Ragnar Axelsson, einn fremsti ljósmyndari þjóðarinnar, hefur oft komist í hann krappan. Hann hefur verið einna fyrstur á vettvang mannskæðra slysa og til að ná sem bestum myndum hefur hann oft komið sér í hættulegar aðstæður. „Ég hef alltaf litið svo á að við Keith Richards séum ódauðlegir.“

Ragnar Axelsson ljósmyndari lýsir sjálfum sér sem lífsglöðum og kátum en hann viðurkennir að stundum sé fullstutt í stríðnina. „Það háir mér samt mjög hvað ég er hrekkjóttur,“ segir hann og hlær. „En þetta er allt jákvætt meira og minna. Lífið á að vera skemmtilegt,“ segir Ragnar. Hann var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu Mér á Rás 1.

Ragnar hætti nýverið hjá Morgunblaðinu eftir 44 ára starf sem fréttaljósmyndari og segist sakna þess að sprella með vinnufélögunum. Hann byrjaði þar í sumarafleysingum kornungur að aldri en fljótt komust bæði hann og vinnuveitandinn að því að hann væri hárréttur maður á réttum stað. Starfaði hann þar sleitulaust næstu áratugi. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hann fann nýverið að leiðir þurftu að skilja. Fjölmiðar eru í krísu samkvæmt Ragnari, margt hefur breyst í gegnum árin og ljósmyndin á undir högg að sækja. Hann er þó hvergi nærri hættur að taka myndir, það getur hann ekki hugsað sér, og síðar á þessu ári er von á nýrri bók frá honum með myndum sem teknar eru á Grænlandi. Þangað hefur hann oft farið og myndað, dolfallinn yfir landi og þjóð.

Í sínu umhverfi eru veiðimennirnir töffarar

Ragnar heillaðist fyrst af norðurslóðum þegar hann las um gömlu heimskautafarana á unglingsaldri. Hann stofnaði síðar forlagið Querndu með félögum sínum Einari Geir Ingvarssyni og Heiðari Guðjónssyni. Þeir gáfu út bókina Jökull árið 2018 og nú eru þeir að leggja lokahönd á nýjustu bókina í bókaröð þar sem sjónum er beint að norðurslóðum, hetjum þeirra og grænlenska hundinum, sem er í útrýmingarhættu. Ást Ragnars á Grænlandi kviknaði þó ekki við fyrstu sýn. „Ég fór þangað þegar ég var að læra að fljúga. Þá hringdu vinir mínir oft í mig til að hafa einhvern með sér, ég safnaði tímum og fékk reynslu,“ segir hann en flugmannsréttindin hafa nýst honum afar vel í ljósmyndun á vettvangi náttúruhamfara. „Ég flaug í fjögur, fimm skipti til Grænlands og fannst skelfilegt að sjá fylliríið. Hetjurnar mínar voru ekkert miklar hetjur í mínum huga.“

Eftir að hafa dvalist meira á Grænlandi skipti hann þó alfarið um skoðun. „Ég áttaði mig á því hvað þetta væri flott fólk, veiðimenn og töffarar. Þeir eru litlir þegar þeir koma hingað og eru innan um fólk í borgum og bæjum en þegar þeir eru í sínu umhverfi, þá eru þeir stórir sko,“ segir Ragnar. Stórkostlegast segir hann að sé að fara út á ísinn. Það er þó alls ekki hættulaust í dag eins og fyrst þegar hann fótaði sig á ísnum. „Það er eitthvað þarna sem maður getur ekki útskýrt. Í þessari auðn,“ segir hann. Nú er hins vegar ísinn að rýrna og skreppa saman, hratt og á stuttum tíma og það finnst honum óhugnanleg þróun. „Fyrst þegar ég var að fara út á hafísinn var hann traustur og öruggur. Núna er hann hins vegar þunnur og sprunginn og stundum hættulegur,“ segir hann hryggur. Hann segir að margir sakni gamla Grænlands fyrir áhrif hamfarahlýnunar sem eru sérstaklega augljós þar um slóðir.

