„Þetta er það allra versta sem ég hef nokkurn tíma lent í á allri minni ævi,“ segir Sigríður H. Kristjánsdóttir sem var sárlasin af COVID-19 í rúmar fimm vikur. Eiginmaður hennar óttaðist að hún væri hætt að anda ef hann heyrði hana ekki hósta.

Sigríður Kristjánsdóttir fór ásamt eiginmanni sínum í skíðaferð til Ítalíu tuttugasta og annan febrúar. Þá voru enn fá tilfelli staðfest á Ítalíu. „Og komum heim hérna 29. febrúar. Þannig að ég hef smitast væntanlega, miðað við meðgöngutíma þessarar veiru, þá hef ég smitast annaðhvort í lokin á ferðinni eða á flugvellinum.“

Ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma

Rúmri viku eftir heimkomu var hún orðin veik af COVID-19. „Þá var ég búin að vera, ég varð ansi slöpp, fékk hita og varð svona slöpp og hélt að ég yrði svo sem ekkert verri en það. En það varð nú ekki raunin. Ég er bara algjörlega slegin niður svona tveimur dögum seinna og lá nokkurn vegin meðvitundar, eða já svona rænulaus í móki í tólf, þrettán daga,“ segir Sigríður. 

Þú ert ekki í neinum áhættuhópi og frekar hraust fyrir? „Já, ég er allavega ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma. Ég er 48 ára þannig að ég er ekki í þessum áhættualdurshópi,“ svara Sigríður. Hún segist ekki áður hafa upplifað nokkuð í líkingu við síðustu vikur.

Borðaði ekki í nærri hálfan mánuð

„Þetta er það allra versta sem ég hef nokkurn tíma lent í á allri minni ævi. Ég fæ háan hita, ég fæ óstjórnlegan hósta - meira og minna allan sólarhringinn - ég svaf ekki á nóttunni en var samt einhvern veginn ekki með rænu. Ég stóð ekki í fæturna, ég missti bragðskyn, lyktarskyn, fékk ógleði,  var algjörlega lystarlaus. Ég borðaði ekki í einhverja 10, 12 daga,“ segir Sigríður. 

Sigríður man ekki allt sem gerðist síðustu vikur. Sigurður Júlíus Leifsson, eiginmaður hennar, sá að lang mestu leyti um að hjúkra henni og reyna að passa upp á að hún fengi nægan vökva. „Í rauninni komu þær stundir að maður hafði kannski ekki heyrt mikinn hósta í henni. Af því að við vorum náttúrulega í sitthvoru herberginu til þess að byrja með, á meðan ég var í sóttkví frá henni áður en ég veikist. Þá hafði maður ekki heyrt hana hósta eitthvað lengi og þá fór maður bara að tékka hvort hún bara örugglega ekki hreinlega að anda,“ segir Sigurður. 

Sigurður smitaðist líka en hann fann aðeins fyrir vægum flensueinkennum í nokkra daga. Sigríður var veik í rúmar fimm vikur en var útskrifuð í gær, þá hafði hún verið heima í alls 44 daga. „Að öllum ólöstuðum þá kannski sakna ég þess mest að hitta ekki barnabörnin. Þannig að mér fannst það mjög erfitt og finnst mjög erfitt af því að ég ætla ekkert að hitta þau næstu daga, ég ætla bara svona aðeins að gefa þessu svolítinn tíma.“

Ítarlegra viðtal við Sigríði og Sigurð má sjá í spilaranum hér að ofan.