Það er ekki síður mikilvægt að fólk haldi tveggja metra fjarlægð í samskiptum við vini og ættingja en við ókunnuga í búðinni, til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Reglur um samkomubann gilda jafnt í opinberu rými sem einkarými.

Samkvæmt samkomubanni eru allir viðburðir með fleiri en 20 manns bannaðir og mest tuttugu mega vera í sama rými í einu, fyrir utan í stærri matvöruverslunum og lyfjabúðum. Alls staðar þarf að tryggja að minnst tveir metrar séu á milli manna. Þetta á við í vinnunni, í búðinni og líka þar sem vinir koma saman í heimahúsi.

„Fyrsta reglan er náttúrulega tveggja metra fjarlægðin, þegar að fólk er að fara út á meðal annarra, að virða þessa fjarlægð og vera ekki að anda ofan í hálsmálið hjá næsta manni,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Þurfum að læra þetta eins og við lærðum að hætta að heilsast

Mörgum finnst erfitt að átta sig á hvernig á að haga sér í búðinni. „Við sáum þegar við vorum að skoða búðir á laugardaginn að þetta var í lagi á meðan að einhver var að benda á það, en svo bara gleyma menn sér, eru að spjalla, eru að tala í símann og eru alveg komnir upp að næsta manni, þannig að þetta er eitthvað sem að við erum að læra og erum að verða betri í,“ segir Víðir og bendir á að það hafi tekið fólk svolitla stund að læra að heilsast ekki með handabandi.  „Nú er næsta skrefið í þessu að halda tveggja metra fjarlægðinni,“ segir Víðir.

Samkvæmt reglum um samkomubann á að vera aðgangur að sótthreinsandi vökva fyrir hendur við inngang í öllum verslunum og á öðrum opinberum stöðum. Margar verslanir bjóða einnig upp á hanska. Víðir segir að þrátt fyrir góðan vilja gleymi fólk sér oft. „Þar sem að maður sér að fólk gleymir sér, það er þegar það kemur að kassanum. Þegar þú ert með kerruna á undan þér og næsti maður er að raða vörunum sínum á færibandið, að bíða þá bara rólegur þangað til að hann er búinn með sitt,“ segir Víðir.

„Við þurfum alltaf að vera að hugsa um þetta“

En tveggja metra reglan gildir líka í samskiptum við fjölskyldu og vini, hvort sem fólk hittist úti eða inni. „Við höfum aðeins séð þetta að vinahópar eru að hittast og spila og gleyma sér og hafa gaman, eins og við viljum gera, en þá er hópurinn kominn saman og svo fer einhver heim til sín og þar er til dæmis einhver mamman orðin fullorðin eða er með undirliggjandi sjúkdóma eða eitthvað slíkt, og þá er maður hugsanlega búinn að taka smithættu með sér inn á heimilið, þannig að við þurfum alltaf að vera að hugsa um þetta,“ segir Víðir. Það margfaldi smithættuna ef fólk virðir ekki þessi tveggja metra mörk í samskiptum. 

Þetta eigi líka við þegar fólk fer saman í göngutúr eða aðra útivist, alltaf þurfi að gæta að tveggja metra reglunni til að fyrirbyggja smit.

Víðir segist til dæmis bara knúsa þá úr fjölskyldunni sem búa á sama heimili og hann. „Ég knúsa konuna mína og dóttur mína, við búum á sama heimilinu og við erum þétt saman alla daga, en ég knúsa ekki son minn og tengdadóttur því að þau eru á öðru heimili. Þannig að við heilsumst bara úr tveggja metra fjarlægð og það verður gott í sumar að knúsa þau.“