Forseti leikmannasamtaka Íslands segir dæmi um það að félög með fótboltalið í efstu deildum hafi skert laun hjá leikmönnum án þess að fá samþykki leikmanna. Þá hafi körlum og konum verið mismunað hjá félagi sem á lið í efstu deild.

Fjárhagsstaða flestra knattspyrnufélaga er erfið um þessar mundir og hafa flestir leikmenn tekið á sig einhverja launaskerðingu. Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, segir þónokkur dæmi um að illa hafi verið staðið að breytingum á samningum leikmanna. Leikmenn hafi leitað til samtakanna vegna þessa.

„Liðin hafa verið að eiga við þessa samninga sem einhliða. Að liðin láti vita að það er verið að skerða launin á tvíhliða samning er það ekki hægt, og það má ekki. Þannig að til þess að leikmaður lækki launin þarftu að ná samkomulagi við leikmanninn. Það er skrýtið að það er ekki verið að gera í öllum tilvikum og það er aðallega að koma inn á borðið hjá okkur að leikmenn eru ekki að fá greidd full laun þó það sé ekkert samkomulag í höfn um neitt annað,“ segir Arnar Sveinn. 

Eðlilega þurfi leikmenn að taka tillit til aðstæðna en mikilvægt sé að rétt sé staðið að málum.

„Staðan er bara þannig að það er réttur leikmanna að fá laun sín greidd - staðan erfið hjá mörgum félögum og leikmenn þurfa að sýna því ákveðna tillitsemi og reyna að finna lausnir með félaginu. En að leita til okkar og athuga málin, því nú erum við komin með ágætis yfirsýn yfir málin hjá flestum félögum svo það er um að gera að heyra í okkur,“

„Auðvitað bara glórulaust“

Þá segir hann dæmi um það að félag, með lið í efstu deild, hafi mismunað karla - og kvennaliðinu í framkvæmdinni.

„Í því tilfelli sem við þekkjum er körlunum boðinn fundur og rætt við karlaliðið; útskýrt hvernig málin er og staðan tekin. Á meðan kvennamegin fékk enginn neina tilkynningu um eitt eða neitt heldur bara lækkun á samningi og þær höfðu í rauninni ekkert um það að segja, þó þær hafi allt um það að segja,“ segir Arnar Sveinn.

„Það er auðvtiað mjög miður, mig langar ekki að segja þetta sé viljandi gert heldur hafi gerst óvart. Ég vona það innilega og að þetta verði leiðrétt en það er auðvitað bara glórulaust,“

Viðtalið við Arnar Svein má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.