Ómar Ragnarsson stórkostlegur ferðafélagi 

Ragnar hefur oft á ferlinum komið sér í hættulegar aðstæður, allt til þess að ná sem bestum myndum enda er hann margverðlaunaður fréttaljósmyndari. Það hefur ekki stoppað hann að komast í hann krappan „Ég hef verið við erfiðar aðstæður en lífið var fyrir mér endalaust. Auðvitað var maður skelkaður stundum en það var aðallega gaman að lifa það af,“ segir hann sposkur. Þegar eldgos urðu þá flaug hann yfir sjálfu gosinu til að taka myndir af þeim og þó hann hafi áttað sig á að aðstæðurnar væru alls ekki fullkomlega öruggar þá sneri hann ekki við nema tvisvar. „Einu sinni með dóttur Styrmis ritstjóra [Morgunblaðsins] fyrir aftan mig. Ég get tekið sénsinn með sjálfan mig en ekki aðra. En ég sneri bara við tvisvar, ég klikkaði eiginlega aldrei á að fara.“

Enda er hann drifinn áfram af keppnisskapi. „Í flugi passa ég mig en ég hef farið í brjáluðum veðrum þar sem hefur verið nánast 50/50 að komast til baka. Þetta er bara svo mikið keppnisskap, að skora sláin inn og skoða Moggann daginn eftir. Það var drævið manns áfram."

Og Ragnar og Ómar Ragnarsson gátu sýnt hvor öðrum stuðning þar sem þeir flugu báðir á vettvang hvor á sinni flugvélinni þegar náttúruöflin minntu á sig. „Við töluðum við hvor við annan á milli véla, notuðum hvorn annan sem viðmið svo þú sæir hvað eldgosið væri stórt miðað við flugvélina sem var eins og lítil fluga. Það var mjög skemmtilegt og Ómar stórkostlegur,“ rifjar hann upp og hlær. 

„Þarna var skólabróðir minn og annar vinur í vélinni“

Ragnar hefur oft verið einna fyrstur á vettvang við erfiðar aðstæður þegar mannskæð slys hafa orðið. „Það erfiðasta sem maður fer í eru harmleikir eða slys, eins og flugslys. Ég er voðalega lítið fyrir það,“ segir hann. Þegar eitt sinn bárust fregnir af því að flugvél hefði fundist sem fórst tveimur mánuðum fyrr flaug Ragnar yfir brakið og myndaði. Þegar hann sá myndirnar var honum illa brugðið. „Þarna var skólabróðir minn og annar vinur í vélinni. Ég sé það á myndunum sem ég tók. Þetta eru myndir sem ég sýni engum, mér finnst það ekki rétt.“

Þyrlan gat sprungið á hverri stundu

Í erfiðum aðstæðum hefur Ragnar líka lent í að þurfa að leggja frá sér myndavélina til að veita aðstoð á vettvangi. „Það gerði ég þegar þyrlan fórst á Mosfellsheiðinni.“ Þar hrapaði lítil flugvél og þyrla var send á vettvang til að aðstoða þá sem slasast höfðu. Þegar þyrlan hrapaði líka var ekkert í stöðunni fyrir ljósmyndarann annað en að rjúka til og aðstoða. „Þá var annað hvort að vera aumingi og fela sig eða hjálpa fólki sem var fast inni í þyrlunni. Hún gat sprungið hvenær sem var,“ segir Ragnar. Hann beið því með að taka myndir um stund og aðstoðaði hópinn að komast út. „Ég var hjá Magnúsi lækni sem slasaðist illa í baki. Ég nuddaði á honum tærnar til að athuga hvort hann væri með tilfinningu í þeim og við töluðum saman.“

Fréttin sem birtist í Morgunblaðinu um slysið var að mestu leyti skrifuð upp úr samtali þeirra tveggja. Þeir hittust síðar í útgáfuboði hjá sameiginlegum kunningja og Ragnar segir að sér hafi þótt afar vænt um endurfundina. 

