Landinn verður með beina útsendingu frá svartþrastahreiðri næstu vikurnar. Í hreiðrinu eru þrjú egg og ungar klekjast út á næstu dögum. Útsendingin er unnin í samvinnu við Magnús Magnússon kvikmyndagerðarmann og fuglaáhugamann.
Á Youtube rás Emmson Film, sem er fyrirtæki Magnúsar, er að finna ýmiskonar efni úr náttúru Íslands, meðal annars heimildamynd um fálkann.
Svartþröstur(Turdus merula) er af þrastaætt (turididae).
Svartþröstur er 24 – 25 cm. á lengd og um 100 g. að þygnd en vænghafið er 34 – 39 cm. Hann er ekki ósvipaður stara í sjón en þekkist best frá honum á lengra stéli og jöfnum svörtum lit. (karlfuglinn) Fullorðinn karl er alsvartur en goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kerlingin er dökkmóbrún að ofan en ljósari og rákótt að neðan.
Staðfugl frá aldamótum
Svartþrösturinn er í dag staðfugl á Íslandi. Hann var haust og vetrargestur en fyrsta staðfesta varpið var í Reykjavík árið 1969. Frá árinu 1991 hafa svartþrestir orpið reglulega í höfuðborginni. Vorið 2000 kom síðan mikil ganga af svartþrösturm. Eftir það hefur verið litið á svartþröstinn sem staðfugl og hefur stofninn vaxið hröðum skrefum. Talið er að yfir 2000 varppör séu á Íslandi og svarþrösturinn hefur sest að í öllum landshlutum.
Fæða
Svartþrösturinn étur skordýr, köngulær og orma en tekur einnig ber í runnum og trjám þegar líður á sumarið. Á veturna þiggur svartþrösturinn matargjafir í húsagörðum, svosem ávexti og feitmeti.
Varptími
Svartþrösturinn verpir í trjám í húsagörðum og trjálundum. Hann verpir allt að þrisvar sinnum yfir sumarið, fyrst í apríl. Þegar ungarnir skríða úr eggjunum fer kerlingin að undirbúa næsta varp og karlinn sér um ungauppeldið. Fjöldi eggja í einu varpi er 3 – 5 og fuglinn liggur á í 13 – 15 daga. Ungarnir eru síðan um hálfan mánuð að komast á legg og hverfa úr hreiðrinu.
(Heimildir: fuglavernd.is, Fuglavefurinn, Hallgrímur Gunnarsson.)