Bókarýnir Víðsjár rýnir í Áferð tímans, draumadagbók sem rússneski stílsnillingurinn Vladimir Nabokov hélt um þriggja mánaða skeið um miðjan sjöunda áratuginn.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Rússnesk-bandaríski rithöfundurinn Vladimir Nabokov var að nálgast sextugt þegar hann loks átti bókmenntalegri velgengni að fagna, en þá reyndar var um umtalsverða velgengni að ræða, heimsfrægð raunar. Ástæðan var skáldsagan sem hafnað hafði verið af öllum málsmetandi bókaforlögum í Bandaríkjunum; bók sem var að lokum gefin út af lágsigldum klámútgefanda í París, hér er auðvitað vísað til Lólítu. Þegar skáldsagan loks barst yfir Atlantshafið varð uppi fótur og fit, stundum er sagt að þarna hafi „fellibylurinn Lólíta“ skollið á grunlausri þjóðmenningunni Vestanhafs. Í víðlesnu tímariti þar í landi fékk Lólíta til að mynda þá umsögn að til væru í heiminum þrjú verulega hættuleg bókmenntaverk, Das Kapital eftir Karl Marx, Mein Kampf eftir Adolf Hitler, og Lólíta eftir Nabokov.
Hneykslunarhellan kom þannig að lokum út í Bandaríkjunum árið 1958, þremur árum eftir Paraísarútgáfuna, og höfðu þá 32 ár liðið frá því að Nabokov sendi frá sér sína fyrsta skáldsögu, en hún og næstu átta voru ritaðar á rússnesku, að vísu meðan Nabokov var búsettur í Þýskalandi. Hafði hann ásamt fjölskyldu sinni verið nauðbeygður til að flýja Bolsévikabyltinguna, fjölskylda hans var vellauðug og ættartréð skartaði jafnvel fáeinum sýnidæmum um rússneska aðalinn. Úr alsnægtum var fallið í sára fátækt, en væri ekki fyrir hina heimssögulegustu alræðisstjórn tuttugustu aldarinnar verður að teljast ólíklegt að nokkuð hefði frá Nabokov komið á ensku.Það var á flóttanum undan Hitler og í von um nýtt líf vestanhafs sem hvítliðinn rússneski tók að vinna að sinni fyrstu skáldsögu á ensku, en alls urðu þær átta.
Það er þó Lólíta sem stendur eins og fjallstindur í höfundarverkinu, um hana leikur frægðarljómi og – í hugum sumra í ljósi viðfangsefnisins – svartagallsfýla. „Og nú nálgumst við þann illa hnött sem er kjarni þessa sólkerfis“, eins og það er orðað á einum stað, og hættulegt „ferðalag [hefst] inn í svarthol hins kynbrenglaða karlmanns“. Í ljósi þess að titill skáldsögunnar hefur fyrir löngu tekið sér stöðu sem lýsingarorð og hálfgert flokkunarheiti vita vafalaust sumir að sagan hverfist um vonir og væntingar, stolt og stærilæti barnanauðgarans og pedófílsins Humberts Humberts, sem jafnframt er sögumaður verksins.
Flókin, eldfim, truflandi, hún er allt þetta, og að auki trúlega best skrifaða skáldverk sem ég hef verið svo gæfusamur að kynnast. Í þessu samhengi voru það auðvitað stórtíðindi þegar Lólíta kom út árið 2014 í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Því fylgdi svo aukinheldur mikil ánægja að sjá hvernig Árni réðst til atlögu og hafði betur í glímunni við það sem skýrlega er næstum óþýðanlegt verk. Það var líka einhvern veginn svo vel búið um hnútana í útgáfunni allri – að kápumyndarhönnun reyndar undanskilinni, og undanskilinni með eins afgerandi hætti og ég kemst upp með viðra í útvarpi allra landsmanna – en eftirmáli Nabokovs sjálfs var þýddur líka, auðvitað myndi kannski einhver segja, en væri maður illa fyrirkallaður og ekki búinn að fá fyrsta kaffibollann gæti maður vel trúað því upp á íslenska bókaútgáfu að sleppa honum.
Þá tók Árni saman ljómandi skýringar fyrir fáeina hluti sem í skáldverkinu eru og sem slíks þarfnast. En allra vænst þykir mér samt um kaflann sem rekur lestina, eftirmála Hallgríms Helgasonar. Samkeppnin er kannski ekki hörð en þetta er það besta sem hefur verið skrifað um Nabokov á íslensku. Það er til dæmis ekki hlaupið að því að fanga tilfinninguna sem skapast við að lesa þennan höfund, lesandi stígur inn í einhverskonar dulspekilega töfraveröld tungumálsins þar sem allt virðist vera hægt, en gangvirkið að baki undraveröldinni er alltaf utan seilingar. Hallgrímur hvikar hins vegar hvergi og eftirmálinn snýst að stórum hluta um að ná tangarhaldi á þessari viðtökufræðilegu ráðgátu. Og tilvitnunin sem ég notaðist við hérna fyrir skemmstu, þessi um illa hnöttinn og kynbrenglaða karlmanninn, hún er frá honum komin.
