Norðurlandamótinu í skák lauk í gær með sigri íslenskrar sveitar. Aðeins var keppt á netinu og bar sveit Skákfélags Selfoss og nágrennis sigur úr býtum.

Bragi Þorfinnsson, stórmeistari og liðsmaður sveitarinnar, segir það sérstakt að keppa aðeins á netinu en það gefi aukna möguleika. Skáksamband Íslands hélt mótið í samvinnu við hin norrænu skáksamböndin. 67 lið kepptu og urðu íslenskar sveitir í tveimur efstu sætunum. Skákfélag Selfoss og nágrennis fékk tólf og hálfan vinning í fjórtán viðureignum og var einum vinningi á undan A-liði Víkingaklúbbsins.

„Það var bara ótrúlega skemmtilegt og skemmtileg tilbreyting því vanalega er maður með andstæðing á móti sér. Á þessum skrítnu tímum er þetta komið bara á netið, skákin og við verðum eiginlega bara að þakka fyrir það, þetta var bara frábær hugmynd hjá þeim, Skáksambandinu og þeim sem stóðu að þessu móti að fá þessa skemmtilegu hugmynd,“ segir Bragi. 

Bragi segir það sérstaka tilfinningu að keppa á móti á netinu. Hann sakni nándarinnar. „Stór partur af skákinni er að hafa andstæðinginn fyrir framan sig og það er sálfræðin og allt þetta inni í þessu, að fylgjast með andstæðingnum. En þarna er þetta öðruvísi, maður sér bara borðið og verður bara að ímynda sér hvernig andstæðingurinn er, hvort hann sé allur á iði eða spakur bara. Þetta er allt öðruvísi,“ segir hann.

Skák er mikið stunduð á netinu og geta allir fundið sé keppni við hæfi. Ástandið nú hafi því að vissu leyti opnað nýja möguleika í keppni til framtíðar. „Ég vona nú að þegar þetta er allt afstaðið að þessi hefðbundnu mót komi aftur en það verður tvímælalaust hægt að nota þessa netskák með. Maður sér það bara strax vera að gerast í þessari viku, það eru 4-5 mót og menn eru bara að henda upp mótum á netinu dag eftir dag. Það er ótrúlega mikil gróska og skákin að blómsta mikið með netinu þannig við erum bara ánægðir með það, við skákmenn,“ segir Bragi.

„Þetta er bara mjög góð viðbót, menn halda sér í þjálfun og þetta er bara skemmtilegur félagsskapur eins og núna um helgina. Menn koma bara saman á netinu, við vorum bara með Facebook-grúbbu þar sem við töluðum saman liðið. Svo fóru bara allir á Chess.com og tefldum eins og herforingjar,“ segir Bragi léttur í bragði.