Plast er algjört draumaefni sé það notað á réttan hátt, segja þeir Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson, eigendur Plastplans, sem er hönnunarstúdíó og eina endurvinnsla landsins sem tekur á móti öllum flokkum plasts.  

Björn Steinar og Brynjólfur eru æskuvinir. Sá fyrrnefndi er vöruhönnuður en sá síðarnefndi lærir vélarverkfræði. Þá hafði lengi langað til að vinna saman og létu slag standa þegar þeir stofnuðu plastendurvinnsluna Plastplan í Bríetartúni.  

„Við höfum alltaf sagt að plast sé algjört draumaefni, það getur verið í hvaða stærð sem er, hvaða áferð og lit,“  segir BJörn Steinar. „Við höfum bara verið að nota það á rangan hátt, til dæmis í einnota hluti, sem er ekki skynsamlegt einmitt af því að það endist svo lengi. Við viljum standa að því að búa til verðmæta og flotta hluti til að auka vitund um hversu raunverulega gott efni plast getur verið.“

Lítil heiðarleg hringrás

Sérstaða Plastplans er að það getur endurunnið plastið í 100 prósent hringrás: fyrir hvert tonn af plastefnum sem kemur inn verður til eitt tonn af endurunnu plasti. „Það er af því að við erum á svo litlum skala. Hverja einustu örðu sem kemur inn þurfum við að flokka og skola í höndunum, bræða og búa til nýja verðmæta hluti. Ég veit ekki hvernig væri hægt að gera þetta á stærri skala nema með því að taka á móti bara einni tegund plasts. Við sjáum þetta sem eina módelið sem virkar, lítil heiðarleg hringrás. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er dropi í hafið og þess vegna leggjum við ekki bara áherslu á hönnun og endurvinnslu heldur líka fræðslu.“ 

Plastplan á nú  þegar í samstarfi við Krónuna, A4, Íslenska gámafélagið, Ísbúð Vesturbæjar og Maul. Þeir segjast sjá nokkrar breytingar á plastframleiðslu í heiminum en ekki alltaf til góðs. Svokallaður grænþvottur sé að aukast, vörur séu auglýstar sem vistvænar jafnvel þótt þær hafi verið gerðar verri.  

„Til dæmis með því að að gera umbúðir sem eru bæði plast og pappi og ekki mögulegt að endurvinna. Þá er betra að nota bara plast sem er þá hægt að endurvinna aftur og aftur. Menn eru að svífa á einhverri bylgju til að láta sig líta vel út tímabundið frekar en að hugsa um varanlegar lausnir eins og við reynum að gera með samstarfsaðilum okkar. Plastið er ekki beinlínis óvinurinn, það hefur gert ótrúlega margt gott fyrir mannkynið. Við þurfum bara að nota það í rétta hluti og vandaða hluti, aldrei einnota drasl.“