Eins og gjarnan er með stórar kanónur í bókmenntaheiminum, þá er heilmikið líf og fjör í kringum Nabokov á nýju árþúsundi, eða höfundarnafnið öllu heldur, sjálfur féll hann frá árið 1977. Skáldverkin eru öll í virkri útgáfu, og svo hafa menningaratvinnumennirnir alltaf verið hrifnir af Nabokov, bókmenntafræðingar, kvikmyndafræðingar, listfræðingar, rússnesku- og sovétfræðingar, menningarfræðingar, sálfræðingar og fiðrildafræðingar skrifa nóg til að straumurinn sé stöðugur, bækur á hverju ári, óteljandi greinar.
En það er líka eins og áherslan hafi aukist á útgáfu á efni sem tengist Nabokov-nafninu með beinum hætti. Við okkur blasir að vísu ekki jafn afkastamikið grafhvelfingarútgáfuferlíki og Hemingway, sem eftir andlátið hefur sent frá sér tíu ritverk, þar á meðal þrjár skáldsögur. En samt, það er eins og eftir hina afskaplega umdeildu ákvörðun Dmitri, einkasonarins, að gefa út síðustu, mjög svo ókláruðu skáldsögu Nabokovs, The Original of Laura, eða Frummynd Láru, árið 2013, hafi nýtt viðskiptamódel verið tekið í notkun af dánarbúinu og hver útgáfan rekur aðra.
Sumar koma reyndar ekki á óvart, ljóðaúrvalið til dæmis, útgáfa á leikritum sem Nabokov ritaði snemma á ferlinum, og þverhandarþykk bréfasöfn. Fleira mætti tína til, en fyrir mína parta er það Insomniac Dreams, eða Draumar svefnleysingjans, sem út kom fyrir tveimur árum, sem forvitnilegust er í þessum bókaflokki.
Um er að ræða draumadagbók sem Nabokov hélt um þriggja mánaða skeið um miðjan sjöunda áratuginn. Þegar hingað er komið sögu eru þau hjón flutt frá Bandaríkjunum, og sest að í Montreux Palace Hotel við Genfarvatn. Nabokov er 65 ára þegar handa er hafist við draumabókhaldið, og titill bókaútgáfunnar, Draumar svefnleysingjans, er lýsandi fyrir kvalræðistímana í lífi Nabokovs, sem varla hafði komið dúr á auga um árabil, epískar andvökur og matraðarkennt svefnleysi settu mark sitt á síðustu ár skáldsins, og draumadagbækurnar eru öðrum þræði vitnisburður um náttböl þetta.
Í draumadagbókina var þó ekki ráðist af tilviljun, hvað þá af einhverri svefnleysisörvæntingu, og tilgangur hennar er forvitnilegur. Með draumaskrásetninguna sem verkfæri og vopn ætlar Nabokov að gera röklega og skipulega atlögu að djúpstæðustu ráðgátu vísindalegrar þekkingar, eðli sjálfs tímans. Það er heldur ekki bara svefnsoltinn rússneskur næturgöltur sem tekur þessa ákvörðun af handahófi. Höfundarverk Nabokovs hverfist um tíma og viðbótarfarangurinn allan sem hugtakinu fylgir. Mætti hér nefna eitt af hans þekktari ritum, sjálfsævisöguna Speak, Memory, en eins og hún er prýðisdæmi um þá liggur áskorun hugrænnar úrvinnslu á týndum tíma, minnið og fortíðin með öðrum orðum og sambandið þar á milli, eins og rauður þráður í gegnum æviverkið. Og tekur eiginlega yfir í síðverkunum. Mikilvægasti bókarhlutinn í Ödu, stórvirkinu sem Nabokov sendi frá sér á eftir Lólítu, ber t.d. yfirskriftina „The Texture of Time“, eða „Áferð tímans“. Og söguvitundin í skáldsögunni sem kom þar næst, þeirri næst síðustu eftir Nabokov, Transparent Things, er vofa, hvurst tilvist liggur handan tímans í eilífiðinni.
