Axel Kárason, leikmaður Tindastóls og fyrrum landsliðsmaður í körfubolta, vinnur sem dýralæknir í Skagafirði. Hann segist ekki myndu vilja skipta á því og að vera leikmaður í NBA.
Axel býr á bænum Vík, rétt fyrir utan Sauðárkrók, og hefur leikið með Tindastóli frá árinu 2017. Samhliða því starfar hann sem dýralæknir þar sem hann sinnir dýrunum í sveitinni í kring. Hann á 57 leiki að baki með íslenska körfuboltalandsliðinu, og setti met árið 2015 þegar hann hafði leikið 30 leiki með liðinu í röð. Axel er alin upp í Skagafirði og segir það ekki tilviljun að hann hafi byrjað snemma í körfubolta.
„Pabbi minn var landsliðsmaður, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Þangað til hann tekur sig til ásamt móður minni og flytur hingað norður og þau gerast bændur og það var auðvitað af þeirri ástæðu sem það var alltaf körfubolti spilaður í sveitinni,“ segir Axel. „Við vorum fjögur systkini ásamt krökkunum í sveitinni þannig það var alltaf hægt að skipta í lið og svo auðvitað var pabbi hérna á króknum að spila og þjálfa svo það lá alveg ljóst við að það yrði einhver körfubolti í lífi manns og þessi framtíð að einhverju leyti orðin meitluð að, þetta verði hluti af því sem maður vill gera og leggur fyrir sig til lengri tíma,“ segir hann.
Vildi búa í Skagafirðinum
Hann var rétt um tvítugt þegar hann vissi að hann vildi snúa aftur í sveitina og kláraði háskólanám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og fór svo í dýralæknanám í Danmörku. Axel útskrifaðist úr náminu 2017 og þá lá leiðin aftur í Skagafjörðinn þar sem Axel gekk til liðs við uppeldisfélagið og hefur síðan þá unnið sem dýralæknir og spilað körfubolta. Það geti stundum verið nokkuð krefjandi.
„Bara af því að starfið er frekar óskipulagt, allavega býður ekki upp á mikið skipulag. Og yfirleitt eitthvað skipulag, það springur innan örfárra klukkustunda því það bara kemur eitt símtal og það þarf að breyta öllu, endurraða hver þú ætlar að fara þann daginn og svo framvegis,“ segir hann.
Það hjálpi þó hve mikill körfuboltakúltúr sé á svæðinu.
„Ég sit þarna í flórnum með hann í fanginu“
„Svo kannski tekur maður oft of mikinn séns. Eins og þegar við áttum að spila útileik við Þórsarana í vetur, þá fékk ég hringingu hvort ég kæmist á einn bæ, sem er akkúrat á leiðinni frá Króknum og til Akureyrar, svo ég hugsa bara já, þeir pikka mig bara upp á leiðinni strákarnir,“ segir hann. Á bænum átti Axel að hjálpa kú að koma kálfi í heiminn. Hann segir það mjög misjafnt hve langan tíma það taki. „Það endar þannig að þetta tekur mig eitthvað lengri tíma og þegar liðsrútan er að keyra upp afleggjarann heim að bænum til að taka mig með, þá er ég að ná kálfinum út og sit þarna í flórnum með hann í fanginu og maður bara jæja, gengur betur næst og þjálfarinn orðinn brjalaður að bíða eftir manni,“ segir Axel hlægjandi.
Þakklátur fyrir lífið eins og það er í dag
„Ég hugsa að ég myndi ekki vilja hafa þetta á neinn annan hátt, og svona ef ég á að vera alveg hreinskilinn, ég myndi ekkert frekar vilja vera NBA leikmaður í dag miðað við það sem ég er að gera í þessu tvennu,“ segir Axel. „Það eru ákveðin forréttindi fólgin í því fyrir fólk eins og mig hvað deildin hérna, sem hálf atvinnumannadeild, er samt góð og maður hefur möguleikann á því að vera spila á háu getustigi og keppa við góða leikmenn þó maður sé bara að gera þetta í rauninni af gamni sínu á kvöldin,“ segir hann.
Hann segir Bikarmeistaratitilinn 2018 með Tindastóli eitt af því sem standir upp úr á ferlinum. „Það var svo gaman að sjá allt bæjarfélagið í stúkunni og hvernig allir einhvernveginn brostu til manns vikurnar á eftir, hvað þetta gerði mikið fyrir fólkið, það var mjög gefandi. Þetta hefur sína kosti og galla, það eru allir með í þessu, það sveiflast allir með genginu, það hafa allir áhuga á því,“ segir Axel. Stuðningsmennirnir séu strax farnir að spyrja hann um næsta tímabil úti á götu. „Það eru eiginlega forréttindi að fólk hafi svona mikinn áhuga á því hvað ég er að gera í mínum frítíma, það er náttúrlega mjög skemmtilegt og maður á náttúrulega að meta það. Svo lærir maður að brynja sig fyrir hinu og minnka þessar skapsveiflur eftir því hvort leikurinn vannst eða tapaðist deginum áður og þá jafnvel getur maður veitt stuðningsmönnunum sáluhjálp ef þeir eru mjög langt niðri,“ segir Axel Kárason.