Fækkun ferðamanna til Íslands hefur engin áhrif á áform um að reisa fimm stjörnu hótel við Hörpu, segir einn aðalfjárfestirinn í verkefninu. Hótelið kostar um 20 milljarða króna og verður opnað á næsta ári. Hátt í 400 manns munu vinna á hótelinu.

Við hlið Hörpu hafa um nokkurt skeið staðið yfir framkvæmdir við nýtt fimm stjörnu hótel, Reykjavík Edition, sem verður rekið af Marriott hótelkeðjunni. Töluverðar tafir hafa orðið á framkvæmdunum, upphaflega stóð til að hótelið yrði opnað á þessu ári, en nú er stefnt að því að opna það á því næsta.

„Ég hef haft umsjón með næstum 30 hótelum og ekkert þeirra hefur verið tilbúið á tilsettum tíma. Þetta er mjög algengt í þessum bransa,“ segir Richard L. Friedman, forstjóri og aðaleigandi bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company, og einn aðalfjárfestirinn í verkefninu.

Airbnb og WOW

Upphaflega var gert ráð fyrir að kostnaður við hótelið yrði 16 milljarðar króna en Fridman segir að hann verði nær 20 milljörðum.

„Sem er dýrt, en þetta er fyrsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi. Við reynum ekki að spara neitt. Við viljum byggja upp hótel sem er langtum betra en önnur hótel á Íslandi.“

Á meðal stærstu fjáfesta í verkefninu eru íslenskir lífeyrissjóðir, auk nokkurra einstaklinga. Hótelið er engin smásmíði, alls verður það um 17.000 fermetrar og herbergin verða 253.

Friedman segir að 3-400 manns muni vinna á hótelinu. Ráðningarferli sé að hefjast og hann vonist til þess að sem flestir Íslendingar komi til starfa. Aðspurður segist hann ekki hafa áhyggjur af því að ferðamönnum til Íslands sé að fækka.

„Það veldur okkur engum áhyggjum. Síðasta ferðamannasprengja, ef svo má segja, byggðist lauslega á Airbnb, WOW og öðru slíku. Við reiddum okkur aldrei á það. Hvert sem ég fer í Bandaríkjunum, þar sem ég er að byggja hótel um allt land, finnum við fólk sem segist vilja fara til Íslands en hefur ekki fundið rétta staðinn eða rétta hótelið. Ég held að þetta fari allt vel. Við höfum engar áhyggjur af þessu,“ segir Friedman.