Álverið í Straumsvík er nefnt í umfjöllun Financial Times sem álbræðsla sem gæti lokað í kreppu áliðnaðarins í heiminum. Offramboð á áli var umtalsvert fyrir tíma kórónuveirunnar en faraldurinn hefur valdið því að eftirspurn hefur hrunið. Gert er ráð fyrir átta prósenta samdrætti í ár.
Ketill Sigurjónsson orkubloggari og framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland segir að í faraldrinum dragi töluvert úr eftirspurn sem bætist við offramboð fyrri ára.
Hrun í eftirspurn eftir áli
Financial Times segir að áliðnaðurinn standi frammi fyrir hruni í eftirspurn sem geti orðið til þess að mörg þúsund manns missi vinnuna. Kórónuveirufaraldurinn hafi valdið því að lykilkaupendur áls haldi að sér höndum í ljósi minnkandi eftirspurnar. Eftirspurnin minnki um átta prósent á þessu ári, samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu CRU. Bílaframleiðendur eins og Peugeot, Volkswagen og Ford hafa þegar dregið verulega úr framleiðslu sinni vegna sóttkvíar, útgöngubanns og minnkandi spurnar eftir bílum.
Meiri samdráttur en í fjármálakreppunni
Álframleiðsla stefnir því í að verða sex milljón tonnum meiri en eftirspurn en gæti orðið fjórum milljónum tonna umfram eftirspurn ef stórir framleiðendur eins og Alcoa og Rio Tinto bregðast hratt við og loka óhagkvæmum álbræðslum. Til þess að setja þessa gríðarlegu offramleiðslu í samhengi bendir Financial Times á að eftir heimskreppuna fyrir rúmum áratug var offramleiðslan innan við fjórar milljónir tonna og þá tók mörg ár að ná þokkalegu jafnvægi.
Álbræðslur loka víða um heim
Eoin Dinsmore, sérfræðingur hjá CRU segir útilokað að koma í veg fyrir offramleiðslu í áliðnaði. Stofnunin gerir ráð fyrir að álbræðslur sem framleiði 900 þúsund tonn af áli árlega verði lokað í Kína og álbræðslur sem framleiði rúmlega eina milljón tonna verði lokað annars staðar í heiminum. Dinsmore gerir ráð fyrir að það verði aðallega í Evrópu og Ástralíu. Alcoa framleiðir árlega þrjár milljónir tonna af áli og tók helming þeirra til rækilegrar endurskoðunar á síðasta ári. Rio Tinto hefur hótað að loka álbræðslum, bæði á Nýja Sjálandi og í Straumsvík í Hafnarfirði, ef ekki fæst lækkun á orkuverði, eins og rakið er í greininni. Ketill segir óvíst hvort komi til lokunar álversins í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík rekið með miklu tapi
Sérfræðingar sem Spegillinn hefur rætt við segja að það sé mjög dýrt að loka álverum. Bæði kostar miklar fjárhæðir að ræsa álbræðslu upp að nýju og svo eru orkusamningar til langs tíma, óháð því hvort álverin eru starfandi eða ekki. Það sé hins vegar líklegra en áður að álverinu í Straumsvík verði lokað. Taprekstur þess sé slíkur að það nálgist að vera hagkvæmt að loka verksmiðjunni og borga fyrir raforkuna og sleppa þannig við tapið. Auk þess minnkar þá álframleiðslan sem gæti stutt við hærra álverð í heiminum. Ketill og aðrir sem Spegillinn hefur rætt við telja hins vegar afar ólíklegt að álverunum fyrir austan eða á Grundartanga verði lokað. Það séu nýrri álbræðslur og með hagstæðari orkusamninga. Ketill segir að álverið fyrir austan greiði eitt lægsta orkuverð í heimi.
Loka þarf álverum í stórum stíl
Álverð var mjög lágt eftir fjármálakrísuna fyrir rúmum áratug en náði hámarki fyrir tveimur árum þegar álverð fór upp í 2.500 dali á tonnið. Það var aðallega vegna refsiaðgerða Bandaríkjanna gegn Rússum sem hafði mikil áhrif á Rusal, stærsta álframleiðanda heims, utan Kína. Álverð hefur síðan lækkað mikið og nálgast nú 1500 dali fyrir tonnið. Hefur ekki verið lægra í fjögur ár. Colin Hamilton, sérfræðingur hjá BMO segir að helmingur álbræðslna í heiminum sé nú rekinn með tapi og reiknar með enn frekari lokun álbræðsla í heiminum. Stóru álfyrirtækin hafi brugðist allt of seint og illa við fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug. Nú þurfi að loka álbræðslum í stórum stíl.