„Þetta er eiginlega alveg einstakt tækifæri til að safna upplýsingum um líf fólks og hvernig það hefur það á meðan á faraldrinum stendur,“ segir Ágúst Ólafur Georgsson þjóðháttafræðingur og starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands. Safnið hefur sett saman spurningalista sem það biður sem flesta um að svara.
Spurningalistinn heitir Spurningaskrá 128 - 2020-1 - Lífið á dögum kórónaveirunnar. Þeir sem eru áhugasamir um að svara listanum geta gert það með þeim hætti sem þeim þykir þægilegast með tölvupósti eða í bréfpósti en einnig er hægt að svara á vefnum í menningarsögulega gagnasafninu Sarpi.
„Þetta er einstakt tækifæri til að fá frásagnir beint frá fólki og skrá setja þær fyrir framtíðina,“ segir Ágúst Ólafur í samtali í Víðsjá á Rás 1.
Víða verið að safna
Ágúst Ólafur segir að þjóðminjasöfn og varðveislustaðir víða á Norðurlöndum hafi hafið slíka söfnun, en í raun kom fordæmið fyrir slíkum skrám einnig frá Norðurlöndum á sínum tíma.
„Það var Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, sem hóf þetta starf árið 1960. Og svörin við þeim listum sem safnið hefur sent út í gegnum tíðina nýtast enn við rannsóknir. Á síðustu árum höfum við verið að afla upplýsinga um ólík atriði eins og það hvernig er að vera gamall, um sundlaugamenningu, gæludýr og samkynhneigð og eitt og annað.“
Minni útfarir
En hvað segir þjóðháttafræðingur sem vinnur við að safna heimildum fyrir framtíðina, á faraldur eftir að breyta hegðun okkar og lífi til lengri tíma?
„Ég er ekki viss um það,“ segir Ágúst Ólafur. „Ég er samt að hugsa um það hvort þetta geti hugsanlega haft áhrif á útfarir. Við höfum verið mikið fyrir það Íslendingar að halda stórar og dýrar erfidrykkjur, en nú veit maður að þær jarðarfarir sem fara fram eru fámennar fjölskylduathafnir eins og tíðkast víða í löndum í kringum okkur. Þannig að maður spyr sig hvort þarna geti orðið breytingar. En um allar breytingar sem þetta getur haft er mjög erfitt að spá.“
Í innslagi sem heyra má hér að ofan úr þættinum Víðsjá á Rás 1 er rætt nánar við Ágúst Ólaf Georgsson um þessa vinnu. Lesari í innslaginu, sem les upp úr spurningaskránni er Tómas Oddur Guðnason. Þar heyrist jafnframt söngur kammerkórsins Carminu af plötunni Hymnodia Sacra. Það er Árni Heimir Ingólfsson sem stjórnar kórnum.
Spurningaskránni númer 128 - 2020-1 Lífið á tímum kórónaveirunnar má svara hér og Þjóðminjasafn Íslands hvetur sem flesta til þátttöku.