Þessar myndir þurfa að vera til

En hann ítrekar mikilvægi þess að smella myndum og eiga myndir, jafnvel þó aðstæðurnar séu hræðilegar. „Við þurfum að dókúmentera og átta okkur á að við erfiðar aðstæður eins og þessar, sama hverjar þær eru, þá á að taka myndir,“ segir hann. „Þegar þú kemur í svona aðstæður vill enginn að þú gerir það og þú þarft ekki að flagga þeim út um allt. En seinna þegar tíminn líður þá verða þær að vera til.“

Ekki auðvelt að mynda grátandi fólk

Eftir að snjófljóðin féllu á Súðavík og Flateyri var erfitt að taka myndir. Eftirminnileg er ein slík sem Ragnar tók í kirkjunni á Flateyri þar sem ástvinir barns sem týnst hafði í flóðinu komu saman. Það voru aðstæður sem honum fannst erfitt að mynda. „Það er eitt af þessum augnablikum sem eru erfið. Þarna var guðsþjónusta og það var verið að leita að litlu barni sem var ennþá týnt,“ rifjar hann upp. „Ég fer og ætla að mynda þessa guðsþjónustu og það er ekki auðvelt að fara að mynda grátandi fólk.“

Honum leist ekki á blikuna og ætlaði að snúa burt þegar lítið barn byrjar að gráta svo móðir þess ákveður að fara með það aftast í kirkjuna þar sem Ragnar stóð. Þá var myndefnið fundið. „Þarna var líka björgunarsveitamaður sem hélt um ennið, svo sorgmæddur. Barnið hættir að gráta og lítur allt í einu á mig og þetta augnablik var bara mómentið sem sagði svo margt.“ Barnið sem leitað var að lést í snjóflóðinu.

Meiri séns að vinna í lottóinu en að lifa af

Ragnar var líka hætt kominn þegar hann fékk heilablæðingu, svo mikla að það er kraftaverk að hann lifði af. „Garðar Guðmundsson sagði að þetta væri ótrúlegt. Það var einn á móti milljón að lifa þetta af og skaðast ekkert,“ segir Ragnar. „Það var meiri séns að vinna í lottóinu en að lifa það af og það kom manni niður á jörðina,“ segir hann. Og á eftir á leið honum um tíma eins og geimveru að eigin sögn. Það tók hann ár að ná sér fyllilega. „Þetta var mikil blæðing sko. Menn geta lamast og misst röddina en ég slapp algjörlega, sem er mikil heppni,“ segir hann. „Ég hef alltaf litið svo á að við Keith Richards séum ódauðlegir,“ segir hann og glottir við tönn.

Hann segist hafa byrjað að hugsa hlutina upp á nýtt og endurmeta líf sitt að einhverju leyti eftir veikindin, fór varlegar en áður „en svo var ég fljótur að fara í sama farið,“ viðurkennir hann. „Ég hugsaði bara, ég nenni ekki þessum aumingjagangi, ég fer bara og geri það sem mig langar að gera."

Sagði aldrei nei þegar hringt var í hann

Og það er sama hvenær það var hringt í Ragnar, alltaf var hann mættur á staðinn skömmu síðar með myndavélina. Hann veltir því jafnvel stundum fyrir sér þegar hann horfir til baka hvort hann hafi rokið til of oft. „Þegar maður hugsar til baka hefði maður viljað stundum vera heima. Maður hugsar að maður hefði átt að gefa krökkunum kertavax því þegar ég kom heim voru þau alltaf búin að breytast,“ segir hann og hlær. „En svona er þetta. Það eru margir sem hafa lifað svona og oft var það erfitt eins og á jólunum. Ég sagði aldrei nei og fór allt." 

Ekki hægt að hætta að vera fréttaljósmyndari

En hefur hann grátið þegar hann er að mynda?

„Já, eins og í snjóflóðunum. Og þegar ég var að fá hundasögurnar, einn veiðimaðurinn sagði mér sögu og fór að hágráta honum þótti svo vænt um hundinn sinn.“

Að lokum staðhæfir hann að hann sé ekki hættur að taka myndir. „Ég er ekki að gefast upp, ég ætla að halda áfram,“ segir hann. „Ég held það sé ekki hægt að hætta að vera fréttaljósmyndari en þessi fréttaljósmyndun hefur breyst mikið. Þau blöð sem héldu úti standard eru á allt öðru róli.“

Rætt var við Ragnar Axelsson í Segðu Mér á Rás 1.