Spyrja má hvernig þetta tengist draumum; blóðhefndarinnblásið ævilangt skæruliðastríð Nabokovs gegn Freud var t.d. afskaplega vel þekkt, svo líkur hníga að því að svarið sé ekki að finna í fræðum „nornalæknisins frá Vín“. Það stendur líka heima. Hugmyndina um draumadagbók og markmiðin með innleiðslu hennar sótti Nabokov til afar skringilegrar uppsprettu, sem hér væri þá enski loftsiglingafræðingurinn og sérvitringurinn John Dunne. Í heimsstyrjöldinni fyrri var hann uppfinningamaður hinnar stéllausu njósnaflugvélar, á millistríðsárunum gerðist hann eins konar Galíleó stangveiðiíþróttarinnar með því að finna upp hina gagnsæu beitu, heimsmynd veiðimannsins varð aldrei söm, en þá kemur að því að honum hafði lengi verið uppsigað við tímaskilning samferðamanna sinna og sinnar menningar, taldi hann alrangan, og næsta atlagan var því að sjálfum veruleikaskilningi heimsins.
Þótt Dunne sé gleymdur í dag er gott að hafa í huga málin horfðu öðruvísi við á sokkbandsárum 20. aldarinnar, til aðdáenda sinna taldi hann til dæmis ekki minni módernista en James Joyce, og Aldous Huxley var upptekinn af honum alla ævi.
Það var svo í heimspeki og raunvísindaritinu An Experiment with Time, eða Tilraun um tíma, sem Dunne kvaddi skoðunum sínum hljóðs árið 1927. Rök eru þar færð fyrir því að sú hugmynd að tíminn líði aðeins í eina átt, áfram, og afleiðing fylgi ávallt orsök, það sé aðeins okkar hefta skynjun sem framkallar þennan skilning, eða misskilning. Framtíðin, fortíðin, nútíðin, þetta er ekki lína eða fljót, segir Dunne í bókinni, þetta er rými, og það er í draumum sem við föngum einu ummerkin um þessa staðreynd sem okkar vitundarlíf er fært um að höndla.
Almenn staða þekkingarinnar er hins vegar sú og hefur verið um langt skeið að draumar séu úrvinnsla á fortíðinni, því sem við höfum upplifað. En Dunne var sannfærður um að draumar væru opnir í báða enda og samanstæðu í raun nokkurn veginn til helminga af liðinni reynslu og óorðinni reynslu. Þetta hefði hann sjálfur fundið á eigin skinni og margsannað í eigin hversdagslega lífi. Í því samhengi leggur hann til við lesendur að þeir haldi draumadagbók og framkvæmi tilraunir á sjálfum sér, það leiði sannleikann í ljós, en gát verði að viðhafa, fylgja verður ströngustu reglum, og þær eru útlistaðar í bók Dunne. Mestu máli skipti þó að tímavíddarkönnuðurinn sé í kjölfarið með öll skilningarvitin á útopnu til að taka eftir því þegar reynslan sem draumur fortíðar var að vinna úr birtist svo loksins, eins og óð fluga úr framtíðinni og tjaldar öllu sínu.
Þetta eru fótsporin sem Nabokov eltir, og leiðbeiningunum í bók Dunne fylgir hann í hvívetna, einkum fyrstu vikurnar. Hugsanlega mætti nefna deja vu hugtakið sem ákveðna hliðstæðu, nema hér myndi tilfinningin gera vart við sig vegna þess að eitthvað sem okkur dreymdi í gær, eða í síðustu viku, eða í fyrra, er að endurtaka sig í núinu. Í skáldverkum Nabokovs virkar tíminn auðvitað með allt öðrum hætti en í raunheimum, og það er forvitnilegt að fylgjast með því í gegnum dagbókina hvernig Nabokov smám saman verður áhugaminni um framtíðarorkulínurnar, og fer í staðinn að velta hlutunum fyrir sér á máta sem lesendur hans kannast við, tengingar koma í ljós og samtengingin sjálf tekur á sig liti og fegurð því það úr samtengingunum sem merkingarmynstur fæðast, merkingarmynstur sem svo blandast vitsmunalegum ferlum og móta þannig skynjun sem umbreytir efnishroðanum andspænis okkur í veröld sem býr yfir fegurð og merkingu. Draumarnir eru hluti af þessu mynstri og raunar er ekki hægt að kjarna þetta allt saman betur en Nabokov gerir sjálfur, og gefum við honum því orðið:
„Ég viðurkenni að ég trúi ekki á tímann. Það sem ég kýs að gera er að brjóta töfrateppið mitt saman eftir notkun þannig að tiltekinn hluti af mynstrinu leggist yfir annan hluta þess. Gestir geta bara hrasað. Og nautnin í tímaleysinu er þegar ég stend – í umhverfi sem valið er af handaófi – innanum fágæt fiðrildi og fæðujurtir þeirra. Þetta er alsæla, og að baki sælunnar er eitthvað til viðbótar sem erfitt er að skýra. Það er eins og augnablikstómarúm skapist og í það streymi allt sem ég elska. Samkennd með sól og steini, og glaðhlakkalegt þakklæti til þess sem málið varðar – til fjölraddasnilligáfu örlagadísanna eða góðlátlegrar undanlátssemi hinna blíðu drauga sem upp á okkur passa.“