Mikil ásókn hefur verið í sýnatökur Íslenskrar erfðagreiningur utan höfuðborgarsvæðisins. Bókunarkerfið á Akureyri hrundi eftir að skimunin var auglýst, en um 2500 manns hafa nú þegar bókað tíma.

„Það eru gríðarlegar viðtökur“

Skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 hófst á Akureyri í morgun. Ingibjörg Isaksen, framkvæmdarstjóri Læknastofa Akureyrar segir verkefnið fara vel af stað. 

„Það eru gríðarlegar viðtökur, á föstudaginn síðasta, þegar þetta komst í fréttir að þá gaf allt sig. Tölvukerfið gaf sig, símkerfið gaf sig og síminn bara stoppar ekki í dag. Við ætluðum að byrja með þessa viku núna, þrjá daga en bættum strax við fjórum dögum í næstu viku og það eru 2.500 manns. Reiknið þið með að geta tekið við fleirum? Vonandi, við verðum að sjá til,“ segir Ingibjörg.

Nauðsynlegt að eiga bókaða tíma

Upphaflega stóð til að hafa sýnatökuna á bílaplani Glerártorgs, en hún var færð inn vegna veðurs. Þá hefur borið á því að fólk sem ekki á bókaðan tíma mæti og freisti þess að komast í sýnatöku. Það er ekki í boði og hvetur Ingibjörg fólk til að fylgjast með á síðunni bokun.rannsokn.is.

Vestfirðir næstir í röðinni

Viðlíka áhugi hefur verið í Vestmannaeyjum og á Austurlandi þar sem skimun hófst fyrir helgi. Eitt þúsund og fimm hundruð sýni verða tekin á Egilsstöðum og á Reyðarfirði. 

Í Vestmannaeyjum er skimun lokið en þar voru sömuleiðis tekin fimmtán hundruð sýni á aðeins tveimur dögum. Samkvæmt upplýsingum frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hefur skimunin gengið vel. Hann segir að stefnt sé að því að ljúka verkefninu  á Vestfjörðum á allra næstu dögum.