Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburgar í Þýskalandi og landsliðsmaður í fótbolta, er feginn því að búa í landi eins og Þýskalandi nú þegar heimsfaraldur eins og covid-19 gengur yfir.
Daily Mail greinir frá því í dag að þýska Bundesligan geti hafist að nýju 16. maí en áður hafði verið gefið út að deildin myndi hefjast 9. maí.
Keppni í Þýskalandi var stöðvuð 9. mars og hefur ekkert verið leikið síðan. Í ljósi þess hve vel hefur gengið að eiga við kórónaveirufaraldurinn í Þýskalandi hefur fótboltaliðum verið leyft að æfa í minni hópum síðustu vikur.
„Við erum farnir að geta æft í aðeins stærri hópum og öll lið í Bundesligunni eru byrjuð að æfa núna. Við erum svona 10-12 í hóp núna og þetta er svona að nálgast það að vera venjulegar æfingar. Þetta er ekki alveg komið á þann stað að við séum að spila eða halda bolta innan liðs, eða eitthvað slíkt, þannig að það vantar svona þetta allra síðasta. Það er verið að bíða eftir því að fá grænu ljósi frá pólitíkinni. Svo er reiknað með því að það verði æfingar í um tvær vikur áður en það verður hægt að byrja deildina,” segir framherjinn öflugi.
Forráðamenn þýsku deildarinnar hafa rætt náið við yfirvöld íþrótta- og heilsumál í Þýskalandi og funduðu í dag með Angelu Merkel, kanslara. Vonast er til að keppni geti hafist um miðjan maí og deildinni og bikarkeppninni verði lokið fyrir mánaðamótin júní-júlí.
„Þjóðverjarnir eru búnir að leggja fram 20 manna læknateymi og teymi af sérfræðingum sem settu upp ákveðin ramma í kringum leikina sem verða spilaðir, þeir verða auðvitað spilaðir án áhorfenda. Þeir segjast vera 100% tilbúnir. Það vantar bara núna að pólitíkin gefi grænt ljós á að það megi fara að spila. Það meikar ekkert sens ef fólk þarf að halda tveggja metra fjarlægð á almannafæri en við að spila fótbolta. Þannig að það þarf að vera smá samræmi í þessu. En það er mikilvægt, varðandi samningsmál og fleira, að klára deildina fyrir 30. júní. Því að 1. júlí byrjar í raun nýtt tímabil þannig að það er mjög mikið flækjustig. Mín trú, eða það sem ég heyri af þessum stóru deildum, er að þýska deildin verði líklega sú fyrsta sem byrjar og sú fyrsta sem að klárar. Þannig að vonandi gengur það eftir.”
Nú er vor í lofti í Þýskalandi og þjóðfélagið að komast hægt og bítandi af stað. Alfreð segist þakklátur fyrir að búa í landi eins og Þýskalandi á svona tímum.
„Maður verður bara að horfa á það jákvæða. Maður er að nýta góða veðrið hérna og að geta verið að æfa tel ég vera ákveðin forréttindi. Í flestum löndum í kring, á Englandi, Spáni og auðvitað á Íslandi er ekki verið að æfa. Þannig að ég er þakklátur fyrir að vera í landi eins og Þýskalandi þegar eitthvað svona skellur á. Maður sér hvað það er mikið skipulag og hvað þeir tækla hlutina af mikilli alvöru og fagmennsku.”