Eftir að hafa neyðst til að leggja handboltaskóna á hilluna fann Ágústa Edda Björnsdóttir sér nýja íþróttagrein með stæl. Hún lék um árabil með íslenska landsliðinu í handbolta en er nú í landsliðinu í hjólreiðum og varð í fyrra fyrst íslenskra kvenna til að keppa á HM í götuhjólreiðum.
Ágústa Edda Björnsdóttir átti farsælan handboltaferil fyrst með Gróttu/KR og svo með Val þar sem hún lék lengi og með góðum árangri. Þá lék hún 62 landsleiki fyrir Ísland. Hún meiddist hins vegar árið 2012 og eftir tilraun til endurkomu í bikarnum 2015 fóru handboltakórnir endanlega upp í hillu.
Ofur keppnis hjólakona á stuttum tíma
„Ég meiddist þarna í handboltanum og hnéð fór bara alveg. Þannig ég hugsaði bara að ég væri nú búin að eiga fínasta feril og nú væri bara kominn tími til að leika sér í einhverri líkamsrækt og hefði meiri tíma fyrir lífið almennt. Svo dett ég bara einhvern veginn inn í hjólreiðarnar svona 1-2 árum eftir að ég slasaðist í handboltanum. Mjög fljótlega datt ég svo bara á bólakaf inn í þennan hjólaheim. Á stuttum tíma fer ég bara í það að verða einhver ofur keppnis hjólakona hérna á Íslandi. Ég hef aldrei æft meira á ævinni og hef aldrei pælt jafn mikið nokkru sem tengist mínu sporti og nú,“ sagði Ágústa Edda þegar RÚV hitti hana.
Hjólreiðar er nokkuð víðtækt heiti þegar kemur að keppni og því þarf að velja sér keppnisgrein innan hjólreiðanna.
„Akkúrat. Þetta eru nokkrar greinar. Ég einblíni á götuhjólreiðar. Flestir þekkja það sem racer, hjól með hrútastýri þar sem maður hjólar í hóp. Það er heilmikil kænska á bakvið það. Það er ekki bara nóg að hjóla hratt. Það er mjög mikil leikjafræði í þessu. Svo keppi ég líka í tímatöku. Þá er maður bara einn með hjólinu. Það er sérstakt hjól sem þú ert á og svo er bara tekinn tími og þá skiptir öllu máli þín geta, þinn hraði og þinn kraftur á hjólinu. En svo hef ég leikið mér eitthvað fjallahjólreiðum og þætti gaman að hafa meiri tíma fyrir það kannski síðar,“ sagði Ágústa Edda.
Fyrst íslenskra kvenna til að keppa á HM
Ágústa hefur síðustu þrjú ár verið valin hjólreiðakona ársins, er hluti af landsliði Íslands í hjólreiðum og keppti í fyrra á sínu fyrsta stórmóti.
„Já, ég fór á heimsmeistaramótið og varð þá fyrsta íslenska konan til að keppa á HM. Það var auðvitað geðveik reynsla. Ég vissi að ég væri ekki að fara að keppa um nein verðlaunasæti, þannig ég leit á þetta þannig að ég væri að ná mér í góða reynslu fyrir það sem koma skal. Bæði hjá mér, en líka hjá öðrum keppendum frá Íslandi. Að vita hvað maður er að fara út í og hvað þarf til, hvernig maður á að mæta til leiks og hvernig maður á að undirbúa sig og annað slíkt. Það sem vantar nefnilega kannski svolítið hjá besta hjólreiðafólki Íslands er keppnisreynsla í mótum eins og þau eru erlendis.“
„Maður er að pína sig mörgum sinnum í viku“
En hversu langt stefnir Ágústa Edda í hjólreiðunum? „Ég tek eiginlega bara eitt ár í einu núna. Það er náttúrulega ótrúlega mikill tími sem fer í þetta og þetta er bara ógeðslega erfitt sport svo ég segi það hreint út. Maður þarf að vera í hæsta stigi hérna ef maður ætlar að stefna eitthvað hærra úti. Það er bara ógeðslega erfitt að æfa hjólreiðar. Maður er að pína sig mörgum sinnum í viku. Þannig ég tek bara núna eitt ár í einu meðan ég hef gaman að þessu og tíma í þetta. En mig langar að komast aftur á stórmót, á EM eða HM. Nú er ég reynslunni ríkari, þannig að mig langar til að keppa aftur, vitandi betur hvað ég er að fara út í,“ sagði hjólreiðakonan Ágústa Edda Björnsdóttir.