Dauð vídjóspóla í hillu er eins og dauð bók í hillu segir kaupmaðurinn á horninu sem er líklega sá eini á landinu sem enn býður VHS-spólur til sölu. Þótt nærri tveir áratugir eru liðnir síðan ný tækni ruddi VHS spólunni af markaði seljast spólurnar ennþá.

Kaupmennirnir í Kjötborg keyptu á sínum tíma lagerinn af myndbandaleigunni á Frakkastíg þegar hún lokaði. „Síðan leigðum við þetta dálítið lengi út, fólk þurfti ekki að borga sektir þótt það mundi ekki eftir því að koma næsta dag eftir eins og var nú stíft á myndbandaleigunum formlegu. Þetta var svona í frjálsari dúr hjá okkur. Nú síðan höfum við verið í seinni tíð að selja myndirnar eftir að sem sagt leigan fór að verða mjög lítil,“ segir Gunnar Jónasson sem hefur rekið verslunina Kjötborg á Ásvallagötu um árabil ásamt Kristjáni bróður sínum.

Eldri kynslóðin enn með myndbandstæki

Bræðurnir í Kjötborg bjóða spólurnar á kostakjörum, eða 150 krónur stykkið sem er langt undir því sem kostaði að leigja myndirnar á sínum tíma. Þótt það séu að verða tveir áratugir síðan DVD-diskurinn og síðar stafræn tækni ruddi VHS spólunni út af markaðnum, þá er enn einhver eftirspurn. „Það hafa komið svona einstaka safnarar og tekið svona 10 og 20 myndir.“

 Á fólk ennþá svona tæki? „Það er lítið um það af því að mörg þeirra eru biluð. En mér skilst að nýju sjónvörpin í dag taki ekki þessi vídeotæki inn í sig einhvern veginn, án þess að ég sé sérfræðingur í þessu. Svo í seinni tíð þá virðist unga fólkið bara vilja vera með þetta í Spotify en sem sagt eldri kynslóðin er ennþá með vídjó og ég veit um tvo þrjá aðila sem hafa tekið myndir hjá mér og eru með vídjó.“

Vel á fimmta hundrað titlar eru í boði og leynast þarna margar af helstu perlum kvikmyndasögunnar. Gunnar vonast til að koma öllum lagernum út með tíð og tíma. „Aðalatriðið er að þær komist í hendurnar á einhverjum sem hefur gaman að því. Af því að dauð spóla í hillu er alveg eins og dauð bók í hillu hjá fólki. Fólk á heilu ritsöfnin sem það hefur aldrei lesið. Það var bara ákveðinn klassi í gamla daga að vera með gott bókasafn. Þannig að sennilega er það svipað með vídjóið.“