Sigurlín Bjarney Gísladóttir rithöfundur flytur hugleiðingu um undarlega tíma og veltir fyrir sér minningum og gildi þeirra, þegar hún grefur upp poka fullan af minningum á heimili sínu.


Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar:

Í fataskápnum er ég með innkaupapoka fullan af stílabókum. Þessi poki hefur fylgt mér í 30 ár og þvælst á milli íbúða og yfirleitt fengið að dúsa í geymslunni. Í pokanum eru dagbækur mínar frá því ég var 13 til 15 ára. 1. janúar 1989 hófust dagbókarskrifin og það ár skrifaði ég upp á hvern einasta dag. Smám saman fór að fækka skiptunum sem ég skrifaði og einhvern tímann á árinu 1990 tók ég þá ákvörðun að skrifa bara þegar eitthvað merkilegt gerðist.

Í gegnum árin hef ég haft blendnar tilfinningar gagnvart þessum poka. Yfirleitt hef ég ekki kært mig um að skoða efnið, fengið kjánahroll yfir þessari dramatísku gelgju sem þarna tjáði sig um allar sína ferðir og strákana sem hún var skotin í úr öruggri fjarlægð. Það hefur hvarflað að mér að farga þessu.

Þegar ég les í gegnum bækurnar í dag fæ ég innsýn inn í það hvernig var og er í raun og veru að vera 13 og 14 ára unglingur. Að vera manneskja í mótun, forvitin, feimin, vandræðaleg og óákveðin. Ég les textann eins og spennusögu þar sem hversdagurinn sem var blasir við og inn á milli koma gullkorn sem eru í dag fyndin í gelgjulegum alvarleika sínum. Stundum ofbýður mér sjálfhverfan og uppskrúfuð dramatíkin. Þriðjudaginn 28. febrúar 1989 segir: „Í dag er vika þangað til ég fer í permanett og ég get varla beðið, permanettið verður að fara mér vel, annars brjálast ég.“ Ég hef greinilega verið með forgangsröðunina á hreinu en mánudaginn 6. mars segir: „Skíðaferðalagið verður á morgun og ég ætla ekki, ég ætla í permanett.“

Laugardaginn 12. ágúst 1989 var ég greinilega ekki í góðu skapi en símtal frá Eygló vinkonu minni hefur greinilega bjargað kvöldinu:  „Þetta er ein fúlasta helgin mín á þessu ári. Það er ekkert að gerast um helgar á kvöldin og mig er farið að langa á diskótek. Það skársta núna í kvöld var að Eygló hringdi til mín frá sumarbústaðnum úr bílasíma.“

Miðvikudaginn 22. nóvember segir: „Horfði á ungfrú heim og borðaði. Hugrún Linda komst ekki í úrslit, algjört svindl. Ég spáði ungfrú heimi sigri og hún vann, ég hef þá svolítið vit á þessu. Ætla að reyna að fara að sofa kl. 11:00. Ég ætla að fá lánaða peysu hjá mömmu til að fara í á fundinn á föstudag, en það er bara verst að mamma er alltaf í henni, vona að hún verður ekki orðin drullug og að hún vilji lána mér peysuna sem er alveg sjúk.“

Ég hef greinilega ásælst föt foreldra minna en fyrr á árinu eða 21. ágúst segir: „Spurði pabba að fá lánaðan jakkann hans en þá sagði mamma mér bara að fara í mínum jakka, ég dröslaðist í honum. Það er allt í lagi með jakkann minn en ég er bara svo hallærisleg í honum.“

Áramótin 1989 og 1990 voru svona: „Svo á slaginu 12:00 á miðnætti þá byrjaði árið 1990, þetta 1989 er búið að vera gott og eftirminnilegt ár. Fullt af sprengjum alls staðar. Horfðum á skemmtiþátt á Stöð 2. Já, og ég kláraði bókina þarna Vefarann eftir Halldór Laxness. Siddi fór út með nokkrum strákum. Fer að sofa um kl. 3:30. Ég er rosalega stolt af sjálfri mér að hafað unnið það afrek að skrifa dagbók í heilt ár, að hafað skrifað um þessa 365 daga. Ætla að reyna að halda þessu áfram. Á nýja árinu ætla ég að reyna mitt besta til að læra heima og að hafa skoðun á hlutum og standa fyrir mínum rétti. Komandi ár verður vissulega erfitt eins og alltaf, vona að þetta ár verði jafn gott og það sem er nýliðið. Vona samt að það rætist eitthvað úr mínum frægu ástarmálum.“

