Ríkisstjórnin ætlar ábyrgjast lán til Icelandair gegn því skilyrði að félagið auki hlutaféð sitt. Þetta ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum sem hefur staðið yfir lungann úr deginum. Fjármálaráðherra segir að með þessu og aðstoð við að greiða laun í uppsagnarfresti hlaupi ríkisstuðningur á milljörðum króna.

Ríkisstjórnin settist á fund óvenju snemma í morgun eða klukkan hálf níu. Eftir tveggja tíma fund var gert hlé á honum vegna þingstarfa. Fjármálaráðherra varðist þá allra fregna Icelandair. Ríkisstjórnarfundi var svo haldið áfram klukkan eitt. Um þrjúleytið yfirgáfu allir ráðherrar nema fjórir fundinn. Áfram sátu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgönguráðherra og félagsmálaráðherra. Rétt upp úr klukkan fjögur lauk svo fundi. Umræðuefnið var beiðni Icelandair um aðstoð. 

„Við höfum á þessu stigi ákveðið að bregðast við með jákvæðum hætti við þeirri almennu ósk. Síðan er það frekara úrvinnsluatriði hvaða skilmálar kynnu að vera fyrir því,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Víkjandi lán eða eitthvað þannig?

„Það er akkúrat úrvinnsluatriði. Það er kannski verið að tala um möguleikann á ábyrgð fyrir lánalínu. Þetta hangir allt á því að aðrar aðgerðir og önnur áform félagsins gangi eftir,“ segir Bjarni.

Fullyrt hefur verið að Icelandair þurfi að afla sér 22-29 milljarða króna og auka þannig hlutafé sitt. 

En sem sagt er svar ríkisstjórnarinnar afdráttarlaust já við þessari málaumleitan Icelandair?

„Já, með öllum þessum fyrirvörum já,“ segir Bjarni.

Er einhver verðmiði á því?

„Nei, við getum ekki sagt það á þessum tímapunkti,“ segir Bjarni.

Ríkisstjórnin lýsti því yfir í vikunni að stjórnvöld ætli að greiða stóran hluta launa starfsfólks í uppsagnarfresti. Viðbúið er að Icelandair nýti sér það. Hver yrði þá aðstoð ríkisins í heild við Icelandair?

„Það er útilokað að segja til um það nákvæmlega enda eigum við eftir að lögfesta það úrræði og eigum eftir að taka við umsóknum og allt sem lýtur að framkvæmd þessa úrræðis er eftir. Þannig að það er ekki hægt að því hvert heildarumfangið verður. En það er hins vegar alveg ljóst með þeim gríðarlega umfangsmiklu uppsögnum sem hafa átt sér stað hjá félaginu að það mun geta sótt háar fjárhæðir í þetta úrræði,“ segir Bjarni.

Þetta verða einhverjir milljarðar þá sem koma úr ríkiskassanum?

„Það sýnist mér já,“ segir Bjarni