Margir sakna þess eflaust í yfirstandandi samkomubanni að auðga andann á listasöfnum landsins. En þrátt fyrir takmarkanir er útivera enn leyfileg, svo fremi sem tveggja metra reglan er virt, og hafa Kjarvalsstaðir brugðið á það ráð að bjóða upp á sýningu sem hægt er að njóta fyrir utan safnið.
„Einn snillingurinn sem vinnur með mér fékk þessa hugmynd og sýningin var tilbúin tveimur dögum síðar,“ segir Áslaug Guðrúnardóttir kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur ánægð í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1. Sýningin nefnist Liðsmenn og samanstendur af handvöldum skúlptúrum sem stillt hefur verið upp í gluggum safnsins. „Þeir sem eiga leið um Klambratún geta virt fyrir sér verkin. Það er búið að setja merkingar í rúðuna svo þetta er eins og hefðbundin sýning.“
Sýningin dregur nafn sitt af verki Hörpu Björnsdóttur frá 1999. Það er eitt verka þeirra sex listamanna sem eiga verk á sýningunni, sem valin voru úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Hinir fimm listamennirnir eru þau Brynhildur Þorgeirsdóttir, Haraldur Jónsson, Hreinn Friðfinnsson, Ólöf Nordal og Sigurður Guðmundsson.
Fyrir þá sem vilja svo færa leiðangurinn víðar um borgina er hægt að hlaða niður smáforriti sem nefnist Útilistaverk í Reykjavík. Þar má einnig finna upplýsingar um ýmis útilistaverk og fara í leiki með fjölskyldunni sem tengjast verkunum.
Rætt var við Áslaugu Guðrúnardóttur í Mannlega þættinum.