Allir sem halda að þeir geti verið komnir með kórónu-veiruna eiga að fara í sóttkví. Sóttkví þýðir að maður má ekki vera nálægt öðru fólki því maður gæti orðið veikur bráðum. Það er gert svo að fólk smiti ekki aðra ef það er með kórónu-veiruna. Þeir sem þurfa að fara í sóttkví eiga að hringja í sinn lækni og láta vita.
Hvenær fer maður í sóttkví?
Fólk sem fær kórónu-veiruna á að fara í einangrun. Það má ekki vera nálægt öðrum.
Stundum veit fólk ekki að það er komið með veiruna og hittir þess vegna annað fólk. Ef manneskja, sem er smituð af kórónu-veirunni, hefur verið nær þér en 2 metra í meira en 15 mínútur þarft þú að fara í sóttkví.
Þú ferð bara í sóttkví ef það er minna en 24 klukkutímar síðan það kom í ljós að manneskjan væri veik.
Ef þú hefur snert veiku manneskjuna, til dæmis heilsað henni með handabandi eða faðmað hana, eru meiri líkur á að þú hafir smitast af kórónu-veirunni.
Ef einhver sem er með kóróna-veiruna hóstar eða hnerrar á þig, eða nálægt þér, eða á hlut sem þú snertir, getur þú líka veikst. Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason en hann vinnur hjá Almannavörnum.
Hvað á að gera ef maður er ekki viss? „Þá fer fólk í sóttkví þangað til að það er búið að skoða málið betur,“ segir Ævar Pálmi.
Hér er dæmi um sóttkví til að útskýra betur
Gunna er smituð af veirunni. Daginn áður en hún byrjaði að verða veik hitti hún Jón, bróður sinn. Þau fengu sér kaffi og voru saman í meira en 15 mínútur. Þess vegna þarf Jón að fara í sóttkví.
Vegna þess að Jón sýnir engar vísbendingar um að hann sé með kórónu-veiruna mega þeir sem búa með honum fara í vinnuna og skólann. Þau hafa nefnilega ekki sjálf hitt neinn með kórónu-veiruna.
Jón á ekki að vera í sóttkví á sama stað og þau sem búa með honum. Ef það er ekki hægt og Jón þarf að vera heima hjá sér má hann ekki hitta neinn inni á heimilinu.
Ef Jón byrjar að verða veikur þarf að hann að fara í einangrun. Þá eiga allir aðrir á heimilinu að fara í sóttkví.
Margir Íslendingar á leiðinni heim frá útlöndum
Sóttkví þýðir að maður má ekki hitta neinn í 14 daga. Fólk á að hringja í lækni þegar það byrjar í sóttkví og láta vita.
Mjög margir hafa ákveðið sjálfir fara í sóttkví af því að þeir eða einhver í fjölskyldunni þeirra eru viðkvæmir fyrir að verða veikir.
Allir Íslendingar og útlendingar sem búa á Íslandi eiga núna að fara í sóttkví þegar þeir koma frá útlöndum. Það skiptir engu máli frá hvaða landi þau komu.
Fyrir mánuði síðan voru meira en 10 þúsund manns í útlöndum. Nú eru 6 þúsund af þeim komnir og margir á leiðinni heim.