Forsætisráðherra vill að Vinnumálastofnun birti lista yfir þau fyrirtæki sem hafa nýtt hlutabótarleiðina. Stofnunin telur sig ekki hafa heimild til þess. Leitað verði álits Persónuverndar. Hagar ákváðu í dag að endurgreiða hlutabætur starfsmanna og Festi íhugar að fara sömu leið.

Ríkisstjórnin greindi frá því 21. mars að í stað þess að segja upp fólki gætu fyrirtæki í fjárhagsþrengingum minnkað starfshlutfall fólks í tuttugu og fimm prósent þannig að starfsmenn gætu verið á sjötíu og fimm prósent atvinnuleysisbótum.

Stór fyrirtæki sem ekki eiga í rekstrarvanda hafa nýtt sér þessa hlutabótaleið með tugmilljóna króna kostnaði fyrir ríkissjóð þótt þau hafi jafnvel greitt út arð á sama tíma.

Það fellur í hlut Vinnumálstofnunar að hafa eftirlit með því hverjir nýta sér hlutabótaleiðina. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í hádegisfréttum að ekki hefði gefist ráðrúm til að sinna eftirlitinu. Það yrði gert í haust, jafnvel fyrr. 

Og ráðherrum var málið ofarlega í huga að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
 

 

„Við virðumst hafa tilvik þar sem  fyrirtæki hafa ekki haft neina raunverulega þörf, þar sem þau hafa t.d. verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, til þess að nýta þetta úrræði. Það er óskaplega slæmt og rekur rýting í samstöðuna sem við höfum öll verið að reyna að byggja upp á Íslandi til þess að komast saman í gegnum þessa tíma,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

Málið verður ekki látið afskiptalaust. 

 

„Það næsta sem gerist í því er að Vinnumálstofnun mun annars vegar birta lista yfir þau fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þessa leið. Þannig að það á að vera aðgengilegt með gagnsæjum hætti. Síðan verða send út bréf þar sem verður óskað eftir rökstuðningi fyrir því að fyrirtæki hafi verið að nýta sér þessa leið,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Eftir hádegið ákvað Vinnumálamálastofnun að flýta vinnunni við eftilitið og byrja strax í næstu með að setja á fót eftirlitshóps. Hann mun setja sér verklagsreglur og ráðst síðan í að skoða stærstu fyrirtækin og í hvaða starfsgreinum hlutabótaleiðin hefur verið nýtt. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV kemur fram að Vinnumálastofnun telji sér ekki heimilt að birta lista yfir fyrirtæki sem nýta hlutabótaleiðina. Ekki hafi borist formleg beiðni frá stjórnvöldum um slíkt. 

Talsmaður atvinnurekenda bendir á að úrræðið hafi verið kynnt aðeins tíu dögum fyrir mánaðamótin mars apríl. 

 

„Stjórnvöld hafa gefið út að þetta var gert mjög hratt og það verður að hafa í huga að ákvarðanir fyrirtækjanna voru líka tekna með mjög lítinn undirbúning í huga. Að þessu virtu sjáum við að það hafa komið upp dæmi sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Það er alveg skýrt að það brýtur í bága við samfélagssáttmálann að fyrirtæki séu að greiða sér út arð eða að kaupa eigin hlutabréf og á sama tíma að nýta sér björgunarhring stjórnvalda. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

Skeljungur lýsti því yfir í gær að fyrirtækið hygðist endurgreiða þann launakostnað sem sparaðist með hlutabótaleiðinni. 
Fjármálaráðherra segir að til greina komi að krefja fyrirtæki um endurgreiðslu. 

„Ef við fáum ekki fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þessi úrræði hafa verið nýtt þá munum við skoða slíkar leiðir til að endurheimta eða bregðast við með öðrum hættti gagnvart slíkum fyrirtækjum,“ segir Bjarni.

Í dag bættust Hagar í hópinn. Þá tilkynnti Festi að fyritækið ætlaði ekki lengur að nýta sér hlutabótaleiðina. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er til skoðunar hvort féð verði endurgreitt

„Það er afdráttarlaus krafa til allra fyrirtækja sem nýtt hafa sér hlutabótaleiðina að þau efni sinn hluta samkomulagsins og hækki aftur starfshlutfall þess starfsfólks sem fór í tímabundið lækkað starfshlutfall og standi þannig vörð um ráðningasambandið og störfin hringinn í kringum landið sem var markmið aðgerðanna,“ segir Halldór.