Ein fremsta sundkona landsins, Eygló Ósk Gústafsdóttir, segir frestun Ólympíuleikana setja stórt strik í reikninginn hjá henni. Hún er óviss um hvort hún haldi áfram að synda, en hlakkar til að komast í laugina eftir helgi.

Eygló Ósk, sem varð 25 ára á árinu, segir að hún hafi séð fyrir sér að hætta í sundi þegar hún yrði 25 ára - eftir að hafa helgað líf sitt sundinu síðustu 20 ár. Nú þegar Ólympíuleikunum hafi verið frestað um ár, sé hún hins vegar óviss hvort hún ætli að halda áfram að synda.

„Það er stór ákvörðun, maður var buinn að undirbúa sig fyrir þetta sumar svo var planið mitt að hætta í sundi eftir sumarið. Allavega að taka pásu, ég veit ekki hvort að ég geti hætt fyrst að maður er búinn að vera svona lengi í þessu, maður er svona sundklikkaður, þetta er stór ákvörðun og eg er ekki alveg búin að ákveða mig. En ég mun gera það í sumar,“ segir Eygló.

Eygló hlakkar þó mikið til að komast í laugina eftir helgi. „Ég hlakka til, ef eitthvað er ég búin að sakna þess ótrúlega að synda og hreyfa mig í lauginni, og maður ímyndar sér að þó maður hætti í framtíðinni heldur maður áfram að synd,a ég er búin að hlakka mjög til þess að komast í laugina og hreyfa mig og æfa,“ segir hún.

Og það kitlar hana að reyna að komsta á Ólympíuleika á næsta ári. „Það hefur kviknað smá svona söknuður í manni og ég veit það ekki, ég hef farið fram og til baka. Það væri ótrúlega spennandi að taka eitt ár í viðbót en aftur á móti væri það mjög tímafrekt og dýrt, og það er mikill peningur sem ferí þetta en þetta er samt visst ströggl að komast í gegnum svona ár,“ segir Eygló Ósk.