinn með olnboganum, aðrir láta sér fátt um finnast og eru alveg óhræddir. Er það vegna misvísandi upplýsinga? Nei, ég held að það tengist því miklu frekar að fólk sér heiminn mjög ólíkum augum, hefur ólíkt gildismat og forgangsröðun, er mis-lífhrætt og túlkar upplýsingar á gerólíkan hátt.
Þessi sannleiksvinnuhópur þjóðaröryggisráðs ætti af mörgum ástæðum að vekja ugg. Í fyrsta lagi er þetta einkennilegt skref vegna þess að ef það er eitthvað sem slá má föstu um veiruna þá er það að upplýsingar um hana frá stjórnvöldum um víða veröld hafa verið æði misjafnar, óáreiðanlegar og oft þversagnakenndar. Það sem fyrst og fremst virðist raunverulega vitað um þessa veiru er að margt í eðli hennar er ennþá á huldu. Í öðru lagi er svo vitaskuld framundan meiriháttar umræða um það hvort þessar harkalegu aðgerðir á Vesturlöndum, sem fólu í sér að taka upp frelsisskerðingar að hætti kínverska kommúnistaflokksins, sem og sú ákvörðun að bókstaflega sturta öllu hagkerfinu ofan í klósettið og gera annan hvern mann atvinnulausan, hafi verið skynsamleg viðbrögð. Það að yfirvöld hafi sett á laggir starfshóp sem á berjast gegn einhverju sem heitir upplýsingaóreiða, og það í umboði fyrirbæris sem heitir þjóðaröryggisráð, með því að hafa afskipti af því hvernig og hvar fólk kýs að fylgjast með samfélagi sínu lofar ekki góðu.
Upplýsingaóreiða er annað nafn á lýðræði
Markmið vinnuhópsins er að kanna umfang skipulegrar útbreiðslu rangra eða misvísandi upplýsinga um COVID-19. Á móti mætti segja að nútímalýðræðissamfélög eru gegnsýrð af skipulegri útbreiðslu misvísandi upplýsinga og valdakerfi þeirra grundvallast að miklu leyti á þeim. Fjölmiðlar eru barmafullir af misvísandi upplýsingum sem þjóna stórum hagsmunaöflum og þegja sömuleiðis skipulega um ákveðin stór mál. Samt hefur aldrei komið til tals að láta opinbera sannleiksnefnd fylgjast með þeim. Allar upplýsingar frá stjórnarráðinu sjálfu eru sömuleiðis á sinn hátt misvísandi vegna þess að þær snúast alltaf á endanum um það að láta aðgerðir ríkisstjórnarinnar líta vel út – nákvæmlega eins og fréttatilkynningin sjálf um starfshópinn er dæmi um. Það er ekki þar með sagt að þær séu rangar. Oft eru upplýsingar bara hvorki rangar né réttar, heldur er eðli þeirra svo að segja fólgið í framsetningu þeirra og samhengi hverju sinni, og það hvort þær teljast misvísandi eða réttvísandi getur sömuleiðis verð háð því hverju viðtakandi þeirra trúir eða vill trúa. Það að ímynda sér að til sé einhvers konar tær, ómenguð og rétt leið til þess að breiða út upplýsingar um mál sem er í eðli sínu rammpólitískt og umdeilt er fjarstæðukennd hugmynd.
Í lýðræðisríkjum er það ekki hlutverk yfirvalda og lögreglunnar að sigta upplýsingar fyrir fólk. Upplýsingaóreiða er það sem á með réttu á að einkenna lýðræðisríki. Það er einmitt engin óreiða á upplýsingum í harðstjórnarríkjum. Það að halda því fram að Donald Trump hafi verið kosinn, eða að Bretar hafi valið að ganga úr Evrópusambandinu, vegna einhverra falskra upplýsinga er fásinna. Við skulum ekki falla í sömu gryfju og Vesturlandabúar gerðu við hrun Sovétríkjanna þegar þeir héldu að þeir einir kynnu að segja sannleikann eða vissu hvað hann væri. Þeirra eigið þjóðfélag var allt saman gegnsýrt af lygaáróðri sömuleiðis. Falskar fréttir eru ekkert nýtt. Þær eru bara, eins og fréttaflutningurinn í Sovétríkjunum var, aðeins augljósari birtingarmynd skipulegra lyga en maður sér annars staðar og að því leyti eru þær í rauninni skaðminni en ella.
Svo má ekki gleyma því að það er líka réttur frjálsborinnar manneskju að kynna sér rangar upplýsingar og jafnvel trúa þeim gegn betri vitund. Heimurinn yrði ekki uppfullur af sannleika, þótt stjórnvöld myndu banna lygar. Þegar á botninn er hvolft er sannleikurinn nefnilega mjög illviðráðanlegt fyrirbæri og við manneskjurnar höfum aldrei ráðið neitt sérstaklega vel við hann vegna þess að við erum uppfull af mótsögnum. Við erum sjálf hvorki sönn né login, heldur einhvers staðar þarna á milli. Við trúum oft því sem við vitum innst inni að heldur ekki vatni. Við trúum andstæðum sjónarmiðum samtímis. Við skiljum ekki af hverju við viljum það sem við viljum og gerum það sem við viljum ekki gera. Jesú segir margt gáfulegt á síðum Biblíunnar, en hann þegir líka á viturlegum stöðum, eins og til dæmis þegar Pílatus spyr hann hvað sannleikurinn sé.