Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi alþingiskona og núverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, var orðin fertug þegar hún leitaði til læknis vegna svefnleysis sem hún hafði glímt við alla ævi. Það kom henni á óvart þegar hún var greind með ADHD.
Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir sjö ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Röskunin er óháð greind en orsakir eru í flestum tilfellum líffræðilegar. Rannsóknir benda til þess að orsaka sé að leita í truflun í boðefnastöðvum sem gegna mikilvægu hlutverki í hegðun.
Streita og verkir vegna langvarandi svefnleysis
Katrín hefur alltaf átt erfitt með svefn og aldrei sofið í meira en fimm tíma á nóttu að staðaldri síðan hún man eftir sér. Hún hafði þó ekkert stórar áhyggjur af svefnleysinu sem barn. Vissulega var hún ör og orkumikil og virtist ekki hafa næga eirð í sér til að slaka á á nóttunni eins og aðrir en þannig var hún bara. Þegar leið hins vegar á fullorðinsárin byrjaði hún að fá mikla vöðvaverki og finna fyrir streitu vegna viðvarandi svefnleysis.
Það var samt ekki fyrr en hún var um fertugt sem hún hafði samband við heimilislækninn sinn og viðurkenndi að hún þyrfti hjálp. Ýmislegt var rannsakað og niðurstaða fékkst í málið. Greiningin kom henni algjörlega í opna skjöldu. Katrín sagði frá greiningunni og lífinu með ADHD í samnefndu hlaðvarpi í umsjón Karítasar Hörpu Davíðsdóttur.
Eirðarleysi, hvatvísi og raketta í rassinum
Þegar læknirinn spurði Katrínu hvort hún hefði einhvern tíma velt því fyrir sér hvort hún gæti verið með ADHD hafði það aldrei hvarflað að henni. Hún er enda með gott minni og hefur alltaf gengið vel í skóla og taldi hún sig því ekki vera með dæmigerð einkenni. Þegar hún fór hins vegar að skoða sjálfa sig betur áttaði hún sig á því að hana einkenndi margt sem gæti tengst röskuninni. „Það var alltaf eirðarleysi í mér, hvatvísi og smá raketta í rassinum,“ viðurkennir Katrín.
Fannst erfitt að þegja í kennslustundum
Meðan á greiningarferlinu stóð minnti faðir Katrínar hana á hve dugleg hún hefði alltaf verið í gegnum tíðina og það er rétt, en hún var dugleg við ýmislegt fleira en nám og starf. „Ég var til dæmis stöðugt uppi á slysó með gat á hausnum,“ rifjar hún upp kímin. „Ég var líka ekki mikið fyrir að vera fín og pen í kjólum heldur var ég hjólandi um hverfið með lögreglusírenu á stýrinu, hjólandi á ljósastaur.“ Og þótt henni hafi gengið vel í námi var alltaf kvartað á foreldrafundum yfir því hvað hún masaði mikið í tímum og truflaði kennsluna. „Ég var alltaf að reyna að bæta mig en ekkert gekk,“ segir hún.
Með tímanum tókst henni að tileinka sér félagslegt læsi og temja sér hegðun sem var henni ekki eins eiginleg og samferðafólki hennar. „Ég þurfti að reyna að sitja á mér og stundum þegja alveg svo ég væri ekki að grípa fram í fyrir fólki. Maður var oft að minna sig á það og mér leið oft ekki vel ef ég var of hvatvís.“
Sjálfsniðurrif og vanlíðan
Margir vinir hennar litu á hvatvísi hennar sem persónueinkenni og sáu ekkert athugavert við það, en stjórnleysinu hjá henni fylgdi gjarnan bæði sjálfsgagnrýni og óöryggi í nánum samböndum hjá henni sjálfri. „Það sem mér fannst óþægilegt við þetta allt saman og það sem ég er að reyna að losa mig við er að ég setti sjálfri mér svo háan þröskuld gagnvart minni eigin hegðun. Ef ég gat ekki staðist kröfurnar sem ég gerði til sjálfrar mín varð ég fúl út í sjálfa mig,“ segir hún.
Lyfin staðfestu greininguna
Þegar greiningin fékkst loks staðfest var skrifað upp á lyf fyrir hana til að aðstoða hana við að lifa með röskuninni og ráða bót á svefnleysinu. Hún var aðeins tortryggin á lyfin en ákvað að láta reyna á þau og sá alls ekki eftir því. „Ég byrjaði að taka lyfin og fyrsta daginn var barnaafmæli hjá litlu drengjunum mínum,“ segir Katrín, sem komst að því sama dag að áreiti frá 25 barnungum afmælisgestum var allt öðruvísi á lyfjunum en Katrín hafði vanist fram að því. Hún fann sér til kærkominnar undrunar að hún var á staðnum, með athygli og gat meðtekið það sem fram fór í veislunni. „Þetta fannst mér merkilegt. Þremur fjórum vikum fór ég að sofa eins og engill,“ segir hún, ánægð með árangurinn. „Þar með staðfestu lyfin greininguna. Ég get fúnkerað dag frá degi.“
Hlaðvarp ADHD-samtakanna í umsjón Karitasar Hörpu Davíðsdóttur. Góðir gestir miðla reynslu sinni af lífinu með ADHD. Gleði, sorgir, sigrar og óborganlegar lífsreynslusögur í bland við fróðleik um ADHD. Allt sem þú hélst að þú vissir um ADHD, en vissir í raun ekki...