Formaður Flugfreyjufélags Íslands segir að flugfreyjum sé brugðið við orðsendingu forstjóra Icelandair þar sem kemur fram að sjálft starfsfólkið sé helsta hindrunin í veginum þegar kemur að því að bjarga félaginu. Formaður félags flugfreyja segir að tilboð um launalækkun og varanlega skerðingum á réttindum sé óviðunandi. Aðspurð segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, að það sé grafalvarleg að leggja ábyrgðina á herðar starfsfólkinu.
Icelandair verður að komast í gegnum núverandi stöðu og klára fjármögnun félagsins, annars verður framhaldið væntanlega ekki lengur í okkar höndum, segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í bréfi til starfsmanna í gærkvöldi. Bogi segir að tryggja verði langtímasamninga við flugstéttir félagsins.
Bogi segir að önnur flugfélög hafi gripið til mjög harkalegra aðgerða til að lækka kostnaðargrunninn. Icelandair þurfi að bregðast við með sama hætti. Launakostnaður sé stærsti kostnaðarliðurinn og þar vegi launakostnaður flugstétta þyngst. Gera þurfi talsverðar breytingar á samningum. Þá segir Bogi í bréfinu að það sé mjög sérstakt að á meðan unnið sé að því dag og nótt að bjarga fyrirtækinu að upplifa að það sem helst standi í veginum sé starfsfólkið. Erfiðlega gangi að semja um breytingar á samningum.
Bogi segir að ekki sé mikill tími til stefnu því tekjubresturinn sé nær alger. Boðað hafi verið til hluthafafundar eftir tólf daga, 22. maí, þar sem lögð verði fram til samþykktar heimild til hlutafjáraukningar. Meðal þess sem verði að liggja fyrir á fundinum sé samþykki þeirra sem tilheyra flugstéttum fyrir langtíma samningum.
„Okkar fólki er bara brugðið og kannski hugsi yfir stöðu mála og upplifir að það sé kannski verið að reyna að grafa undan samninganefndum flugstéttanna með því að koma þessu til starfsmanna,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Er verið að biðja ykkur um að taka á ykkur launalækkun?
„Það sem liggur á samningaborðinu er launalækkun og skerðing á réttindum til frambúðar og það er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við. Flugfreyjufélagið er til í að gera tilslakanir í ákveðinn tíma til að aðstoða félagið yfir erfiðasta hjallann. Við erum einnig tilbúinn til að gera lengri samning samhliða því,“ segir Guðlaug.
En ekki að taka á ykkur varanlegri skerðingar?
„Nei, við ætlum ekki að gera það,“ segir Guðlaug.
Nú hljómar þetta bréf eins og ábyrgðin sé sett á herðar starfsfólkinu, hvað finnst þér um það?
„Mér finnst það bara grafalvarlegt og eitthvað sem á ekki að tíðkast í íslensku þjóðfélagi,“ segir Guðlaug.