Um þessar mundir óska bæði Landsbókasafnið og Ríkisútvarpið eftir frásögnum fólks frá þessum undarlega tíma Covid19 faraldursins. Vonandi verður það til þess að fólk á öllum aldri setur saman texta eða hljóðbrot um hversdaginn og tilfinningarnar sem við sveiflum okkur í dag frá degi. Í ljóðinu Rómanskar hvelfingar eftir Tómas Tranströmer segir „Þú ert aldrei fullgerður og þannig á það að vera.“ Mig langar að beina orðum mínum sérstaklega að 13 ára ungmennum þessa lands. Þið leynist þarna úti, þið fæddust í miðju góðærinu árið 2007 og ég bið ykkur, haldið dagbók, skrifið niður hvað drífur á daga ykkar, áhyggjur, væntingar, vonbrigði og hversdagslífið í sinni tærustu mynd. Á næstu þrjátíu árum er heimurinn að fara að breytast svo mikið að dagbókin ykkar verður mikilvæg heimild um undarlega tíma. Þegar betur er að gáð eru allir tímar undarlegir á sinn hátt. Páskana 2020 ferðumst við innanhúss, setjum upp þemadaga og litríkar gleðigöngur úr einu herberginu í annað og þið verðið að skjalfesta það fyrir ykkar framtíðarsjálf og börn, barnabörn og barnabarnabörn.

Um þessar mundir er lífið svolítið eins og leikurinn Dimmalimm. Leikurinn felst í því að einn er er‘ann og snýr baki í hina leikmennina og segir upphátt „1,2,3,4,5, Dimmalimm“ og snýr sér þá við. Áður en hann eða hún snýr sér við verða allir hinir að frjósa í þeirri stöðu sem þeir eru. Sá sem er‘ann sendir þá sem hreyfa sig aftur til baka. Núna eru mannheimar frosnir svo veiran nái ekki að horfa á okkur og dæma okkur úr leik. Það mætti ætla að himintunglin standi líka í stað, slíkt er frostið, en jörðin heldur áfram að snúast í kringum sólina.

Árið 1989 voru sjónvarpið og útvarpið svo gott sem eina afþreyingin fyrir utan plötur, spólur og hangs með krakkahópum á götuhornum. Það var hægt að hanga í símanum og spjalla við vinkonur, bara eina í einu þó. Margir voru ennþá með skífusíma en takkasímarnir voru að ryðja sér til rúms. Á árinu 1989 voru tölvur ekki orðnar almenn eign á heimilum, farsímarnir eins og við þekkjum þá í dag ekki til og símnúmerabirtar voru yfirleitt ekki til staðar. Þannig var hægt að hringja út og suður og sá sem svaraði gat ekki séð hver var að hringja. Það var því mikilvægt að byrja hvert samtal á því að kynna sig. Þetta þýddi líka að það var hægt að gera símaat og við vinkonurnar stunduðum það grimmt þegar foreldrarnir voru víðs fjarri. Við hringdum upp í sjoppu og spurðum hvort væru til dömubindi og skemmtum okkur yfir því hvað þau sem svöruðu fóru mikið hjá sér. Í dagbókinni má sjá hvernig ég varð skotin í strák sem ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að yrða á en stundaði hins vegar miklar persónunjósnir og þannig vissi ég í lok árs heimilisfang, afmælisdag, símanúmer, nöfn foreldra og bílnúmer foreldra. Oftar en ekki hringdi ég heim til hans og þegar svarað var sagði ég í óðagoti: „Afsakið, vitlaust númer!“. Við vinkonurnar stunduðum það að hringja inn á Bylgjuna og Rás 2 og senda kveðjur til annarra vinkenna og stundum fengu Stebbi Hilmars og Eyþór Arnalds líka kveðjur. Ég man eftir því að sitja við útvarpið og fá kveðju í beinni frá vinkonu. Árið 1989 kom út platan Hvar er draumurinn? með Sálinni hans Jóns míns og ég náði að taka lögin upp á spólu þegar þau voru frumflutt í útvarpsþáttum. Þegar platan kom loksins út gat ég sungið með. Nokkrum árum síðar tókum við nokkrar upp á því að hringja í strák og ekki segja neitt heldur spila lagið Shape of my heart með Sting. Við settum símtólið við hátalarann og biðum með öndina í hálsinum á meðan Sting sá um símtalið. Fyrir stuttu tók Daði Freyr ábreiðu af þessu sama lagi. Ímyndið ykkur að síminn hringi, það er leyninúmer og eina sem heyrist er þetta: https://www.youtube.com/watch?v=H8MncwMfmvo&list=RDH8MncwMfmvo&start_radio=1